Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Mjólkurframleiðsla á Norðurlöndunum hefur ekki verið meiri í rúman áratug
Fréttir 22. júlí 2014

Mjólkurframleiðsla á Norðurlöndunum hefur ekki verið meiri í rúman áratug

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Í byrjun júní var haldinn ársfundur samtakanna NMSM (samstarfsvettvangur afurðastöðva í mjólkuriðnaði á Norðurlöndunum um mjólkurgæði) en fundurinn var haldinn í Hamra í Svíþjóð. Á þessum fundi var að vanda farið yfir helstu sameiginlegu hagsmunamál afurðastöðva Norðurlandanna þegar horft er til mjólkurframleiðslunnar, mjólkurgæða, mjaltatækninnar og dýravelferðar og -heilbrigðis. Eitt af eftirtektarverðustu verkefnum þessara samtaka er að taka saman tölfræði um helstu grunnþætti mjólkurframleiðslu Norðurlandanna en síðasta ár framleiddu löndin til samans 11,7 milljarða lítra mjólkur, en innvigtun mjólkur hefur ekki verið meiri á þessari öld.

28 þúsund kúabú

Árið 2013 varð þróunin á fjölda kúabúa áþekk því sem sést hefur undanfarin ár og fækkaði framleiðslueiningunum um 1.279 bú. Alls var fjöldi kúabúa Norðurlandanna um áramótin 27.831 bú en til samanburðar má nefna það að árið 1993 voru starfrækt 97.552 kúabú á Norðurlöndunum. Flest búanna, 34,0%, eru í Noregi en þar voru samtals 9.464 bú um síðustu áramót og svo kemur Finnland rétt á eftir með 9.292 bú. Í báðum þessum löndum varð einnig langmest hlutfallsleg fækkun búa á árinu, en af þeim 1.279 sem hættu búskap á Norðurlöndunum varð hlutfallsleg fækkun um 5,4% í Finnlandi og 5,2% í Noregi á meðan þetta hlutfall var t.d. lægst hér á Íslandi (2,2%).

1,4 milljónir kúa

Á síðasta ári dró heldur úr fjölda mjólkurkúa á Norðurlöndunum en alls voru skráðar 1.446.288 mjólkurkýr um áramótin og fækkaði þeim um 18 þúsund frá árinu 2012 og alls hefur mjólkurkúm fækkað um rúmlega hálfa milljón á síðustu 20 árum. Langflestar kýrnar eru í Danmörku eða 567 þúsund talsins og þar á eftir kemur Svíþjóð með 346 þúsund. Vart kemur á óvart að hér á landi eru fæstar kýr, eða um 24 þúsund.

Meðalbúið nú með 52,0 árskýr

Fyrir 20 árum var meðalstærð kúabúanna 20,4 árskýr en um síðustu áramótin voru búin að jafnaði með 52,0 árskýr og stækkaði meðalbúið um 1,7 árskú frá árinu 2012. Líkt og fyrri ár eru kúabúin í Danmörku langstærst og eru þar nú að jafnaði 154,0 kýr á hverju búi og hefur meðalbúið fjórfaldast að stærð á síðustu 20 árum. Næststærstu búin er svo að finna í Svíþjóð þar sem eru 73,0 árskýr að jafnaði. Minnstur er fjöldinn í Noregi, þar sem eru ekki nema 24,2 árskýr að meðaltali. Sé hins vegar horft til meðal bústærðar búa í skýrsluhaldskerfum Norðurlandanna verður þessi munur enn meiri en meðal skýrsluhaldsbúið í Danmörku er með 161,8 kýr á meðan meðal norska kúabúið er með 24,2 kýr.

