Nýr framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna
Axel Ómarsson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna ehf. og Landssambands hestamannafélaga. Axel tekur við af Haraldi Erni Gunnarssyni sem sinnti starfinu frá árinu 2011. Það kemur því í hlut Axels að stýra Landsmóti á Hellu í sumar.
Axel hefur verið áhugamaður um íslenska hestinn um árabil og hefur áður starfað að félagsmálum sem tengjast hestamennsku, meðal annars sem varaformaður Hestamannafélagsins Harðar og landsþingsfulltrúi um nokkurra ára skeið. Axel kom einnig mikið að útflutningi á íslenskum hestum á árunum 1993-1999. Axel hefur mikla reynslu af markaðsmálum tengdum íslenska hestinum, fyrirtækjarekstri og félagsmálum.
„Það er von okkar að með ráðningu Axels geti samtökin snúið við neikvæðri þróun undanfarinna ára, og blásið til nýrrar sóknar fyrir hestamennsku í landinu“, segir Haraldur Þórarinsson stjórnarformaður Landsmóts hestamanna og formaður stjórnar Landssambands hestamanna.