Milljón afbrigði geymd í frosti
Fyrir stuttu náðist sá merki áfangi að milljónasta afbrigðið af nytjaplöntu var komið fyrir í frægeymslu NorGen á Svalbarða. Háar upphæðir hafa farið til viðhalds frægeymslunnar undanfarna mánuði.
Hlýnun lofthita á jörðinni, útþensla ræktarlands og borga, aukin einsleitni í ræktun og fleiri þættir gera það að verkum að sífellt fleiri ræktunarafbrigði nytjaplantna eru í ræktun. Með einsleitari ræktun eru erfðaefni nytjaplantna sem gætu átt eftir að koma að góðu að tapast. Tilgangur frægeymslunnar á Svalbarða er að geyma slík afbrigði í frosti til seinni tíma rannsókna og ræktunar.
Komið í veg fyrir leka
Talsverðar umbætur hafa verið gerðar á frægeymslunni eftir að upp kom vatnsleki í inngangi hennar eftir óvenju miklar leysingar á Svalbarða árið 2017. Viðgerðirnar, sem Norðmenn greiddu fyrir, kostuðu hátt í 20 milljón evrur, eða tæpan 3,8 milljarða íslenskra króna. Upphaflegur kostnaður við frægeymsluna árið 2008 var 9 milljarðar evra, eða um 1,3 milljarðar íslenskra króna.
Nytjaplöntur og ættingjar þeirra
Sýni í frægeymslunni koma alls staðar að úr heiminum og hefur geymsla vaxið úr því að vera geymsla fyrir norrænar nytjajurtir í að vera alþjóðleg frægeymsla. Í dag er þar meðal annars að finna sýnishorn af nytjaplöntum frá stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi, frá indíánum í Norður-Ameríku, Perú og Nýja-Sjálandi
Auk þess að geyma fræ af þekktum nytjaplöntum er í geymslunni að finna fjölda fræja af nánum ættingjum nytjaplantna sem gætu reynst þolnir gegn ýmsum plöntusjúkdómum og öðrum óværum sem leggjast á plöntur.