Mikið kal á Jökuldal
Mikið kal er í túnum á Jökuldal og er það sums staðar allt upp í 60 prósent. Bændur þar hafa þurft að endurrækta tugi hektara túna vegna þess.
Búnaðarsamband Austurlands samdi við Þórarin Lárusson ráðunaut um að meta kaltjónið. „Ég tók út tjón á þremur bæjum og það hafa myndast þar einhverjar þær veðurfarsaðstæður sem gerðu að verkum að það hefur safnast svell á flest túnin. Þau eru illa kalin, frá 50 og upp í 60 prósenta kal. Þetta er afgerandi á þessum þremur bæjum en það er kal víðar en þar. Þetta eru bæirnir Merki, Hákonarstaðir og Klaustursel, þar er einna mest kal.“
Túnin sem um ræðir eru flest í um 250 metra hæð yfir sjávarmáli og má segja að þar hafi myndast einhvers konar kalpottur. Bændur hafa þegar endurræktað talsverðan hluta þeirra túna sem kól. Á Klausturseli er til að mynda þegar búið að endurrækta 20 hektara túna sem kól. „Á 600 kinda búi er það ansi mikið,“ segir Aðalsteinn Jónsson, bóndi í Klausturseli. Tíð hefur verið með eindæmum góð á Austurlandi í vor og það sem af er sumri. Mun það hjálpa til við uppskeru en ljóst er að mikill kostnaður hefur hlotist af kalskemmdunum.