Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Sveinn Steinarsson .
Sveinn Steinarsson .
Mynd / Hörður Kristjánsson
Fréttir 28. nóvember 2014

Mál til komið að þrætum linni

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Á aðalfundi Félags hrossabænda sem haldinn var á Hótel Sögu föstudaginn 7. nóvember kom fram í ræðu Sveins Steinarssonar formanns um skýrslu stjórnar, að sala hrossaafurða hefur gengið vel þótt afurðaverð sé lágt. Sveinn er áfram formaður félagsins, en tveir nýir komu inn í stjórn.

Formaður gagnrýndi í sinni ræðu hversu ótrúlega einsleitt afurðaverð  væri milli afurðastöðva.Hvatti hann hrossabændur til að gera verðsamanburð þegar til stæði að afsetja hross og reyna þannig að hafa áhrif á afurðaverðið. Greindi hann frá því að Íess bændur hafi sótt um styrk til félagsins til átaks í markaðssetningu og auglýsingu á folaldakjöti. Félagið samþykkti að styrkja verkefnið og fékk framlag úr verðskerðingarsjóði til þess. Þá styrkti félagið einnig með framlagi úr verðskerðingarsjóði hina árlegu meistarakeppni kjötiðnaðarmanna.

Sveinn sagði í samtali við Bændablaðið að verð sem bændur fengju fyrir hross sem seld væru í sláturhús sé dapurlegt. Þá sé ljóst að efla þurfi kynningu á hrossakjöti til að yfirstíga þá neikvæðu ímynd sem það hefur hjá vel flestu fólki. Þá segist hann ekki skilja hvers vegna svo erfitt sé að sinna í verslunum þeirri eftirspurn sem þó er eftir folalda- og hrossakjöti.

„Það er eftirspurn eftir hrossum, en hrossakjöt er síst lakara en nautakjöt. Það er mikið auðveldara að matreiða það og folaldakjöt eða trippakjöt er hreint frábært.“
Sveinn segir að stærstur hluti framparta og verðminni bita af hrossakjöti sé selt úr landi. Þótt verðið sem hrossabændur fá sé kannski ekki hátt, þá hjálpi salan á sláturdýrum til að ná jafnvægi í búgreininni sem að öðru leyti snúist að mestu um sölu á lífhrossum.

Kynning á hrossakjöti

– Nú eru menn að fara í aukna kynningu á hrossakjöti til manneldis, hvernig horfir það við ykkar félagsskap?

„Það hafa einstaklingar tekið sig til og leitað eftir stuðningi frá okkur. Þetta eru Íess bændur í Landeyjum og við erum að styrkja þá í gegnum verðstýringarsjóð. Þeir sjá tækifæri en það þarf að láta reyna á þau. Það er mórölsk afstaða gegn neyslu á hrossakjöti og kannski sér í lagi folaldakjöti.  Ég held að slæm ímynd sé að mestu í kollinum á fólki sem dettur helst í hug saltað og feitt kjöt. Þetta er svolítil mýta sem á ekki rétt á sér.“


Hvernig gengur þá með sölu á lífhrossum?

?„Ég held að það stefni í svipaðan fjölda til útflutnings og í fyrra, eða 1.300 til 1.400 hross. Þá var aukning frá árinu þar á undan svo það hefur verið svolítil stígandi í útflutningi eftir bakslag sem varð í hruninu 2008. Engu að síður þá er kannski ekki mikil sala hér innanlands.

Samningamenn og hrossabændur eru þó sammála um að góð hross, vel tamin og heilbrigð, seljist alltaf. Fyrir þau hefur verið að fást ásættanlegt verð, en vissulega mætti salan vera meiri.“

Framkvæmdastjórinn hættir um áramót

Á aðalfundinum kom fram að Hulda G. Geirsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra FH um árabil, mun láta af störfum um næstu áramót. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort eða hvenær starfið verði auglýst eða hvort leitað verði að nýjum framkvæmdastjóra án auglýsingar. Sveinn segir að Hulda sé búin að vera í þessu starfi í mörg ár, að vísu með hléum, en hún hafi staðið sig mjög vel.

Hulda greindi frá því að nú er unnið að gerð kynningarefnis á vegum félagsins, þar á meðal er myndskreytt kennslubók um hestamennsku fyrir börn sem ber heitið Hestaheimur barnanna.  Sagðist hún vonast til að hönnun og umbroti bókarinnar yrði lokið áður en hún léti af störfum um áramótin.

Sveinn segir að kynningarstarfið sé mikilvægur í starfsemi félagsins. Þar væru reiðkennarar kannski helstu boðberarnir víða um heim. Þeir væru að fara allt árið um kring nánast um allan heim að kenna fólki að umgangast íslenska hestinn.


„Þetta fólk þurfum við að virkja enn betur,“ segir Sveinn.

Löngu mál til komið að þrætum í kringum landsmótin fari að linna

− Landsmót hestamanna er stöðugt umræðuefni meðal hestamanna með endalausum deilum um hvar skuli halda mótið hverju sinni. Kemur Félag hrossabænda eitthvað að þeim málum?

„Nei, félagið kemur ekki beint að mótshaldinu, nema í gegnum Bændasamtök Íslands, sem er eigandi að rekstrarfélagi mótsins. Auðvitað koma þó bændur hver og einn sem ræktendur að þessu og við höfum okkar áhrif. Það er þó fyrst og fremst í hlutverki Landsmóts hestamanna að velja mótsstaðinn.

Þar hafa verið allt of skiptar skoðanir í gegnum tíðina og í mínum huga er löngu mál til komið að þrætum í kringum landsmótin fari að linna. Landsmót hestamanna er eftirsóknarverður og glæsilegur viðburður. Margar búgreinar vildu eiga slíkt fjöregg í sínum fórum. Einhvern veginn hefur samt orðið allt of mikil togstreita í kringum staðarval og svolítið um innihald landsmótsins líka.“

− Nú gagnrýndu ýmsir þann langa tíma sem mótshaldið er farið að taka eins og á Hellu þar sem í þetta fóru átta dagar. Hvernig horfir þetta við þér?

„Tímalengdin er gagnrýnd og kannski ekki síst fyrir það að mikill kostnaður fylgir slíku úthaldi. Þótt þeir sem aldrei fá nóg, segi að fólk geti þá bara valið sér þann tíma sem það vill vera, þá er það ekki alveg svo einfalt. Fólk vill gjarnan sjá landsmótið í heild sinni eða allavega stærstan hluta þess en það er íþyngjandi að hafa mótið í heila viku eða þaðan af meira.“

Hyggjast móta tillögur um landsmótshald fyrir næsta aðalfund

− Nú spyrja menn sig m.a. hvort hestadómar séu nauðsynlegir eins og þeir hafa verið framkvæmdir á landsmóti. Er ekki hægt að láta dóma í héraði duga?

„Við tókum einmitt hringborðs­umræður um þetta mál á aðalfundinum og hvort ekki mætti framkvæma þetta með öðrum hætti. Ýmsum hugmyndum var kastað upp. Það er von okkar í stjórninni að fyrir næsta aðalfund 2015 getum við lagt fram fullmótaða tillögu um hvernig aðkomu kynbótahrossanna verði háttað og hvernig við viljum koma að mótinu. Það varðar bæði fjölda hrossa á mótinu og eins hvaða form verður á  sýningu hrossanna.“

− Nú hefur svifið yfir vötnum að hugsanlega klofni landsmótshaldið í mót í Reykjavík og á landsbyggðinni. Hvernig sýnist þér lendingin verða?

„Það hafa komið hugmyndir upp áður um að landsmótinu verði splittað upp í mót fyrir kynbótahross og hins vegar í keppnismót. Ég held að sú umræða sé þó búin, því menn vilja hafa mótið með líku sniði og við þekkjum það, en reyna að forma það betur.  Við þurfum bara að taka yfirvegaða umræðu um þetta og reyna að klára hana.“

Sveinn segir að menn hafi nefnt á aðalfundinum að mótshaldið verði stytt niður í fjóra til fimm daga.

„Ég held að það sé raunhæft því mönnum finnst átta daga mótshald meira en yfirdrifið. Síðan er þetta svo kostnaðarsamt og slíkt mótshald er alls ekki að standa undir sér.

Ég hef fulla trú á að ný stjórn Landssambands hestamanna ráði fram úr landsmótsmálunum og komi því í góðan farveg,“ sagði Sveinn.

Tveir nýir kosnir í stjórn

Á aðalfundinum Félags hrossa­bænda fór fram stjórnarkjör og var Jón Bjarni Þorvarðarson á Bergi kjörinn nýr inn í stjórn. Einnig var Vignir Sigurðsson, Litlu-Brekku, endurkjörinn í stjórnina til þriggja ára, en Sigbjörn Björnsson á Lundum II, stjórnarmaður til 12 ára, gaf ekki kost á sér aftur og voru honum þökkuð farsæl og góð störf. Þá var Eysteinn Leifsson kjörinn í aðalstjórn til eins árs, en hann hefur undanfarið setið sem varamaður eftir að Ólafur Einarsson á Torfastöðum lét af störfum.

Í varastjórn voru kjörnir þeir Sigríkur Jónsson, Syðri-Úlfsstöðum, Þórður Júlíusson, Skorrastað og Magnús Magnússon, Íbishóli.

Stjórn Félags hrossabænda er þá þannig skipuð:
Sveinn Steinarsson, Litlalandi í Ölfusi, er formaður. Með honum í stjórn eru Vignir Sigurðsson, Litlu-Brekku í Eyjafirði, gjaldkeri, Eysteinn Leifsson í Mosfellsbæ, Magnús Jósefsson, í Steinnesi í Austur-Húnavatnssýslu og Jón Bjarni Þorvarðarson, á Bergi við Grundarfjörð.

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...