Minkur til Danmerkur
Hópur danskra minkabænda, sem kallast Dansk mink, vinnur nú að því að endurvekja minkaeldi þar í landi. Erik Vammen er staddur hér á landi til að kaupa um 3.000 minkalæður og nokkra högna til að flytja til Danmerkur í þeim tilgangi að endurreisa greinina.
Öllum minkum í Danmörku var lógað í kjölfar þess að Covid-19 smit fannst í eldisminkum þar seint á árinu 2020. Vammen segir að þrátt fyrir að samkvæmt lögum megi hefja minkaeldi í landinu aftur um næstu áramót sé enn margt óljóst í því sambandi. „Stjórnvöld í Danmörku hafa ekkert gert til að aðstoða okkur sem stefnum að því að hefja eldið aftur og svara ekki spurningum sem tengjast innflutningi á minkum frá Íslandi. Við vitum til dæmis ekki hvort við verðum að láta Covid- greina hvern einasta mink sem stendur til að flytja til Danmerkur eða ekki, þrátt fyrir að það hafi ekki komið upp Covid-smit í íslenskum minkum.“
Nánast allir loðdýrabændur, sem voru yfir þúsund í landinu, undirrituðu samning við ríkið þar sem þeir samþykktu að selja býlið sitt og hefja ekki minkaeldi aftur í tíu ár. Að sögn Vammen snerist raunveruleg ástæða fyrir því að öllum minkum var lógað í Danmörku aldrei um Covid eða lýðheilsu. „Ástæðan var persónuleg andstaða Mette Frederiksen forsætisráðherra á loðdýraeldi, enda tók hún nánast einhliða ákvörðum um að leggja greinina í rúst. Svo ekki sé talað um klúðrið og kostnaðinn sem fylgdi framkvæmdinni.“
Gangi áformin eftir verða fyrstu minkarnir sendir út skömmu eftir miðjan janúar næstkomandi.
Sjá nánar bls. 22–23. í Bændablaðinu sem kom út í dag