Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Norrænt samstarf um sauðfjár- og geitfjárrækt – InterNorden
Fréttir 10. nóvember 2014

Norrænt samstarf um sauðfjár- og geitfjárrækt – InterNorden

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson

Íslenskir búvísindamenn hafa verið virkir þátttakendur í faglegu samstarfi um sauðfjár- og geitfjárrækt síðan um miðja síðustu öld undir merkjum InterNorden.

Á liðnu sumri var haldin 32. ráðstefnan, í Noregi að þessu sinni, en þær eru að jafnaði haldnar annað hvert ár.

Áhersla á úthagabeit og sæðingastarfsemi

Ráðstefnan var haldin við ágæt skilyrði í Spidsbergseter í Opplandfylki, hátt til fjalla í Guðbrandsdal, þar sem rík hefð er fyrir afréttabeit sauðfjár- og geitfjár, enn að hluta til í seljum. Á næsta leiti er elsti norski þjóðgarðurinn, Rondane, stofnaður 1962 og stækkaður 2003. Þátttakendur voru um 30, en dagskráin dagana tvo, frá hádegi 11. til hádegis 13. ágúst, samanstóð af 15 erindum og kynnisferðum til bæði sauðfjár- og geitfjárbænda og á sæðingastöð. Sá sem þetta ritar var eini íslenski þátttakandinn og flutti tvö erindi, annars vegar um úthagabeit sauðfjár og geitfjár og hins vegar um sauðfjár- og geitfjárrækt á Íslandi.

Við umfjöllun um beitarmálin vakti athygli hve norskir sauðfjárbændur verða fyrir miklu tjóni vegna ágangs rándýra af ýmsu tagi, svo sem úlfa, bjarndýra, gaupa og arna. Margt er gert til að reyna að draga úr vanhöldunum. Þarna var m.a. kynntur rafeindabúnaður svo og eftirlitsmyndavélar til að fylgjast með bæði fé og rándýrum, sem geta leitt til fyrirbyggjandi aðgerða.

Norðmenn kynntu vel fyrir okkur sæðingastarfsemina, bæði í þágu sauðfjár- og geitfjárræktar, m.a. með heimsókn á Sauðfjársæðingastöðina á Staur, skammt frá Hamri. Finnar eru farnir að sýna sauðfjársæðingum mun meiri áhuga en áður en þar er reyndar töluverð gróska í sauðfjárrækt.

Finnar byggja stærri fjárhús

Síðan InterNorden-ráðstefnan var haldin síðast í Finnlandi sumarið 2006 hefur greinilega verið lögð vaxandi áhersla á lambakjötsframleiðslu. Þetta kom nokkuð á óvart því að þar hafa fjárbúin verið lítil og sauðfjárrækt smá í sniðum til þessa.

Kindakjötsneysla hefur verið lítil og búgreinin varð fyrir miklu áfalli eftir að Finnland gekk í Evrópusambandið seint á liðinni öld. En gagnstætt því sem sumir hér á landi halda er ekki alltaf hægt að flytja inn ódýr matvæli. Það skiptir máli að treysta grunnstoðir heimaframleiðslu til að bæta hag neytenda og styrkja fæðuöryggið.

Á þessu er greinilega vaxandi skilningur í Finnlandi því að þar eru nú veittir veglegir styrkir til fjárhúsbygginga, einkum yfir 100 kinda mörkunum, sem hingað til hafa þótt fjármörg bú þar í landi. Innanlandsframleiðsla er að aukast aftur og dregið hefur úr innflutningi.

Nú byggir Tapio Rintala, formaður Finnska sauðfjárræktarsambandsins, 1000 kinda fjárhús undir einu þaki sem er mjög athyglisvert, ekki aðeins vegna bústærðarinnar, heldur einnig vegna þess að búið verður með lífræna vottun.

Vitað er að túlkun reglna ESB um aðfluttan búfjáráburð af hefðbundnum búum eru nokkuð breytilegur eftir löndum. Virðast heimildir lífrænna bænda í Finnlandi fremur rúmar til að nota slíkan áburð.

Vegagirðingar til varnar lausagöngu

Skammt norðan við Garder­moenflugvöll á leiðinni norður í Guðbrandsdal, keyrðum við á marga kílómetra kafla meðfram nýjum vegagirðingum þar sem vegayfirvöld, tryggingafélög og bændur hafa gert samning um friðun fjölfarins vegsvæðis.

Líkt og hér á landi eru vegir ógirtir og opnir fyrir búfé í högum víða í Noregi. Einkum er um að ræða sauðfé en töluvert ber á tjónum, einkum þar sem elgir og fleiri villt dýr koma við sögu. Stutt var á milli staura, aðeins 1,0-1,5 metrar, net líkt og hér á landi og sléttur vírstrengur yfir. Þarna getur verið mjög snjóþungt. Á þessu svæði gengur féð í skóglendi sem er verið að grisja, gott dæmi um hagkvæma landnýtingu með því að tengja saman skógrækt og sauðfjárrækt.

Stjórnarfundur InterNorden

Við sem myndum stjórn Inter-Norden vorum sammála um að bjóða baltnesku löndunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen, að taka þátt í þessu samstarfi í framtíðinni. Þótt sauðfjár- og geitfjárrækt séu ekki stórar búgreinar í þeim löndum er áhugi á þessum greinum töluverður. Því hef ég kynnst, einkum í gegn um Búfjárræktarsamband Evrópu. Það hefur einhver áhrif að verð á dilkakjöti hefur farið hækkandi á seinni árum. Þá er alltaf veruleg eftirspurn eftir afurðum geitfjár, einkum ostum, sem Norðmenn framleiða í all stórum stíl.

Mér var falið að kanna hvort Grænlendingar geti haldið næsta InterNorden-ráðstefnu, sumarið 2016, en þeir gátu ekki sent fulltrúa að þessu sinni. Þar var haldin mjög góð InterNorden-ráðstefna sumarið 1998. Málið er í skoðun en gangi það ekki koma Ísland eða Svíþjóð til greina. Hér var hún síðast sumarið 2002.

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...