Líf og dauði skógarplantna
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Brynjar Skúlason, skógfræðingur hjá Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, talaði um líf og dauða skógarplantna á fjórða fræðslufundi vetrarins í Gömlu gróðrarstöðinni á Akureyri þar sem Akureyrarskrifstofa Skógræktar ríkisins og Norðurlandsskógar eru til húsa.
Í erindi sínu tíundaði Brynjar afföll skógarplantna í mismunandi landshlutum og mismunandi jarðvegsgerð. Hjá Norðurlandsskógum er lifun í nýskógrækt að jafnaði rétt um eða yfir 70% eftir 5 ár hjá furu, birki og lerki en talsvert lægri hjá greni. Ályktaði Brynjar sem svo að greni væri ekki heppileg tegund í nýskógrækt á opnum svæðum, a.m.k. ekki norðanlands, enda eðli tegundarinnar miklu fremur að vaxa upp í skjóli eldri trjáa. Sagt er frá erindi Brynjars á vefsíðu Skógræktar ríkisins, skogur.is.
Margar ástæður fyrir afföllum
Fram kemur að ástæður affalla eru margar og afföllin verða á öllum stigum, allt frá sáningu og þar til plöntur eru orðnar stálpaðar í skóginum. Gæði plantnanna skipta miklu máli, hvernig þær eru fluttar að ræktunarstað og geymdar þar til að gróðursetningu kemur, hvernig vinnubrögð eru viðhöfð við gróðursetningu, hversu vönduð skógræktaráætlunin er, hvort vikið er frá settri áætlun og svo að sjálfsögðu tilfallandi náttúrlegar aðstæður, svo sem þurrkar, frost, sjúkdómar, skordýr, frostlyftingavetur og barrsviðnun.
Brynjar fór yfir þessi atriði í fyrirlestrinum og greindi frá tilraunum sem gerðar hafa verið. Fram kom að frekari tilrauna væri þörf til að skilja betur ástæður affalla og til hvaða ráða mætti grípa til að minnka þau. Hins vegar hefðu talsverðar rannsóknir farið fram en sú þekking sem þar hefði verið aflað væri í mörgum tilfellum ekki nægilega vel nýtt.
Ranabjöllulirfan er skæð
Afföll af völdum ranabjöllulirfa eru ein stærsta ástæðan fyrir afföllum ungra skógarplantna. Lirfur bjöllunnar naga rætur og vísaði Brynjar m.a. í athuganir Ásu Aradóttur og Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur frá 1994 sem sýndu að trjáplöntur hefðu mun meiri mótstöðu við ranabjöllunni ef þær hefðu heilbrigða svepprót með sér. Næringarástand plantnanna skiptir líka miklu máli en athyglisvert er í niðurstöðum Ásu og Gyðu að af skógarplöntum sem rannsakaðar voru á 6 svæðum á Héraði og 6 svæðum á Suðurlandi báru allt að 90% merki um nag ranabjöllulirfa. Hann vitnaði einnig til rannsókna Eddu Sigurdísar Oddsdóttur og Guðmundar Halldórssonar frá 2005 þar sem í ljós kom að afföll plantna sem voru ræktaðar í mold úr gömlum lerkiskógi voru minni en afföll þeirra sem voru ræktaðar í venjulegri ræktunarmold. Sömuleiðis vitnaði Brynjar til meistaraverkefnis Rakelar Jónsdóttur frá 2011 þar sem þótti greinilegt að plöntur sem borið hefði verið á yrðu síður fyrir árásum ranabjöllu.
Gott að nesta plöntur með áburði og svepparót
Í erindi sínu fór Brynjar yfir ýmsar aðgerðir sem ráðast mætti í til að auka lifun skógarplantna. Í plöntuuppeldi þyrfti að nýta plöntugerðir markvissar eftir gróðursetningarstað, skoða betur skyggingu og aukalýsingu í samspili við sáningartíma og áburðargjöf, forðast efnivið sem er sérlega viðkvæmur fyrir haustfrostum, þróa áfram aðferðir og aðstöðu til vetrargeymslu utan dyra og skoða leiðir til að tryggja svepprót á skógarplöntum án þess að það skaði framleiðsluaðferðir.
Í gróðursetningarferlinu mælir Brynjar með að plöntur séu nestaðar með áburði og svepprót, ekki síst til að minnka afföll vegna ranabjöllu. Þarna sé seinleystur lífrænn áburður líklega vænlegur kostur og m.a. megi nota amínósýruna arginín til að örva niturupptöku. Sömuleiðis þurfi að huga vel að tegundavali, plöntugerð og -stærð eftir aðstæðum, beita jarðvinnslu þar sem samkeppni er mikil við annan gróður, skoða gróðursetningartímann og fleira.
Dregið verði úr notkun grenis í nýskógrækt
Brynjar mælir með því að verulega verði dregið úr notkun grenis í nýskógrækt. Þá sé einnig vert að skoða niturbindandi tegundir til að auðga jarðveg, til dæmis að prófa að sá hvítsmára eða öðrum tegundum um leið og skógarplantan er sett niður. Athuga verði líka vel hvaða sértækar aðgerðir gegn ranabjöllu eru raunhæfar, hvort sem það eru lífrænar aðferðir eða eiturefni. Innleiða þurfi staðlaða affallaúttekt á öllu landinu þar sem orsök plöntudauða er greind eins og hægt er, hvort sem það er ranabjalla, frostlyfting, köfnun, horfin planta eða annað.