Kynnti líkamlegt álag hrossa á kynbótasýningum
Alþjóðleg ráðstefna um þjálfunarlífeðlisfræði hesta (ICEEP = International Conference on Equine Exercise Physiology) fór fram í Chester á Englandi fyrr í sumar. Á ráðstefnuna komu vísindamenn víðsvegar að úr heiminum, s.s. frá Evrópu, Asíu, Norður- og Suður-Ameríku og Ástralíu. Á ráðstefnunni er fjallað um allt það nýjasta á sviði þjálfunarlífeðlisfræðirannsókna á hestum á heimsvísu.
Fjögur veggspjöld frá Hólaskóla
Guðrún Stefánsdóttir, doktorsnemi í þjálfunarlífeðlisfræði hesta og kennari við Hólaskóla, fór á ráðstefnuna og var með stutta kynningu á rannsóknaniðurstöðum á líkamlegu álagi íslenskra hesta á kynbótasýningum. Fjögur veggspjöld frá Hólaskóla voru á ráðstefnunni, um frumrannsókn á líkamlegri svörun hjá íslenskum hrossum í kynbótasýningu, um fylgni milli merkinga (krossa) við skeið á dómblaði og styrks mjólkursýru í blóðvökva í íslenskum hrossum á kynbótasýningu, um könnun á þjálfun á íslenskum skeiðhrossum og um huglægt mat á vöðvabyggingu hrossa sem eru skeiðþjálfuð og þeirra sem ekki eruð það.
Mikill heiður
Anna Jansson sem er leiðbeinandi Guðrúnar við doktorsverkefni hennar, var valin í undirbúningsnefnd fyrir næstu ICEEP-ráðstefnu sem verður haldin í Ástralíu árið 2018. Þetta þykir mikill heiður því aðeins fremstu einstaklingar á sviði þjálfunarlífeðlisfræðirannsókna á hestum á heimsvísu komast í þennan undirbúningshóp. Þetta kemur fram á vefsíðu Háskólans á Hólum.