MP banki kannar kaupáhuga
Á síðustu mánuðum hafa margir fjárfestar haft samband við Bændasamtök Íslands (BÍ) og lýst yfir áhuga á að kaupa fasteign og rekstur Hótels Sögu. Í ljósi þess hefur stjórn Bændasamtaka Íslands ákveðið að ráða fyrirtækjaráðgjöf MP banka til þess að sjá um söluferlið.
Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, segir mikilvægt að athugun á hugsanlegri sölu á þessari eign Bændasamtakanna sé í gegnsæju ferli og ekki á könnu stjórnarinnar einnar.
− Nú hefur á undanförnum árum margoft verið varpað upp hugmyndum á búnaðarþingi og víðar meðal bænda, hvort ekki væri rétt að skoða framtíðarfyrirkomulag varðandi reksturinn á Hótel Sögu og jafnvel að selja hótelið. Hvað veldur því að málið er tekið upp núna?
„Á síðasta búnaðarþingi ákváðum við að setja málið í ákveðinn farveg. Við kynntum fyrir búnaðarþingsfulltrúum samkomulag sem gert var við Arion banka. Þá gáfum við mönnum kost á að ræða aðeins framtíð Hótels Sögu og stilltum þar upp nokkrum kostum. Það væri að reka hótelið áfram, leigja reksturinn eða hugsanlega að selja allt saman. Þessar hugmyndir voru bornar saman og þegar menn höfðu fengið tækifæri til að segja sínar skoðanir á því tók stjórn BÍ ákvörðun um í hvaða farveg ætti að setja málið.
Í ljósi þess að nokkrir aðilar settu sig í samband við okkur og lýstu áhuga sínum á að kaupa hótelið, þá vildum við koma því í ákveðinn farveg. Þar sem um er að ræða stór félagasamtök er mikilvægt að slíkt ferli sé framkvæmt með gegnsæjum hætti. Við sömdum því við MP banka um að annast þessi samskipti við áhugasama fjárfesta.“
Hótel Ísland framselt til Arion banka
Varðandi uppgjör á erfiðri skuldastöðu hótelsins í kjölfar hruns krónunnar 2008, þá segir Sindri að það mál hafi verið gert upp við Arion banka. Niðurstaðan hafi falist í að BÍ lagði félaginu til nýtt hlutafé og hluti langtímaskulda var endurfjármagnaður. Samkomulagið fól einnig í sér að Bændasamtökin og Hótel Saga framseldu hlutabréf sín í Hótel Íslandi. Segir hann að eftir standi Hótel Saga sem vel rekstrarhæf eining og reksturinn hafi gengið mjög vel.
Hálfrar aldar saga
Hótelið er í eigu Hótels Sögu ehf. sem er 50 ára gamalt fyrirtæki í eigu Bændasamtaka Íslands. Á hótelinu eru 209 herbergi, tíu funda- og veislusalir og tveir veitingastaðir. Þar starfa um 100 manns. Fasteign Hótels Sögu ehf. við Hagatorg er um 19.000 fermetrar að stærð og hýsir hótelstarfsemi, veitingastaði, banka, hárgreiðslustofu, líkamsræktarstöð og fleira. Skrifstofur Bændasamtaka Íslands eru á þriðju hæð fasteignarinnar.
Sindri segir að samhliða miklum vexti í ferðaþjónustu hafi rekstur Hótels Sögu gengið vel.
„Þá benda áætlanir til þess að enn meiri aukning verði á fjölda ferðamanna næstu árin. Bændasamtökin vilja leita allra leiða til þess að ávaxta eignir sínar með viðunandi hætti. Nú er rétti tíminn til að skoða hvort það geti verið hagfellt fyrir Bændasamtökin að eftirláta sérhæfðan hótelrekstur í hendur aðila sem vilja byggja sig upp á þeim vettvangi en ávaxta þess í stað eignir samtakanna með öðrum hætti.“
Vinna MP banka felst m.a. í að taka saman upplýsingar um hótelið og annast kynningu fyrir áhugasama kaupendur með gegnsæjum hætti. Þannig er að mati stjórnar BÍ tryggt jafnræði meðal áhugasamra fjárfesta. Endanleg ákvörðun um sölu verður síðan tekin af Búnaðarþingi.