Óflokkanlegar umbúðir
Bréfpakkningarnar á smjöri þurfa að fara í almennt sorp þar sem þær eru úr samsettu efni sem er ekki hæft til endurvinnslu.
Silfurlitaða bréfið á 500 og 250 g smjöri er laminerað úr áli plasti og pappa, og á það sama við um græna bréfið utan um ósaltað 250 g smjör. 400 g bakkarnir eru úr plasti og pappír sem neytandinn getur sjálfur skilið í sundur fyrir flokkun.
Í svari við fyrirspurn blaðamanns kemur fram að Mjólkursamsalan (MS) horfi til þróunar í einþátta og endurvinnanlegum umbúðum, en þar sé þróunin ekki eins hröð og vonir stóðu til. Þá þurfi að huga að ýmsu varðandi slíkar breytingar, eins og hvort breyttar umbúðir gangi í þann tækjabúnað sem MS hafi yfir að ráða og hvort þær tryggi geymsluþol vörunnar.
Fulltrúi MS bendir á að mjólkursamlagið Arla noti að mestu lamineraðar umbúðir fyrir smjör sem framleitt er undir danska vörumerkinu Lurpak. Þar á bæ hafi verið kynntar til sögunnar svokallaðar Butterbox umbúðir úr stífum endurvinnanlegum pappa, þó þær hafi ekki orðið ráðandi í sölu. Þá hefur MS átt í samskiptum við Wipak, sem er breskur framleiðandi sem kynnti nýlega til sögunnar endurvinnanlegt bréf til að pakka inn smjöri.