Öll hús í Hveragerði tengd ljósleiðara
Gagnaveita Reykjavíkur hefur tilkynnt bæjaryfirvöldum í Hveragerði að áætlað sé að ljósleiðaravæðing í Hveragerði ljúki á þessu ári þannig að öll hús í þéttbýli Hveragerðis verði tengd ljósleiðara fyrir næstu áramót.
„Við fögnum áformum Gagnaveitu Reykjavíkur um hraða uppbyggingu ljósleiðaranetsins í bæjarfélaginu. Í dag eru 312 heimili tengd ljósleiðarakerfinu en þau 674 heimili sem eftir eru geta notið þjónustu um ljósleiðara í lok árs. Við höfum óskað eftir því við Gatnaveituna að halda kynningarfund fyrir íbúa þar sem þessi áform verða kynnt og fjallað verði um þá þjónustu sem í boði er“, segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri.