Liðin eru 125 ár síðan fyrsti nemandinn hóf þar nám
Mikið fjölmenni og gríðargóð stemming var á Hvanneyri á laugardaginn í síðustu viku þegar heimamenn blésu til hátíðar í tilefni þess að 125 ár eru liðin síðan fyrsti nemandinn hóf nám við Bændaskólann.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Enn innritast bændur í skóla á Hvanneyri ásamt öðrum nemendum á önnur skólastig en þar er starfræktur leikskóli og grunnskóli, auk Bændadeildarinnar og háskóladeilda LbhÍ. Þessi langa skólasaga og mikla framboð menntunar er nokkuð sérstakt í ekki stærra þorpi og líklega einsdæmi.
Voru hátíðarhöldin tengd við árlegan safnadag þar sem Landbúnaðarsafnið var með sína dráttarvélasýningu og félagar í Fornbílafélagi Borgarfjarðar mættu með lystikerrur á ýmsum aldri. Í Gamla skóla var myndasýning, markaður var í hátíðartjaldi og hestaferðir og skemmtisvæði fyrir börnin.
Tveir fyrrverandi skólastjórar leiddu fólk um svæðið og í Halldórsfjósi var Kvenfélagið 19. júní með kleinur og nýbakaðar pönnukökur. Fullt var út úr dyrum í kaffihúsinu Skemmunni og hjá Árna í Árdal sem seldi lambamána grillaða á staðnum og gos úr íslenskum jurtum.