Margir telja að erlendir ferðamenn auki áhuga landans á íslenskri náttúru
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Niðurstöður liggja nú fyrir úr könnun um ferðalög Íslendinga á árinu 2013 og ferðaáform þeirra á árinu 2014, sem Ferðamálastofa fékk MMR til að gera í janúar síðastliðnum. Er þetta fimmta árið í röð sem könnun Ferðamálastofu um ferðahegðun landsmanna er gerð með sambærilegum hætti. Greint er frá niðurstöðum könnunarinnar á vefsíðu Ferðamálastofu.
Spurningalistinn er að mestu leyti sá sami og í fyrra en að þessu sinni voru svarendur í fyrsta sinn beðnir um að taka afstöðu til fimm fullyrðinga um áhrif ferðaþjónustu og erlendra ferðamanna á náttúru og samfélag. Flestir (65%) eru á því að erlendir ferðamenn hafi aukið áhuga Íslendinga á íslenskri náttúru en eru jafnframt á því (63%) að álag ferðamanna á íslenska náttúru sé of mikið. Að mati 59% svarenda hefur ferðaþjónusta skapað eftirsóknarverð störf í þeirra heimabyggð og 58% eru á því að ferðamenn hafi aukið áhuga Íslendinga á eigin menningu. 42% töldu hins vegar að ferðaþjónusta hefði leitt til fjölbreyttari þjónustu sem þeir hefðu nýtt sér.
Íslendingar ferðaglaðir sem fyrr
Af fjölmörgum áhugaverðum niðurstöðum könnunar Ferðamálastofu má nefna að þó svo álíka margir hafi verið á faraldsfæti innanlands árið 2013 og 2012, eða níu af hverju tíu svarendum, fóru þeir færri ferðir eða um 5,7 talsins árið 2013 í samanburði við 6,8 ferðir árið 2012. Þetta hefur þó ekki haft áhrif á meðaldvalarlengd á ferðalögum sem er svipuð milli ára eða um 15 nætur.
Sjá nánar í blaðinu á blaðsíðu 26.