Landvernd stefnir Landsneti
Landvernd hefur stefnt Landsneti vegna háspennulínu frá Kröflu til Þeistareykja. Landvernd telur að vegna verulegra annmarka á umhverfismati beri að fella úr gildi framkvæmdaleyfi Landsnets fyrir Kröflulínu 4. Héraðsdómur Norðurlands eystra féllst á flýtimeðferð vegna málsins og verður það þingfest á fimmtudaginn.
Samkvæmt fréttatilkynningu vill Landvernd með dómsmálinu koma í veg fyrir eyðileggingu eldhrauna og víðerna við Mývatn. Samtökin telja að unnt sé að flytja raforku til Bakka án þess að raska náttúruverðmætum á þann hátt sem Landsnet áætlar.
„Það er ekki búið að umhverfismeta valkosti sem sneiða framhjá náttúruverðmætunum, s.s. eldhraunum og víðernum. Ekkert umhverfismat hefur farið fram á jarðstrengjum og það teljum við á skjön við umhverfismatslöggjöfina,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Samkvæmt stefnunni mun framkvæmdin raska Leirhnjúkshrauni á óafturkræfan hátt, auk þess sem hún myndi raska Neðra-Bóndhólshrauni, en bæði þessi hraun njóti verndar skv. náttúruverndarlögum.
„Kröflulínu 4 á að reisa með að meðaltali 23 metra háum möstrum sem reist eru á mastraplönum sem verða 100 til 200 fermetrar að stærð hvert. Með allri línunni verður lagður línuvegur. Frá möstrum eru jarðskautsborðar plægðir í jörð mislanga vegalengd og á að plægja þá í vegslóða þar sem hægt er. Framkvæmdin er sveitarfélagamarka Skútustaðahrepps að töluverðu leyti í hrauni og mun skerða óbyggð víðerni,” segir í stefnunni.
Einnig segir þar að Landvernd hafi sent kröfu um að nýtt umhverfismat færi fram fyrir Kröflulínu 4 til Skipulagsstofnunnar árið 2015.
„Við bentum á það fyrir tveimur árum að endurgera þyrfti umhverfismatið. Við höfum því haft tíma,” segir Guðmundur Ingi.
Hæstiréttur hefur nýverið ógilt framkvæmdaleyfi fyrir háspennulínum á Suðurnesjum þar sem ekki hafa verið skoðaðir jarðstrengjakostir. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið beindi því til Skipulagsstofnunar í fyrra að endurskoða málsmeðferð vegna Blöndulínu 3, vegna sama annmarka. Á sama hátt telur Landvernd að umhverfismat verði að fara fram á jarðstrengjum á fyrirhugaðri línu frá Kröflu.
„Einungis þannig verði hægt að meta hvaða valkostir í raforkuflutningi á svæðinu hafa minnst áhrif á einstaka náttúru norðan Mývatns,” segir í fréttatilkynningu Landverndar.