Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Ísland og yfirlæknir Sýklafræðideildar Landspítalans.
Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Ísland og yfirlæknir Sýklafræðideildar Landspítalans.
Mynd / Vilmundur Hansen
Fréttir 14. ágúst 2014

Notkun sýklalyfja í landbúnaði tengist einu alvarlegasta lýðheilsuvandamáli samtímans

Höfundur: Vilmundur Hansen

Alþjóða heilbrigðisstofnunin, Evrópusambandið og Smitvarna­miðstöð Banda­ríkjanna hafa lýst því yfir að sýklalyfjaónæmi sé ein mesta ógnin við lýðheilsu í heiminum í dag. Þrátt fyrir það eru sýklalyf víða notuð sem vaxtarhvati í landbúnaði og fram eru komnar ofurbakteríur sem geta borist í menn og eru ónæmar fyrir öllum sýklalyfjum sem eru á markaði í dag.

Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Ísland og yfirlæknir Sýklafræðideildar Landspítalans, segir að þrátt fyrir að í starfi sínu fáist hann mest við sýkla í mönnum sé ekki hægt að að skilja menn frá dýrum. Karl er einnig fulltrúi Íslands í nokkrum nefndum hjá Evrópsku sóttvarnarmiðstöðinni.

„Notkun á sýklalyfjum í mönnum á Íslandi er svipuð meðaltalinu í Evrópu en við notum mest af þeim af öllum Norðurlandaþjóðunum. Hins vegar nota Íslendingar minnst af sýklalyfjum í dýrum af öllum löndum í Evrópu og svipað magn hlutfallslega og Norðmenn.

Ástæður fyrir því eru margar en meginástæðan er sú að það hefur alltaf verið bannað að nota sýklalyf í fóður sem vaxtarörvandi lyf hér og í Noregi. Þetta var gert víða í Evrópu til skamms tíma en búið að banna og sýklalyf eru því ekki notuð þar sem vaxtarörvandi lyf í dag. Sumir bændur nota þó önnur sýklahemjandi efni sem vaxtarhvata, eins og til dæmis sink.

Notkunin á sýklalyfjum er mest í verksmiðjubúgörðum og við þekkjum þá nánast ekki hér nema í kjúklinga- og svínarækt.“

Stærstur hluti sýklalyfja notaður í landbúnaði

Í dag nota verksmiðjubú í Banda­ríkjunum verulegt magn af sýkla­lyfjum sem vaxtarhvata og er merkilegt að líta til þess að bæði í Evrópu og Bandaríkjunum er notað meira af sýklalyfjum í land­búnaði en fyrir mannfólk. Í Banda­ríkjunum eru til dæmis 80% af öllum sýklalyfjum sem notuð eru notuð í landbúnaði. Lang­stærstur hluti þessara lyfja er settur í fóður til vaxtarörvunar.

Karl segir að ekki sé vitað nákvæmlega hvernig lyfin virki hvetjandi á vöxt en séu þarmar dýra á sýklalyfjum skoðaðir sjáist að þeir breytist þannig að virkt yfirborð þeirra aukist og nýting fæðunnar verði meiri. „Á síðustu árum hafa menn líka verið að sjá breytingu á sýklaflórunni í þörmum dýranna og það getur vel verið að samsetning hennar valdi því að dýrin vaxa hraðar og meira. Nýlega birtist grein í vísindariti sem sýnir fram á að einstaklingar sem voru lengi á sýklalyfi sem heitir tetrasýklín þyngdust meira en samanburðarhópurinn sem ekki tók lyfið. Tetrasýklín er eitt af þeim lyfjum sem notuð eru í landbúnaði sem vaxtarhvati.“

Vaxandi lyfjaónæmi

„Sýklalyf eru í dag alveg jafn mikilvæg í landbúnaði til að koma í veg fyrir og meðhöndla sýkingar eins og í mönnum. Vandinn er sá að með því að nota þau sem vaxtarhvata er hætta á að bakteríurnar verði ónæmar fyrir lyfjunum og þau virki ekki eins og þau eiga að gera.

