Kýrin Snúlla hefur tvisvar borið tvíkelfingum
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Bændablaðinu barst mynd af frjósamri kú, Snúllu, á bænum Auðkúlu 1 í Húnavatnshreppi. Hún bar sínum fyrsta kálfi 25. júní 2018 og eignaðist svo tvíkelfing 9. júní 2019, naut og kvígu. Svo bar við að Snúlla bar tvíkelfingum á ný 27. júní síðastliðinn, aftur kvígu og nauti. Faðirinn er enginn annar en heimanautið Kölski.
Fjögurra manna fjölskylda býr á Auðkúlu 1, bændurnir Ásgeir Ósmann Valdemarsson og Karen Ósk Guðmundsdóttir og börnin þeirra, Emil Jóhann og Dagbjört Ósk. Svo eru Tara og Kristal heimilishundarnir og Tumi kötturinn á bænum.
„Við erum með holdanautaræktun og u.þ.b. 85 kýr sem bera. Um 110 kýr munu bera hjá okkur á næsta ári. Síðan höfum við nokkur hross okkur til skemmtunar,“ segir Karen Ósk, ánægð með sveitalífið og tvíkelfingana hjá Snúllu. Hún segir Snúllu mjög góða móður sem hugsi vel um kálfana sína sem munu ganga undir henni fram á haust.