11,7 milljarðar lítra

Árið 2013 var einkar gott fram­leiðslu­ár á Norðurlöndunum og nam heildarinnvigtun mjólkurinnar 11,735 milljörðum lítra og þarf að fara allt aftur til ársins 2000 til þess að finna álíka mjólkurframleiðslu. Alls jókst framleiðslan um 102 milljónir lítra miðað við árið 2012 sem eru vissulega góð tíðindi og segir sitt um þann kraft sem búgreinin býr yfir á sama tíma að kúabúunum og kúnum fækkaði.
Sé horft til framleiðslu einstakra landa þá trónir danska mjólkurframleiðslan á toppnum að vanda en þar voru vigtaðir inn 5,026 milljarðar lítra í fyrsta skipti í sögunni og jókst framleiðslan þar í landi um 97 milljónir lítra frá fyrra ári. Danmörk er eina landið á Norðurlöndunum þar sem framleiðslan hefur aukist ár frá ári síðasta áratug. Næstmesta framleiðsluaukningin kom fram í Finnlandi, en þar jókst innvigtun um 14 milljónir lítra og endaði hún í 2,202 milljörðum. Í Noregi varð 7 milljón lítra samdráttur í framleiðslunni en heildarinnvigtunin nam 1,780 milljörðum lítra. Í Svíþjóð stóð framleiðslan í stað á milli ára og endaði í 2,860 milljörðum lítra, en hér á landi var örlítill samdráttur og endaði innvigtunin í 123 milljónum lítra.

Meðalbúið jók framleiðsluna um 5,5%

Sé horft til innvigtunar mjólkur og fjölda kúabúa hvers lands kemur fram gríðarlegur munur á framleiðslu búanna á milli Norðurlandanna. Meðalbúið á Norðurlöndum lagði inn í afurðastöð á síðasta ári 422 þúsund lítra, sem er 5,5% meira en árið 2012. Það eru þó einungis bændur í tveimur löndum sem eru fyrir ofan meðaltalið, þ.e. í Danmörku með 1,365 milljónir lítra og í Svíþjóð með 702 þúsund lítra. Finnskir bændur eru þriðju í röðinni með 264 þúsund lítra, þá kúabændur hér á landi með 194 þúsund lítra og skammt undan eru norskir kúabændur með 188 þúsund lítra.

Meðalkýrin skilar 8.114 lítrum í afurðastöð

Þegar meðalafurðir kúa eru metnar er ýmist litið til skýrsluhaldsafurða eða meðalafurða sem lagðar eru í afurðastöð. Þarna munar verulega miklu enda má vænta þess að þau kúabú sem ekki eru með í skýrsluhaldi hafi lægri meðalafurðir auk þess sem reiknaðar meðalafurðir kúa miðað við innlagða mjólk verða alltaf töluvert lægri en skýrsluhaldsafurðir vegna heimanota mjólkur og mögulega rangra afurðamælinga svo dæmi sé tekið. Miðað við innlagðar afurðir þá jukust meðalafurðir norrænna kúa um 169 lítra á síðasta ári og skilaði meðalkýrin 8.114 lítrum í afurðastöð. Afurðamestu kýrnar standa í sænskum fjósum, þar sem 9.621 lítrar skila sér að jafnaði eftir kúna inn í afurðastöð en kýrnar hér á landi mjólka allra norrænna kúa minnst og skila sér ekki nema 5.289 lítrar í afurðastöð eftir kúna. Næstminnstar afurðir eru meðal norskra kúa en þær skila þó 47% meira í afurðastöð en hinar íslensku frænkur þeirra, alls 7.759 lítrum.

Mestar skýrsluhaldsafurðir í Danmörku

Þegar skoðaðar eru meðalafurðir kúa í skýrsluhaldi landanna fimm kemur í ljós að meðalafurðirnar hér á landi, 5.555 kg af orkuleiðréttri mjólk, eru áberandi lægstar. Bilið í næstafurðaminnstu kýrnar, í Noregi, eru 2.113 kíló. Afurðamestu kýrnar voru hins vegar í Danmörku en meðalnyt þeirra (orkuleiðrétt) var 9.603 kg og vantar því 4.048 kg upp á afurðirnar hér á landi til þess að ná að jafna þær dönsku. Vegin meðalnyt allra skýrslufærðra kúa á Norðurlöndunum árið 2013 var 9.101kg af orkuleiðréttri mjólk, sem er aukning um 72 kg frá árinu 2012.

Lægsta frumutalan enn í Noregi

Undanfarin 20 ár hefur frumutala tankmeðaltals verið lægst í Noregi og síðasta ár skar sig ekki úr hvað það snertir, en margfeldismeðaltalið endaði í 131 þúsundum/ml. Finnland er þó afar skammt undan með 132 þúsund frumur/ml en slökust eru mjólkurgæðin í Danmörku, þar sem meðaltalið var 212 þúsund/ml árið 2013, sem þó var allt góð bæting frá árinu 2012 er það var 221 þúsund/ml.

