Nafnspjaldamyndir af öllum kindum búsins
„Ég er mikil áhugamanneskja um kindur enda ólst ég upp í sveit og hef alltaf haft gaman af kindum,“ segir Birgitta Lúðvíksdóttir, bóndi á Möðruvöllum 3 í Hörgárdal.
„Ég hef líka mjög gaman af að taka myndir. Ég er búin að taka svona nafnspjaldamyndir af kindum síðan 2007, allt til gamans gert. Ég tek t.d. myndir af öllum lömbunum áður en þau fara á fjall. Það fóru 254 lömb á fjall síðasta sumar og ég átti myndir af þeim öllum. Ég hef líka tekið myndir af lömbum á vorin og aftur á haustin til að gera samanburð.“
Birgitta býr á Möðruvöllum 3 ásamt Þórði Gunnari Sigurjónssyni, manni sínum, og börnum þeirra. Bróðir Þórðar, Sigmundur Sigurjónsson, er meðeigandi, hann býr á Akureyri. Á búinu eru 243 kindur, sem Birgitta myndar í bak og fyrir og setur á spjöld. Skemmtilegt framtak, sem vekur alltaf mikla athygli gesta sem koma í heimsókn til fjölskyldunnar á Möðruvöllum.