Bakteríur hafa gríðarlega aðlögunarhæfni. Þær hafa einn litning og geta fjölgað sér mjög hratt. Aðlögunarhæfnin felst meðal annars í því að þær geta flutt gen á milli sín. Ef ónæmi þróast í einni bakteríu getur það auðveldlega flust yfir í aðra og í dag eru komnar fram bakteríur sem eru ónæmar fyrir nánast öllum sýklalyfjum sem eru á markaði.

Á sama tíma eru lyfja­framleiðendur ekki að þróa ný sýklalyf og ekki hafa komið alveg ný lyf á markað í langan tíma. Lyfjaframleiðendur sjá ekki hag í að þróa og setja á markað ný sýklalyf, þar sem kostnaðurinn er svipaður og við til dæmis blóðfitulækkandi eða stinningarlyf en tekjurnar mikið minni þar sem notkun þeirra er fyrir skammtíma- en ekki langtímanotkun. Hér eru því fjárhagslegir hagsmunir teknir fram yfir heilsu fólks.

Í dag eru reglurnar þannig að það mega ekki finnast leifar af sýklalyfjum í kjöti sem fer á markað og verða framleiðendur því að hætta lyfjagjöfinni tímanlega áður en dýrununum er slátrað.“

Verksmiðjubúum fjölgar

„Mannkynið er komið yfir sjö milljarða og neysla á kjöti er alltaf að aukast. Til að anna þessari eftirspurn hefur verksmiðjubúskapur aukist og hlutfall hans af allri kjötframleiðslu í heiminum er langt yfir 2/3. Um 80% af öllum kjúklingum, 50% af svínum og tæp 50% af nautgripum eru alin á verksmiðjubúum.

Dæmi um stærðargráðu þessara búa er að einn kjúklingaframleiðandi slátrar fjögurhundruð þúsund fuglum á dag sem samsvara um 800 tonnum af kjöti.“ Það tæki stórbú sem slíkt einungis 10 daga að framleiða ársframleiðslu íslenskra kjúklingabænda, sem var 7.800 tonn árið 2012.

Sýklalyfjum dreift yfir stór svæði

„Verksmiðjubú eru oft nálægt þéttbýli þar sem er aðgangur að vinnuafli og stutt á markað. Þar er líka notkun á sýklalyfjum mest af heildarframleiðslunni, enda mikið í húfi komi upp sýking.

Á hverju ári verða til um 70 milljón tonnum af lífrænum áburði í Bretlandi og megninu af honum er dreift yfir ræktað land. Í löndum þar sem verið er að nota sýklalyf til vaxtarörvunar er þannig verið að setja mikið magn af virkum sýklalyfjum út í náttúruna á hverju ári með húsdýraáburði sem er dreift yfir stór svæði og geta þau jafnvel blandast í drykkjarvatn.

Sum af þessum lyfjum eru mjög breiðvirk og brotna seint niður og geta því verið virk í umhverfinu lengi. Með þessu erum við hreinlega að ala upp ónæmar bakteríur í þörmum dýranna sem við dreifum út í náttúruna ásamt sýklalyfjum með saurnum,“ segir Karl.

Sýklalyf í vökvunarvatni
 
Karl segir ástandið gott varðandi notkun á sýklalyfjum í landbúnaði á Íslandi og í Noregi. „Á Íslandi hugsum við lítið um hversu drykkjarvatn er dýrmæt enda höfum við mikið af því. Óvíða erlendis nota ræktendur drykkjarvatn til að brynna eða vökva með, heldur vatn sem hefur farið í gegnum hreinsistöðvar. Mælingar sýna að í grunn- og endurunnuvatni eru oft leifar af sýklalyfjum.

Sé þannig vatn notað til að vökva til dæmis salat gætu mögulega fundist í því leifar af sýklalyfjum og/eða ónæmar bakteríur. Íslenskt grænmeti ætti því að vera mun hollara hvað þetta varðar en innflutt og meðal annars þess vegna kaupi ég alltaf innlent grænmeti sé þess nokkur kostur.“

Örveruflóran í hættu

„Ég hef stundum verið spurður hvort þetta skipti einhverju máli og hvort menn geti smitast af sömu bakteríum og dýr og svarið er já og dæmi um slíkar bakteríur eru salmónella og kampýlóbakter. Rannsóknir sýna að þeir sem sýkjast af salmónellu eða kampýlóbakter á Íslandi fá í sig stofna sem eru langoftast næmir fyrir sýklalyfjum en þeir sem sýkjast erlendis fá mun oftar í sig stofna sem eru ónæmir fyrir mörgum þeirra.