Mikil frjósemi hér á landi

Við þennan fróðlega samanburð á milli landanna kemur einnig fram að íslenskar kýr eru frjósamar og halda vel enda líða að jafnaði ekki nema 87 dagar frá burði þar til kýr festa fang á meðan finnsku kýrnar taka 150 daga í þetta ferli. Þetta skýrist ekki af því að kýr hér beiði fyrr en tiltölulega lítill munur er á því hvenær fyrsta sæðing fer fram. Vegna hinnar góðu frjósemi hér á landi er meðaltal bils á milli burða einnig lægst hér á landi en árið 2013 liðu 371 dagar að jafnaði á milli burða, sem er stytting um 2 daga frá árinu 2012. Hins vegar bera íslenskar kvígur elstar eða 889 daga gamlar en þær dönsku bera yngstar eða 777 daga gamlar.

Dauðfæddir kálfar enn vandamál

Þá kom fram að sem fyrr eru flestir dauðfæddir kálfar hér á landi eða 12,0% sem er um helmingi hærra en í Danmörku sem er með næstflesta dauðfædda kálfa (6,3%). Lægst er þetta hlutfall í Noregi þar sem 3,7% kálfa eru skráðir dauðfæddir en bæði í Svíþjóð og Finnlandi var þetta hlutfall 5,8% á síðasta ári. Sé hins vegar horft til lífslíkna kálfa, þ.e. hve hátt hlutfall lifandi fæddra kálfa drepst innan við 180 daga frá fæðingu, þá er hlutfallið hæst í Danmörku þar sem 9,1% kálfanna drepst á þessu tímabili. Ísland er þarna með 6,2% en Finnland með 5,3% og Noregur 3,9%. Í Svíþjóð er þetta lægst, þ.e. 2,7%, en setja þarf fyrirvara við þá tölu þar sem hún byggir á skráningu frá fæðingu til 90 daga aldurs. Næstu 90 daga gerist alltaf eitthvað, þó svo að efast megi um að talan hækki stórkostlega.

Hvar eru heilsufarsgögnin?

Í svona norrænum samanburði verður afar áberandi hve langt við erum á eftir í nýtingu upplýsinga um sjúkdóma og aðrar sambærilegar heilsufarsupplýsingar frá kúabúum. Allauðvelt er að bera saman margs konar upplýsingar úr skýrsluhaldskerfunum, þar sem bændurnir hafa sjálfir skráð inn upplýsingarnar en þegar kemur að heilsufarsupplýsingum þá erum við bara langt á eftir. Þessar upplýsingar, t.d. um tíðni súrdoða, doða, júgurbólgu eða legbólgu, geldstöðumeðhöndlun, lyfjanotkun og virkni m.m., eru notaðar, á öllum hinum Norðurlöndunum, bæði af bændum, dýralæknum og ráðunautum við skipulag bústjórnar, auk þess sem upplýsingarnar eru gagnlegar við samanburð á milli búa og landa. Einhverra hluta vegna eru þessar upplýsingar ekki aðgengilegar hér á landi, jafnvel þó svo að kúabúin séu nú orðið tiltölulega fá og kýrnar klárlega ekki margar svo verkefnið ætti að vera yfirstíganlegt. Leiki vafi á uppbyggingu slíkra kerfa og mögnuðum nýtingarmöguleika þeirra, þá eru til afar góð úrvinnslukerfi nú þegar á hinum Norðurlöndunum, svo algjörlega er óþarft að finna hér upp enn eitt íslenska hjólið.

Færri útflutt hross
Fréttir 7. janúar 2025

Færri útflutt hross

Útflutningur íslenskra hrossa árið 2024 verður minni en í fyrra.

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt
Fréttir 7. janúar 2025

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt

Ákveðið hefur verið að flytja meðferðarheimilið Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rang...

Smáforrit til að panta sæðingar
Fréttir 6. janúar 2025

Smáforrit til að panta sæðingar

Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frj...

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins
Fréttir 6. janúar 2025

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins

Haukur Bjarnason, bóndi á hrossaræktarbúinu Skáney í Reykholtsdal, er nýr formað...

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Fréttir 6. janúar 2025

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti

Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands o...

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...