Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Niðurstöður skýrslu um tryggingamál bænda leiddu í ljós að tryggingaverndinni er nokkuð ábótavant. Ekki er hægt að vátryggja ræktarland en Bjargráðasjóður hefur veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóns á ræktarlandi.
Niðurstöður skýrslu um tryggingamál bænda leiddu í ljós að tryggingaverndinni er nokkuð ábótavant. Ekki er hægt að vátryggja ræktarland en Bjargráðasjóður hefur veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóns á ræktarlandi.
Mynd / ghp
Af vettvangi Bændasamtakana 28. október 2024

Búskapur og tryggingavernd

Höfundur: Margrét Ágústa Sigurðardóttir framkvæmdastjóri BÍ og Hilmar Vilberg Gylfason sjálfbærnisérfræðingur hjá BÍ.

Bændasamtökin hafa um nokkurt skeið lagt áherslu á nauðsyn þess að tryggingavernd í landbúnaði verði aukin.

Tryggingaverndin í dag nær mest til útihúsa, vélageymslna, dráttarvéla, fóðurs sem er komið í hús og tækjabúnaðar. Einnig geta bændur keypt rekstrarstöðvunartryggingar. Bjargráðasjóður veitir að auki fjárhagsaðstoð vegna meiri háttar tjóns á girðingum, túnum og heyi vegna kulda, þurrka, óþurrka og kals. Þrátt fyrir að sú tryggingavernd sem er í boði sé góðra gjalda verð þá er of margt sem tengist búskapnum sem ekki er tryggt og ekki mögulegt að tryggja hjá vátryggingafélögum. Tryggingaverndin nær einfaldlega ekki yfir allt það tjón sem bændur verða fyrir þegar áföll dynja á.

Árið 2022 skilaði starfshópur matvælaráðuneytisins skýrslu um tryggingamál bænda. Helstu niðurstöður skýrslunnar voru að gap í tryggingavernd bænda lægi einkum í heimaveitum, nytjaskógum, rekstrarstöðvun, smitsjúkdómum og plöntusjúkdómum. Þá sé tryggingavernd varðandi uppskeru, þ.m.t. grænmeti í ræktun, nokkuð ábótavant.

Hvað er tryggt og hvað ekki?

Í skýrslunni kemur fram að þó tryggingavernd á mannvirkjum sé með ágætum þá virðist engu síðar vera gap í tryggingavernd varðandi vatnsveitur, hitaveitur, stíflur og fallpípur í eigu bænda. Ekki er unnt að vátryggja slík mannvirki hjá NTÍ (NáttúruhamfaratryggingumÍslands) nema þau séu í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélags. Þó geta bændur tryggt rafstöðvarhús og ýmist lausafé þeim tengdum, s.s. rafala.

Þá kemur fram að hægt sé að vátryggja bústofn hjá almennum vátryggingafélögum, m.a. gegn bruna eða köfnun, og hjá NTÍ gagnvart náttúruhamförum, ef frá eru talin tjón af völdum úrhellis, asahláku og óveðurs. Tjón á bústofni vegna niðurskurðar er bætt að hluta, sé hann fyrirskipaður af stjórnvöldum, sbr. lög nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma. Almennt er ekki fyrir hendi tryggingavernd hérlendis eða aðrar bótagreiðslur vegna annarra dýrasjúkdóma.

Einnig kemur fram að ekki sé unnt að vátryggja girðingar en Bjargráðasjóður hefur styrkt bændur vegna slíkra áfalla. Uppskeru er hægt að vátryggja að vissu marki, s.s. gegn náttúruhamförum, en Bjargráðasjóður hefur veitt bændum fjárhagsaðstoð í tengslum við uppskerubrest. Fóður og heyforða er hægt að vátryggja, t.d. gegn bruna, en tryggingavernd miðast í flestum tilvikum við að búið sé að taka hey saman og koma því fyrir í eða við hús. Sama á við um aðra uppskeru. Þá er ekki hægt að vátryggja ræktarland en Bjargráðasjóður hefur veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóns á ræktarlandi.

Gap er í tryggingavernd bænda varðandi nytjaskóga en þar er hvorki um að ræða mögulega tryggingavernd né fjárhagsaðstoð frá Bjargráðasjóði. Plöntur í ylrækt er hægt að vátryggja gegn náttúruhamförum, með sambærilegum hætti og heyforða, og einnig hjá vátryggingafélögum gegn ýmsum öðrum hættum, s.s. eldsvoða, vatnstjóni, óveðri, breytinga á hitastigi o.fl. Bændur geta hins vegar ekki vátryggt plöntur gegn sjúkdómum og þar er því greinilegt gap. Sama á við um grænmeti í ræktun, sem hægt er að vátryggja gegn náttúruhamförum. Tryggingavernd á grænmeti gegn frosti eða þurrkum er ekki í boði og þar er því einnig gap.

Í skýrslunni segir einnig að rekstrarstöðvun sé almennt háð því að tilteknir hagsmunir, þ.e. fasteignir eða lausafé, séu tryggðir fyrir tilteknum áhættum, s.s bruna eða vatni, og ef svo er og viðkomandi er líka með rekstrarstöðvunartryggingu, þá virkjast sú trygging til að bæta tap vegna rekstrarstöðvunar. Tryggingavernd gegn rekstrarstöðvun er því fremur takmörkuð, þó hún sé ekki endilega lakari en í öðrum atvinnugreinum.

Hvað er til ráða?

Bændasamtökin hafa talað fyrir sameiginlegu átaki til að ná fram heildstæðri tryggingavernd fyrir bændur. Hægt er að horfa til nágrannalanda til að skoða útfærslur en oftar en ekki hafa stjórnvöld aðkomu að landbúnaðartryggingum, t.a.m. með baktryggingu. Samtökin hafa rætt þennan málaflokk við matvælaráðuneytið, NTÍ og tryggingafélög. Í þessum samtölum hefur komið fram greinilegur áhugi til að leita lausna. Ljóst er að kostnaður við uppskerutryggingar yrði verulegur og líklega umfram það sem bændur geta réttlætt í sínum rekstri miðað við núverandi afkomu. Í skýrslu starfhópsins er niðurstaðan sú að komist á heildstæð tryggingavernd í landbúnaði þá þurfi aðkomu ríkisins með einhverjum hætti eins og þekkist í sambærilegum áfallatryggingum, s.s. þegar jarðskjálftar, snjóflóð eða eldgos valda tjóni.

Skylt efni: tryggingar bænda

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...