Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigandi og forstjóri Lambhaga, undirrituðu fyrir skemmstu samkomulag um notkun Lambhaga á upprunamerkinu Íslenskt staðfest.
Íslenskt staðfest er vottað upprunamerki fyrir matvörur og blóm í eigu Bændasamtaka Íslands sem tekið var í notkun í mars árið 2022. Neytendur eiga að geta treyst því að merkið sé eingöngu notað á vörur sem eru framleiddar og pakkað á Íslandi. Framleiðendur ábyrgjast að hráefni sé raunverulega íslenskt og að framleiðsla hafi farið fram á Íslandi.
Lambhagi er einn stærsti framleiðandi á salati og kryddjurtum á Íslandi, stofnað árið 1979.
Í reglum um Ísland staðfest er tiltekið að það megi nota til að merkja grænmeti og plöntur ræktuð á Íslandi út frá fræjum, lauk og útsæði. Það eigi við um allt hrátt grænmeti, líkt og salat, tómata, gúrkur og paprikur.