Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
KS kaupir Sláturhúsið á Hellu og Kjötbankann
Fréttir 4. júní 2014

KS kaupir Sláturhúsið á Hellu og Kjötbankann

Höfundur: Freyr Rögnvaldsson
Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur keypt 60 prósenta hlut í Sláturhúsinu á Hellu og einnig 60 prósenta hlut í Kjötbankanum í Hafnarfirði af Þorgils Torfa Jónssyni og tengdum aðilum. Fyrir á Sláturhúsið á Hellu 40 prósenta hlut í Kjötbankanum. Kaupverð er ekki gefið upp. Kaupin voru tilkynnt Samkeppnisstofnun í gær og eru þau háð samþykki stofnunarinnar.
 
KS rekur öfluga afurðastöð á Sauðárkróki sem slátrar sauðfé, nautgripum og hrossum auk þess að eiga helming í Sláturhúsi KVH á Hvammstanga. Sláturhúsið á Hellu er vel tækjum búið stórgripasláturhús og staðsett í öflugu landbúnaðarhéraði. KS hefur um 35 prósenta hlutdeild í sauðfjárslátrun og vinnslu á landinu. Með kaupunum nú  verður hlutfallið orðið svipað í nautakjöti og stefnir í slíkt hið sama hvað varðar hrossaslátrun.
 
Er í sókn í matvælaiðnaði
 
Ágúst Andrésson, forstöðumaður Kjötafurðastöðvar KS, segir að kaupin hafi verið í vinnslu í á annan mánuð. „Við erum auðvitað bara í sókn í þessum matvælaiðnaði, Kaupfélag Skagfirðinga, í landbúnaði og ætlum okkur stærri hlut í þeim efnum. Þannig verður þetta til. Við erum búnir að vera að leita fyrir okkur um með hvaða hætti við getum tengt okkar starf betur inn á höfuðborgarsvæðið. Með þessum kaupum er bakland okkar líka sterkara varðandi það kjötmagn sem við höfum að bjóða, bæði á innlendum og erlendum markaði.“
 
„Þetta mun í sjálfu sér ekki breyta öðru en því að með kaupunum nú kemur KS með mjög öflugum hætti inn á Suðurland. Við ætlum að efla starf okkar þar enn frekar og nýta þekkingu okkar, reynslu og sambönd erlendis til að bæta nýtingu á afurðum. Það er það sem er lagt til grundvallar. Stefnan er að efla starfið á Hellu og í Kjötbankanum enn frekar. Hugsanlega munum við fara í meiri verkaskiptingu, skilja úrbeiningu og grófvinnslu eftir úti í afurðastöðvunum en fullvinnslan fari í gegnum Kjötbankann. Það á við um afurðastöðina á Sauðárkróki og einnig sláturhúsið á Hvammstanga,“ segir Ágúst.
 
Engar breytingar á högum starfsfólks
 
Að sögn Ágústs verða engar breytingar á högum almenns starfsfólks fyrirtækjanna. „Ekki hjá almennu starfsfólki en auðvitað verða ákveðnar breytingar í yfirstjórn.“  Stefnt er að því að efla verulega slátrun og úrvinnslu á nautgripa- og hrossaafurðum og auka enn frekar þjónustu við bændur á Suðurlandi. Það mun leiða af sér fjölgun starfa í nánustu framtíð. 
 
Ágúst segir að nú taki við að kynna sér þá möguleika sem opnist varðandi markaðssetningu og aukna vinnslu afurða. „Á Sauðárkróki höfum verið að sérhæfa okkur og ýta frá okkur allri sérvinnslu. Sú vinnslu aðstaða er hins vegar til staðar í Kjötbankanum og það opnar margar dyr.“
 
Vöntun hefur verið á nautakjöti um töluvert langt skeið. Ágúst telur það ekki vera áhyggjuefni þrátt fyrir að fyrirtækið sé nú að færa út kvíarnar á þessum markaði. „Nei, ég held að þvert á móti séu tækifæri fyrir hendi. Það er að verða smá aukning í nautgripaeldi og með tilkomu öflugs fyrirtækis eins og KS ætti að vera hægt að sækja enn meira fram og vera hvatning fyrir bændur til að framleiða enn meira.“ Ágúst segir jafnframt að KS hafi verið leiðandi í hækkunum á kjötverði til bænda og það muni ekki breytast.
 
Hvað varðar slátrum á hrossum segir Ágúst að næst á dagskrá sé að fá útflutningsleyfi á Rússlandsmarkað fyrir Sláturhúsið á Hellu. „Við munum svo nýta sambönd okkar í Rússlandi og hið nýstofnaða fyrirtæki okkar, IceCorpo, til markaðssetningar þar. Sláturhúsið á Hellu hefur ekki verið stór aðili í hrossaslátrun en Suðurlandi er hins vegar mikið hrossasvæði. Það er því augljóst að það eru mikil sóknarfæri í þeim efnum. Húsið er vel tækjum búið og hægt að auka umsetningu þar umtalsvert.“
 
Vildi helst selja KS
 
Þorgils Torfi Jónsson, framkvæmda-stjóri Sláturhússins á Hellu, segir að í raun hafi ekki staðið til af hans hálfu að selja fyrirtækin. „Þeir [KS] sýndu áhuga og vildu ræða við mig. Ég féllst á það og af því leiddi þessi niðurstaða. Ég var ekki á neinum sölubuxum en af því að það var þessi aðili var ég tilbúinn að hlusta. Einhvern tíma hefði komið að því að ég þyrfti að selja og ef til þess kæmi vildi ég helst selja Kaupfélagi Skagfirðinga. Mér er mikið í mun að það sé sterkur aðili sem tekur við rekstrinum, að hann sé í góðum höndum og í góðri sátt við bændasamfélagið, en fáir þekkja betur til bændasamfélagsins en KS. Það réði fyrst og síðast afstöðu minni og niðurstöðu.“
 
Með samkomulaginu selur Torfi allan sinn hlut í fyrirtækjunum. Þau 40 prósent sem eftir standa í Sláturhúsinu á Hellu eru í eigu á milli 140 og 150 bænda á starfssvæði þess. „Ég mun starfa áfram með KS eins og þeir óska eftir og gera allt sem í mínu valdi stendur til að þessi eigendaskipti gangi eins vel fyrir sig og frekast er kostur. Á einhverjum tímapunkti mun ég síðan draga mig í hlé en það er óráðið hvenær það verður.“
Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...