Mótmælir því að Árborg fái afslátt frá reglum um skólprennsli í Ölfusá
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Veiðifélags Árnesinga samþykkti ályktun um frárennsli í Ölfusá á aðalfundi sínum sem haldinn var að Þingborg föstudaginn 25. apríl síðastliðinn. Þar er mótmælt fyrirhuguðum breytingum á reglugerð um fráveitur og skólp sem gefi sveitarfélaginu afslátt frá gildandi reglugerð.
Tildrög ályktunarinnar er að unnið er að endurskoðun reglugerðar nr. 798/1999, um fráveitur og skólp. Aðalfundarfulltrúar voru greinilega ekki hressir með framgang mál að því er fram kemur í ályktun fundarins sem, Jörundur Gauksson, formaður Veiðifélags Árnesinga, kom á framfæri við Bændablaðið.
„Þær ótrúlegu upplýsingar hafa borist að unnið sé að því að breyta ákvæðum hennar m.a. í því skyni að sveitarfélaginu Árborg verði heimilt að nota Ölfusá sem viðtaka frá eins þreps skólphreinsistöð.
Vatnasvið Ölfusár og lífríki hennar nýtur sérstakrar verndar í lögum og núgildandi reglugerð um fráveitur og skólp. Breyting á reglugerðinni haggar ekki þeirri sérstöku vernd sem Ölfusá nýtur að lögum.
Félagsmenn Veiðifélags Árnesinga eru eigendur hátt á þriðja hundrað jarða í Árnessýslu.
Skorar aðalfundur á Sigurð Inga Jóhannsson, ráðherra umhverfis-, auðlinda- og landbúnaðarmála, að gæta þess að fyrirhugaðar breytingar verði ekki gerðar á reglugerðinni og tryggi að Ölfusá njóti þeirra verndar sem henni ber og nýtur að lögum,“ segir í ályktuninni.