Ný uppgjörsframsetning sýnir að mikil tækifæri eru til að bæta afkomu í sauðfjárrækt
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samkvæmt nýrri framsetningu Ráðgjafarþjónustu landbúnaðar-ins (RML) á greiningu á skýrlsu-haldsgögnum í sauðfjárrækt kemur fram mikill mismunur á tekjum bestu og slökustu búanna í greininni. Þannig eru bestu ærnar að skila þriðjungi betri tekjum í búið en þær slökustu. Ef miðað er við tvö jafn stór bú með 400 kindum, þá getur þar munað um þrem milljónum króna á tekjum.
Uppgjöri sauðfjárræktarinnar fyrir árið 2013 lauk að mestu fyrir mánuði síðan. Í mörg ár hefur einungis tíðkast að birta niðurstöður þess sem afurðir eftir kind, reiknað í kílóum kjöts. Nú hafa skýrsluhaldsgögnin verið greind með meðalverðslíkani til að skoða áhrif einstakra þátta á meðalverð og þá afurðir í krónum talið eftir hverja vetrarfóðraða á.
Niðurstöður þessara greininga hafa nú verið gerðar aðgengilegar á heimasíðu RML. Á vefsíðu Landssamtaka sauðfjárbænda segir að þessar niðurstöðurnar sýni skýrt að mikil tækifæri séu til að bæta afkomu sauðfjárbúa.
Samkvæmt líkaninu er hver ær á landinu að skila 19.500 krónum að jafnaði. Breytileikinn er talsverður. Á þeim búum sem sýna besta niðurstöðu er hver ær að skila rúmum 23.000 krónum á meðan að meðalærin á þeim búum sem sýna lakasta niðurstöðu er að skila 15.500 krónum. Þarna munar 7.500 krónum á kind á búum í efsta og neðsta flokki. Meðalstórt sauðfjárbú með 400 kindur í efsta flokki hefur því um þremur milljónum meira í tekjur en bú af sömu stærð í neðsta flokk.
Landssamtök sauðfjárbænda hvetja bændur eindregið til að kynna sér þessar greiningar á vefsíðu RML.