Lömb sett út um leið og hægt er
„Það er fín frjósemi hjá fénu í ár og það lofar góðu,“ segir Bergvin Jóhannsson bóndi á Áshóli í Grýtubakkahreppi, en sauðburður gekk vel.
„Það er mikill munur að geta sett ærnar og lömbin út jafnóðum,“ segir Bergvin, en góður hópur gerði sér að góðu nýsprottið grasið í túni norðan við Áshól þegar Bændablaðið átti leið hjá á dögunum. Bergvin segist setja lömbin út þetta þriggja daga gömul og það létti mjög á þegar hægt er að koma ungviðinu út húsi. Um 430 kindur eru á Áshóli.
Mætti vera hlýrra
Þar er einnig umfangsmikil kartöflurækt og segir Bergvin að hann sé um það bil hálfnaður að setja niður. Landið sé að mestu tilbúið, en það mætti gjarnan vera hlýrra.
„Það hefur sem betur fer ekki komið neitt hret í maí, en verið fremur kalt flesta daga og það er ekki sérlega hagstætt fyrir okkur kartöflubændur. Það gerist lítið í jörðinni þegar veðurfarið er með þeim hætti,“ segir Bergvin.