Nýir búvörusamningar undirritaðir
Í dag klukkan 15 voru nýir búvörusamningar undirritaðir í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, milli ríkis og bænda. Um er að ræða samninga um starfsskilyrði nautgriparæktar, sauðfjárræktar og garðyrkju auk rammasamnings um önnur verkefni sem ekki falla undir búgreinasamningana, sem áður var í búnaðarlagasamningi. Þetta er í fyrsta sinn sem samið er um alla samningana í einu.
Samið er til 10 ára og gert er ráð fyrir að samningarnir taki allir gildi í ársbyrjun 2017 og gildi út árið 2026. Að sögn Sigurðar Eyþórssonar, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, er einkar mikilvægt fyrir landbúnaðinn að starfsskilyrði hans séu tryggð til lengri tíma, í ljósi þess að framleiðsluferillinn er í flestum tilvikum mjög langur. Vegna þess hve samningstíminn er langur er þó kveðið á um tvær endurskoðanir, hina fyrri árið 2019 og hina síðari 2023,
Meginmarkmið rammasamningsins er að efla íslenskan landbúnað og skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri. Markmiðið er að auka verðmætasköpun í landbúnaði og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls. Til þess að ná þessum markmiðum eru í samningum fjölbreytt atriði sem ætlað er að ýta undir framþróun og nýsköpun í greininni.
Í tilkynningu frá Bændasamtökum Íslands er haft eftir Sindra Sigurgeirssyni, formanni Bændasamtaka Íslands, að viðræður hafi staðið yfir frá því í september á síðasta ári og nú sé niðurstöðu náð sem samningsaðilar séu ánægðir með. „Við höfum lagt áherslu á að ljúka samningunum til þess að bændur og allir sem starfa við íslenskan landbúnað geti gert áætlanir um sinn rekstur. Nýju samningarnir eru byltingarkenndir að ýmsu leyti en í samningaferlinu hefur verið tekið tillit til margra ólíkra sjónarmiða.
Langur samningur er mikilvægur að því leyti að hann tryggir starfsskilyrði inn í framtíðina. Endurskoðunarákvæði eru fyrir hendi ef eitthvað bregður út af eða nýjar aðstæður verða uppi. Þá er nýlunda að gera víðtækan rammasamning fyrir allan landbúnað. Meginhugmyndin þar er að stuðningurinn verði fjölbreyttari og almennari, en ekki eins bundinn ákveðnum greinum og verið hefur.
Í samningaviðræðunum var markmiðið að sníða gallana af gömlu samningunum. Mikil umræða hefur átt sér stað um kvótakerfi í mjólk, m.a. þann kostnað sem bændur hafa þurft að leggja í kvótakaup. Sú stefna var tekin að fresta um sinn ákvörðun um afnám kvótakerfisins en almenn atkvæðagreiðsla um málið verður haldin meðal búabænda árið 2019 samhliða fyrstu endurskoðun samningsins. Ýmsar viðamiklar breytingar verða þó gerðar strax, meðal annars að frjálst framsal á greiðslumarki verður óheimilt. Þeir sem vilja selja sitt greiðslumark geta nýtt sér það að ríkið innleysi kvótann á fyrirfram ákveðnu verði. Ríkið mun svo bjóða kvótann til sölu á sama verði og munu nýliðar og þeir framleiðendur sem framleitt hafa umfram kvóta njóta forgangs.
Í sauðfjársamningi var einnig hægt á afnámi beingreiðslna fyrstu árin auk þess sem tekinn verður upp sérstakur býlisstuðningur.
Í garðyrkjusamningi eru litlar breytingar. Áfram er gert ráð fyrir beingreiðslum til tómata-, gúrku- og paprikuframleiðslu og niðurgreiðslu á raforku til ræktunar með lýsingu,“ segir formaður Bændasamtaka Íslands.
Nánar verður gerð grein fyrir samningunum í Bændablaðinu sem kemur út 25. febrúar næstkomandi en þá má einnig skoða hér að neðan.
Samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar