Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Líkanið sýnir fram á hrun AMOC-veltihringrásar Atlantshafsins 300 árum eftir að CO2-magn andrúmslofts tvöfaldast miðað við magn ársins 1990.
Líkanið sýnir fram á hrun AMOC-veltihringrásar Atlantshafsins 300 árum eftir að CO2-magn andrúmslofts tvöfaldast miðað við magn ársins 1990.
Mynd / Science
Fréttir 25. október 2024

Skilyrði til landbúnaðar versna

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Miklar áhyggjur eru af neikvæðum breytingum á hafstraumum Atlantshafsins. Kuldapollur sunnan Íslands veldur þegar kaldari sumrum og gæti átt eftir að gjörbreyta skilyrðum hér á landi í fyrirsjáanlegri framtíð.

Á fimmta tug vísindamanna í 15 löndum, þ.á m. Íslandi, hafa undirritað opið bréf þar sem áhyggjur af hnignun veltihringrásar Atlantshafsins (AMOC) eru reifaðar.

Í bréfinu er kallað eftir að áhættumat verði gert fyrir Norðurlöndin. Ljóst þyki að aðlögun að þeim miklu breytingum sem hrun á AMOC myndi valda sé ekki raunhæf leið og herða þurfi mjög á loftslagsaðgerðum. Lífvænleiki svæðisins sé undir. „Áhættan er raunveruleg og getur átt sér stað innan 1,5–2°C-marka Parísarsáttmálans. Heimurinn stefnir hraðbyri langt út fyrir þau mörk,“ segir í bréfinu.

Dr. Stefan Rahmstorf, prófessor í hafeðlisfræði við Potsdam- stofnunina í Þýskalandi, afhenti bréfið umhverfisráðherra Íslands til Norrænu ráðherranefndarinnar, á alþjóðlegri ráðstefnu Arctic Circle í Reykjavík 19. október. 76. þing Norðurlandaráðs verður haldið í Reykjavík 28.-31. október þar sem friður og öryggi á Norðurslóðum er eitt meginþemað.

Veltihringrás Atlantshafsins (AMOC) og kaldi bletturinn í N-Atlantshafi. Mynd / Science Source
Landbúnaður og fiskveiðar í hættu

Í fyrirlestri Rahmstorfs á Arctic Circle kom m.a. fram að hafsvæðið sunnan og suðvestan Íslands væri eina svæðið á jörðinni sem kólnað hefði frá 19. öld. Hann telur langlíklegast að um afleiðingu veikingar hafstrauma sé að ræða, einkum AMOC-veltihringrásarinnar sem flytji minnkandi varma á svæðið.

Rahmstorf sagði áhrif veikingar AMOC geta orðið til þess að vetrarhiti á Íslandi yrði allt að 9°C lægri en nú og við strendur Noregs gæti hiti lækkað um 20°C. Líklega myndi kólna í N-Evrópu en á hinn bóginn hlýna í S-Evrópu og það myndi enn ýta undir öfgar í veðurfari um heim allan. Áhrif á lífríki hafsins og þar með fiskveiðar í N-Atlantshafi yrðu afgerandi og spurning væri hvort hægt yrði yfir höfuð að stunda landbúnað í Skandinavíu.

Hrun AMOC mögulegt á næstu áratugum

Hringrás hafstrauma Atlantshafsins flytur varma að sunnan og norður á bóginn og hækkar meðalhita á Íslandi og víða um austurhluta N-Atlantshafs. Hægi á henni gæti komið að vendipunkti þar sem ekki er lengur hægt að koma í veg fyrir að hún stöðvist. Vaxandi vísbendingar eru um að hægt hafi á hringrásinni vegna hnattrænnar hlýnunar.

„Vendipunkturinn þar sem ekki er lengur hægt að koma í veg fyrir hnignun og hrun AMOC er alvarlegur möguleiki, þegar á næstu áratugum,“ segir í bréfi vísindamannanna.

Alþjóðlegar loftslagsrannsóknir benda til að líkur á breytingum á hringrás hafstrauma Atlantshafsins hafi lengi verið stórlega vanmetnar og vísindamennirnir kalla nú eftir meiri og hraðari loftslagsaðgerðum til að minnka líkur á óafturkræfum breytingum á AMOC. Telja vísindamennirnir að leggja verði aukinn þunga í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eins hratt og unnt er svo hlýnun fari ekki mikið yfir 1,5°C mörkin í Parísarsamkomulaginu. Eina þekkta leiðin til að forðast loftslagsvendipunkta sé að draga hratt úr hlýnun jarðar.

Ástæða kaldari sumra

Hnigni AMOC getur það valdið hröðum og óafturkræfum breytingum í þá veru að mjög kólni í löndum þjóðanna við N-Atlantshaf. Rofni veltihringrásin er það talið munu valda gífurlegum og óafturkræfum breytingum á lífsgæðum þjóðanna.

Áslaug Geirsdóttir

Áslaug Geirsdóttir, prófessor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, er ein vísindamannanna sem undirrituðu bréfið. „Bæði hermanir og mælingar á styrkleika AMOC benda til að um staðbundinn kaldan blett sé að ræða í hafinu sunnan við Ísland í dag,“ útskýrir Áslaug. „Þessi kaldi blettur er seltuminni, þ.e. ferskari, en hafið í kring og því að einhverju leyti eðlisléttari en hafið umhverfis og myndar því yfirborðssjó. Mælingar benda til að þessi kaldi blettur sé afleiðing af veikari styrk AMOC,“ segir hún.

Hins vegar komi líka fram í hermunum að lönd bæði vestan og austan Íslands séu mun hlýrri, í hlýnandi heimi vegna aukningar gróðurhúsalofttegunda.

„Fyrstu áhrifin af þessum staðbundna bletti sunnan við landið eru þó talin vera ein skýring á því að hér hafi verið kaldara en ætla mætti að undanförnu í annars hlýnandi veröld,“ segir Áslaug. Spurningin sé hver þróun þessa kalda bletts komi til með að verða.

Breytt lífsskilyrði

Áslaug segir að ef AMOC haldi áfram að hnigna megi líta til þess ástands sem átti sér stað á Litlu ísöldinni (1300–1900) en þá var meiri hafískoma og jöklar skriðu fram. Hvort tveggja hafi bein áhrif á hitastig á landi, sífrera, og annars konar erfiðleika vegna fæðuöflunar fyrir búfé. Með áframhaldandi hnignun AMOC muni kaldi bletturinn sunnan við Ísland í dag óhjákvæmilega stækka.

„Afleiðingarnar fyrir Ísland gætu orðið styttri og kaldari sumur, minni spretta og auknar líkur á kali og jarðvegsrofi. Slíkt myndi óhjákvæmilega hafa slæm áhrif á vistkerfi hér á landi. Það gæti þurft að endurskoða þær tegundir sem verið er að rækta og fleira í þeim dúr,“ segir hún. Stöðvist veltihringrásin alveg veldur slíkt hrun AMOC, samkvæmt hermunum, stórum en áberandi mismunandi loftslagsviðbrögðum. „Það yrði áberandi kólnun yfir norðanverðu N-Atlantshafi og nálægum svæðum; Grænlandi, Íslandi, Svalbarða, Skandinavíu og Stóra- Bretlandi, hafís ykist stórlega á hafsvæðinu á milli Grænlands og Noregs og þar með talið við Ísland. Jöklar myndu áfram ganga fram og magna hitalækkunina. Það færi svo eftir tímalengd ástandsins hvort leiðin lægi beint inn í næsta jökulskeið/ ísaldarástand. Úrkomubelti myndi hins vegar flytjast suður á bóginn yfir til suðrænni og hlýrri hluta Atlantshafsins,“ segir Áslaug enn fremur.