Eðlileg örveruflóra manna og dýra veldur að jafnaði ekki sýkingum en stóri vandinn í dag er sá að það eru að breiðast út örvörur sem tilheyra eðlilegu flórunni og eru ónæmar fyrir sýklalyfjum og geta við ákveðnar aðstæður valdið alvarlegum sýkingum.

Margir sem ferðast á framandi slóðir taka með sér breiðvirk sýklalyf til að komast hjá sýkingum en ég hef efasemdir um að slíkt sé af hinu góða. Stór hluti baktería sem fólk fær í sig á svæðum eins og Kína, Indlandi og Afríku er ónæmur fyrir sýklalyfinu. Fólk sem tekur þessi lyf til dæmis við ferðamannaniðurgangi er því líklegra til að bera hingað fjölónæmar bakteríur en þeir sem gera það ekki,“ segir Karl.

Mest framleitt af sýklalyfjum í Kína og Indlandi

Fjölónæmar bakteríur er mjög algengar í Kína og Indlandi þar sem verksmiðjuræktun á kjöti er mikil og þaðan hafa þær verið að breiðast út um heiminn. Í þessum löndum er einnig framleitt mest af sýklalyfjum í heiminum í dag. Kröfur um umhverfisvernd eru víða slakari þar en víðast hvar á Vesturlöndum og því meiri hætta á að sýklalyfin berist út í umhverfið.

„Mælingar sýna að magn sýklalyfja í umhverfi margra þessara búa og verksmiðja sem framleiða þau getur verið hátt og í dag er áætlað að ríflega milljón Indverja sé sýkt af fjölónæmum bakteríum.
Ef einhver kemur veikur inn á Landspítalann frá sjúkrahúsum í útlöndum er viðkomandi settur í einangrun og hafður þar þar til búið er að sýna fram á að hann sé ekki smitaður af fjölónæmum bakteríum.
Eftirlitið í landbúnaði er aftur á móti mun minna hvað varðar sýklalyfjaónæmi og eftir því sem ég best veit er einungis leitað að sýklalyfjaónæmi hjá salmónellu og kampýlóbakter. Æskilegt væri að kanna slíkt í innfluttu dýrafóðri og ferskri matvöru,“ segir Karl.

Ónæmar bakteríur sjaldgæfar hér

„Ónæmar bakteríur geta hæglega borist til landsins með innfluttum matvælum og líkurnar eru meiri sé um að ræða kjöt frá verksmiðjubúum þar sem notuð eru sýklalyf til að örva vaxtarhraðann eða græn­meti sem vökvað eða skolað er með bakteríusmituðu vatni. Sýklalyfja­ónæmi í búfé er nánast óþekkt hér á landi og við ættum því að reyna að koma í veg fyrir að fjölónæmar bakteríur berist til landsins í lengstu lög. Komi slík tilfelli upp getur reynst erfitt að losna við þau aftur.

Gallinn við innflutning á matvælum felst að hluta til í því að hann er ekki alltaf merktur upprunalandinu og því getur verið erfitt að forðast mat frá löndum þar sem sýklalyfjanotkun er mikil.

Sem dæmi má nefna að árið 2011 kom upp hópsýking í Þýskalandi sem olli dauða nokkra einstaklinga vegna nýrnabilunar sem var að lokum rakin til fjölónæmrar E.coli-bakteríu í baunaspírum sem voru ræktaðar í Evrópu upp af fræjum frá Egyptalandi. Hér á landi er þekkt dæmi um hópsýkingu af völdum fjölónæmrar salmonellu sem var rakin til innflutts salats.

Þrátt fyrir að hættan sé fyrir hendi er ég ekki að segja að við eigum að hætta innflutningi á matvælum aftur á móti verður eftirlitið að vera meira. Það er nokkuð ljóst að hingað munu berast fjölónæmir bakteríustofnar með tíð og tíma og þá skiptir mestu að fólk sé meðvitað um hættuna sem getur stafað af þeim og geti gert þær ráðstafanir sem það kýs til að koma í veg fyrir smit,“ segir Karl G. Kristinsson prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Ísland og yfirlæknir sýklafræðideildar Landspítalans að lokum.

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...