Ný rannsókn á losun CO2 úr ræktarlandi
Nýjar rannsóknir, „Langtímatap kolefnis í framræstu ræktarlandi“, sem kynntar hafa verið í riti Landbúnaðarháskóla Íslands, benda til að veruleg skekkja geti verið í útreikningum á losun koltvísýrings af landnotkun á Íslandi.
Íslensk yfirvöld hafa fullyrt að samkvæmt loftslagsbókhaldi Íslands hafi heildarlosun koltvísýringsígilda (CO2) vegna framræsts lands numið frá 8,5 til 9,5 milljónum tonna á ári. Þar hefur einnig verið fullyrt að það jafngilti frá 60 til 72% af heildarlosun Íslands á CO2.
Samkvæmt rannsóknunum, sem gerðar voru á Norðurlandi á árunum 2020 til 2021, þá nemur kolefnislosunin á mismunandi stöðum frá 0,26 tonnum á hektara og upp í 1,39 tonn. Umreiknað í losun koltvísýrings samkvæmt stöðlum IPCC þýðir það frá 0,95 tonnum og upp í 5,10 tonn á hektara, eða að meðaltali 3,03 tonn á hektara, en ekki 21 til 32 tonn eins og fullyrt hefur verið af opinberum aðilum. Munurinn nemur að meðaltali 23,67 tonnum á hektara, sem gerir mögulega skekkju upp á 88,65%.
Að mati vísindamannanna er nauðsynlegt að halda rannsóknunum áfram.
– Sjá nánar á bls. 20–21 í nýju Bændablaði.