Aukin úrkoma til að byrja með

Með hlýnandi loftslagi, vegna aukins magns gróðurhúsalofttegunda, yrði til að byrja með meiri bráðnun á íssvæðum Norðurhvels, ásamt aukinni úrkomu; heitt loft geymir meiri raka en kalt, svo þegar heita loftið berst til kaldari norðlægari breiddargráða missir það getuna til þess að halda raka svo úrkoma eykst.

Áslaug útskýrir að aukin úrkoma, þ.e. aukið ferskvatn bæði á landi og í sjó, lækki seltumagn sjávar, hann verður eðlisléttari og flýtur á yfirborði. Þetta ferskara vatn eigi auðveldara með að frjósa og mynda hafís þegar komi í kaldara umhverfi norðar. Um leið og hafísinn eykst og úrkoman í formi snævar verður meiri á landsvæðum, eykst endurskin sólarorkunnar (albedo) sem veldur enn frekari kólnun og framrás stærri jökla.

„Þannig er ástandinu viðhaldið með eins konar keðjuverkun sem styrkir lagskiptingu sjávar og kemur í veg fyrir lóðrétta hreyfingu hans eða djúpsjávarmyndun, sem er ástæða orkulosunar við Ísland og þeirrar hitamyndunar sem er okkur nauðsynleg svo hægt sé að búa hér á landi,“ segir hún jafnframt.

Hér yrði mjög kalt og þurrt

Stóra spurningin nú sé því hvað þurfi til að þessi kaldi blettur sunnan Íslands stækki eða breiðist út og hafi slík kólnunaráhrif á allt hafið og löndin umhverfis. „Þarna kemur spurningin um vendipunktinn, hvað þarf til að koma okkur yfir þennan þröskuld og í nýtt ástand. Erum við kannski búin að koma okkur yfir þennan þröskuld – verður aftur snúið?“ spyr Áslaug.

„Við vitum núna að aukning gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu veldur veldisaukningu í hita, sem myndi valda aukinni bráðnun á Grænlandsjökli og úrkomu, s.s. auknu ferskvatni í hafið og því auknum líkum á lagskiptingu sjávar. Samkvæmt hermunum kemur að því að AMOC, sem flytur hita og raka úr suðurhöfum og norður, stöðvast eða í raun flyst suður á bóginn, úrkomubeltið flyst líka í suðurhöf á meðan að N-Atlantshafið „staðnar“ og verður lagskipt, eins og ég lýsti hér að framan. Það viðheldur í raun kuldanum og hefur á sama tíma minni getu til að halda raka, svo loftslagið verður kalt og þurrt,“ segir Áslaug.

Hún áréttar að allt sé þetta byggt á hermunum og líkönum svo ekki sé að fullu ljóst hverjar afleiðingarnar koma til með að verða. Gríðarlega mikilvægt sé að við séum meðvituð um afleiðingar aukins magns CO2 í andrúmslofti og að ekki þurfi endilega mikið til að koma okkur úr jafnvægisástandi í ójafnvægisástand.

Auk Áslaugar rituðu þrír íslenskir vísindamenn undir fyrrgreint bréf, þau Halldór Björnsson, loftslags-, haf- og veðurfræðingur við Veðurstofu Íslands, Guðfinna Þ. Aðalgeirsdóttir, prófessor við HÍ, og Steingrímur Jónsson, prófessor við HA.

Áhrifin yrðu skelfileg

„Áhrifin, sérstaklega á Norðurlöndum, yrðu að öllum líkindum skelfileg, þar á meðal mikil kólnun á svæðinu á meðan nærliggjandi svæði hlýna. Um væri að ræða stækkun og dýpkun „kalda blettsins“ sem þegar hefur myndast í N-Atlantshafi og líklega leiða til áður óþekkts öfgaveðurs. Þótt áhrifin á veðurmynstur, vistkerfi og athafnir manna þarfnist frekari rannsókna, munu þau mögulega ógna hagkvæmni landbúnaðar í norðvesturhluta Evrópu,“ segir í bréfi vísindamannanna.

Skylt efni: loftslagsmál

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...

Kyngreining sæðis hafin
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp f...

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...