Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna lækkun á jafnvægisverði. Kúabændum þykir niðurstaðan athyglisverð fyrir margra hluta sakir.

Viðskipti tilboðsmarkaðarins náðu til 948.900 lítra að andvirði rúmlega 251 milljónar króna. Greiðslumark sem boðið var fram voru rúmlega 1.436 þúsund lítrar en óskað var eftir kaupum á rúmum 1.400 lítrum. Um 66 prósent af framboðnum kvóta seldust. Kaupendur voru 31 talsins en seljendur með tilboð á jafnvægisverði eða lægra voru 16 talsins og seldu þeir 90 prósent af sínu framboðna magni. Tilboð sem uppfylltu skilyrði um forgangsúthlutun til nýliða voru fjögur talsins.

Mest til Skagafjarðar

Eins og í fyrri tilboðsmörkuðum var mest keypt til Skagafjarðar, 362.500 lítrar, sem var rúmlega 38% af keyptu greiðslumarki. Hlutfallið er þó minna en á síðustu tveimur mörkuðum, en 326.400 lítrar voru keyptir til Suðurlands, 115.000 lítrar til Eyjafjarðar, 80.000 lítrar til Vesturlands og 65.000 á svæði Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda. Ekkert var keypt á svæði Búnaðarsambands Suður-Þingeyjarsýslu.

Rúmlega 30 prósent seldra lítra fóru frá búum á Suðurlandi, 292.757 lítrar, Skagfirðingar seldu 275.600 lítra og bú á svæði Búnaðarsambands Suður-Þingeyjarsýslu seldu tæpa 250.000 lítra. Eyfirðingar seldu 109.490 lítra og um 22.000 lítrar voru seldir frá Vesturlandi. Ekkert var selt frá svæði Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda.

Herdís Magna Gunnarsdóttir.
Tvöfalt afurðastöðvaverð

„Það er gleðiefni að markaðurinn virðist vera að virka. Eftirspurn og framboð er svipað og jafnvægisverðið gefur merki um að bændur séu að mætast á miðri leið,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir, kúabóndi og varaformaður Bændasamtaka Íslands.

Hún vísar m.a. til þess að jafnvægisverð virtist alltaf taka mið af hámarksverði þangað til í fyrra þegar það lækkaði og hefur ekki verið lægra síðan í apríl árið 2020. „Nú er jafnvægisverðið akkúrat tvöfalt afurðastöðvaverð eins og kúabændur fóru fram á við endurskoðun búvörusamninga 2019 sem er athyglisvert.“

Hún segist þó hafa átt alveg eins von á að rekstrarumhverfið og tíðin í sumar myndi hafa neikvæð áhrif á eftirspurn eftir greiðslumarki.

Baldur Helgi Benjamínsson.
Vekur áleitnar spurningar

Baldur Helgi Benjamínsson, kúabóndi á Ytri-Tjörnum í Eyjafirði, segir að niðurstaða markaðarins veki athygli.

„Þrátt fyrir að Kaupfélag Skagfirðinga hafi undanfarin misseri kostað talsverðum fjármunum til að halda uppi eftirspurn og verði greiðslumarks í mjólk með gefins lánsfé, er verðið nú um 25% lægra en það var fyrir ári síðan; 265 kr/ltr á móti 350 kr/ltr. Sú staða vekur áleitnar spurningar um hvert verðið væri nú, ef fjársterkur aðili væri ekki með svo víðtæk afskipti af viðskiptum með greiðslumark mjólkur.

Þá er enn þá nokkurt ójafnvægi á markaði, rúmlega þriðjungur af framboðnu magni seldist ekki, fyrirsjáanlegt er að vextir verði áfram mjög háir, lítil endurnýjun er á framleiðsluaðstöðu og sala á innanlandsmarkaði hefur verið góð. Því bendir margt til að verð á greiðslumarki eigi eftir að lækka enn frekar á komandi mánuðum,“ segir Baldur Helgi.

Alþjóðlegt samstarf um líffræðilega fjölbreytni
Fréttir 4. apríl 2025

Alþjóðlegt samstarf um líffræðilega fjölbreytni

Í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er nú hafin vinna við að undirbúa að...

Huldar verur í sviðsljósið
Fréttir 3. apríl 2025

Huldar verur í sviðsljósið

Völva og sjáandi á Akureyri hefur unnið ötullega að því að efla samtal og áhuga ...

Framleiða pakkasósur úr villisveppum á Flateyri
Fréttir 3. apríl 2025

Framleiða pakkasósur úr villisveppum á Flateyri

Hjónin Sæbjörg Freyja Gísladóttir og Eyvindur Atli Ásvaldsson framleiða pakkasós...

Vínbruggun í Húnaþingi í gerjun
Fréttir 2. apríl 2025

Vínbruggun í Húnaþingi í gerjun

Á Hvammstanga er verið að þróa framleiðslu á íslensku víni. Rabarbarafreyðivínið...

Skepnur út undan í almannavörnum
Fréttir 1. apríl 2025

Skepnur út undan í almannavörnum

Dýraverndarsamband Íslands telur brýnt að styrkja stöðu dýra í almannavarnaástan...

Skoða bryggju austan við Vík
Fréttir 31. mars 2025

Skoða bryggju austan við Vík

Fyrirtækið EP Power Minerals Iceland ehf. hyggst gera bryggju við Alviðruhamra á...

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni
Fréttir 28. mars 2025

Ferðaþjónusta sem hluti af heildinni

Nærandi ferðaþjónusta er ný nálgun í ferðaþjónustu sem miðar að því að leggja ræ...

Endingarmeira malbik og vegklæðing
Fréttir 28. mars 2025

Endingarmeira malbik og vegklæðing

Með því að blanda hágæða jarðbiki úr endurunnum þakdúki í malbik eða vegklæðingu...