Nýtir úrgang sem efnivið í sinni sköpun
Þriðjudaginn 14. október flutti Dagný Bjarnadóttir fyrirlestur í húsnæði Garðyrkjufélags Íslands í Síðumúla þar sem hún fjallaði um möguleikana á nýtingu úrgangs sem efniviðar, til dæmis í listsköpun, til vöruhönnunar og í landslagsarkitektúr.
Dagný, sem er einmitt landslagsarkitekt, segir að áhugi hennar á efninu sé tilkominn bæði úr faglegum bakgrunni hennar, en einnig frá hennar hugsjón á sviði endurvinnslu og umhverfisverndar. „Ég sé í efninu tækifæri sem ekki eru nýtt og svo finnst mér að í hönnunarferlinu liggi mikil tækifæri og ábyrgð til að beina sjónum að betri og vistvænni nýtingu auðlinda. Ef hlutur er ekki hannaður þannig að hann geti skilað sér beint til baka þaðan sem hann kom eða í endurnýtanlega hringrás, þá er hann einfaldlega ekki rétt hannaður – og þá erum við farin að sóa verðmætum. Þarna hvílir einmitt okkar ábyrgð og það krefst hugvits að leysa þetta vel, þar kemur einmitt hönnunarhugsunin sterkt inn, þar sem til dæmis hugsunin ætti að vera frá vöggu til vöggu, en ekki frá vöggu til grafar.“
Dreymir um útivistarsvæði gert úr förgunarefni
Dagný segir að þau verkefni sem hún hefur unnið að og notað úrgang sem efnivið, séu mörg á jaðri listsköpunar og landslagsarkitektúrs. „Það eru enda nánir snertifletir þarna á milli. Eins er þetta líka vöruhönnun og vöruþróun.
Mig dreymir um að gera útivistarsvæði sem væri að miklu leyti byggt úr förgunarefni, þar sem hlutirnir væru settir í allt annað samhengi en þeir komu úr. Að undanförnu hef ég mjög mikið verið að vinna með mulið endurvinnslugler sem yfirborðsefni og sé líka fyrir mér vöruþróun úr því. Einnig hef ég hannað bekki úr íslenskum grisjunarvið undir vörumerkinu fang, en þeir eru smíðaðir á verkstæðum Litla-Hrauns, en efnið hef ég fengið frá skógræktarfélögum á Suðurlandi.
Í sjónvarpsþáttunum Flikk flakk sem sýndir voru 2012 á RÚV, má líka sjá endurnýtingu á ýmsum hlutum. En í þáttunum voru fjórir hönnuðir, þar á meðal ég, fengnir til að skapa nýtt torg í tveimur bæjarfélögum á svæðum sem annars voru illa nýtt og framkvæma svo hugmyndina á þremur dögum.“
Ætti að vera hægt að endurnýta allt
Að sögn Dagnýjar ætti að vera hægt að endurnýta allt efni úr neyslusamfélaginu, en í dag sé staðan sú að efnin séu misverðmæt og nýtileg. „Mér dettur reyndar ekki í hug neitt efni sem ekki mætti nýta. Allt í neyslusamfélaginu á sér uppruna sem það ætti að geta farið aftur til, stundum er erfitt að kljúfa í sundur hluti sem eiga heima hvort í sinni endurvinnslunni. Ég veit að plastefni eru misverðmæt og sum svo ódýr að það svarar ekki kostnaði að endurvinna þau, sem er galli í sjálfu sér. Því plastefni sem haldast í sinni hringrás verða að verðmætum aftur og aftur, en plastefnum sem er fargað í náttúrunni eru að sjálfsögðu til mikils skaða.
Við Íslendingar getum örugglega gert margt og orðið leiðandi á þessu sviði ef við viljum. Ég væri til dæmis sjálf til í að hafa ruslatunnu fyrir plast heima hjá mér. Í rauninni ætti ekki að vera til neitt sem heitir sorp ef allt rataði í réttan farveg, og við myndum bara tala um efnisflokkun. Ég er sjálf með moltu og lít á það sem algjör verðmæti og það væri t.d eitthvað sem allir ættu að geta flokkað frá og skilað til náttúrunnar.
Glerið er dálítið vandræðabarn í endurvinnslumálum hér á Íslandi og sennilega víðar. Ástæðan fyrir því að flöskur eru ekki þvegnar og endurnýttar er vegna þess að það er ódýrara að búa til nýjar. Í Evrópu er að ég held orðið bannað að urða gler, sumar flöskur hjá þeim eru endurnýttar en annað er brætt aftur, eða mulið og notað í öðru samhengi. Mér finnst þetta efni svo ótrúlega fallegt og mikil sóun á orku að það endi ofan í jörðinni. Það er bæði hægt að nýta það í malbik og í þetta yfirborðsefni sem ég er að vinna og svo uppgötvuðum við hliðarafurð við vinnsluna, sem er glersallinn eða duftið sem hægt er að nota til slípunar á málmum o.fl. Svona efni er flutt inn til landsins í tonnavís, sem við gætum hæglega búið til.“
Sementsverksmiðjan hentug til glervinnslu
„Eftir að ég skoðaði sementsverksmiðjuna á Akranesi fannst mér svo upplagt að hún myndi breytast í þessa glervinnslu, þar væri bæði hægt að tromla það í efnið sem ég nota, hægt væri að skilja sallann frá í slípunina og svo eru ofnar sem gætu brætt glerið. Mér fannst líka eins og hringnum væri lokað með því að breyta henni í glervinnslu, þar sem að glerið er mikið til unnið úr skeljasandi eins og sementið sem þar var áður unnið og þannig værum við að skila til baka aftur sem búið er að taka úr náttúrunni annars staðar.“