Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
MF róbóti.
MF róbóti.
Fréttir 10. desember 2014

Ráðstefna um framtíðar jarðræktartækni

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Dagana 24. til 25. nóvember síðastliðinn var haldin einkar áhugaverð ráðstefna um framtíðina í jarðræktartækni en ráðstefna þessi var haldin í Herning í Danmörku, í aðdraganda Agromek landbúnaðarsýningarinnar.

Alls voru flutt 50 erindi á ráðstefnunni og tóku um 130 manns þátt í henni en efnistök voru afar fjölbreytt, allt frá því að fjalla um verklegar leiðbeiningar fyrir þá sem vinna á tækjunum og upp í hávísindaleg erindi, en öll áttu þau það sameiginlegt að fjalla um hið fjölbreytta efni jarðrækt og jarðræktartækni. Ráðstefnan var haldin á vegum Agromek og  NJF-samtakanna, sem eru samtök fagfólks í landbúnaði á Norðurlöndunum og Eystrarsaltslandanna.

Tveir aðalfyrirlesarar

Á ráðstefnunni voru tveir aðalfyrirlesarar, Simon Blackmore og Jens Fehrmann. Simon þessi er afar þekktur meðal jarðræktarmanna enda verið lengi í faginu. Hann er prófessor  og yfirmaður bútæknisviðs Harper Adams-háskólans í Englandi og hefur Simon sérhæft sig í notkun sjálfvirkni við landbúnaðarstörf. Það kemur því ekki á óvart að hann hélt erindi um notkun róbóta við störfin utandyra en nú þegar eru til ótrúlega fjölbreytt tæki sem eru hálf- eða alsjálfvirk og notuð í jarðrækt. Jens Fehrmann er einnig þekktur meðal sérfræðinga í þessari faggrein en hann er yfirmaður bútæknisviðs háskólans í Dresden í Þýskalandi. Jens hefur sérhæft sig í bútæknirannsóknum en er jafnframt í forsvari fyrir AET-samtökin, sem eru samtök vísindamanna í bútækni, bæði þeirra sem starfa hjá fyrirtækjum í framleiðslu landbúnaðartækja og annarra í Evrópu. Hann fjallaði í erindi sínu um H2020, sem er stærsta rannsókna- og þróunarverkefni sem Evrópusambandið hefur farið út í.

Tíu efnisflokkar

Á ráðstefnunni voru tíu ólíkir efnisflokkar teknir fyrir en stærstu einstöku flokkarnir sneru að nákvæmni við jarðrækt, þjöppun jarðvegs og svo notkun róbóta við jarðrækt. Aðrir efnisflokkar fjölluðu svo um öryggismál, mengun frá landbúnaði, notkun stafrænna mynda og nema við stýringar á tækjum, tækni við meðhöndlun gegn illgresi og sjúkdómum í plöntum, bústjórn, innandyratækni og svo þróun. Svo allt efnið kæmist að á stuttum tíma voru þrjár málstofur haldnar samtímis og gátu þá þátttakendur flakkað á milli eftir áhugasviði hvers og eins.

Róbótar munu taka við

Ef horft er yfir allt sviðið þá sneru óhemju mörg erindi á ráðstefnunni um notkun á róbótum eða öllu heldur sjálfvirkni og tölvutækni. Í dag er vart til það tæki sem ekki nýtir með einhverjum hætti stafrænan búnað til þess að auðvelda bændum störf sín. Um þetta efni fjallaði fyrrnefndur Simon en búnaður sem þessi getur verið afar einfaldur eins og litlir hitanemar sem senda skilaboð til bóndans um ofhitnun á legum og upp í það að vera með sjálfvirka fjarflugu (dróna) sem flýgur á undan fastri akstursleið dráttarvélar og sendir skilaboð í tölvu hennar um t.d. hvort gefa þurfi auka áburðarskammt á einhverja fersentímetra eða hvað annað sem fjarflugan er forrituð til að gera. Allt þetta kann að virka hálf-fjarlægt á marga en raunin er að tæknin er mun nær okkur í tíma en margur heldur. Undanfarin ár hafa tæki í landbúnaði farið ört stækkandi og er nú svo komið að þau geta ekki stækkað frekar þar sem vegakerfi og sér í lagi göng eða brýr geta ekki tekið við stærri tækjum. Af þessum sökum er nú horft í aðra átt og er þar helst horft til raðtengingar á tækjum og sjálfvirknivæðingar þeirra. Róbótar geta unnið við hvaða birtuskilyrði sem er og þurfa hvorki kaffi- né matartíma sagði Simon og benti á að nú þegar væri farið að nota alsjálfvirka róbóta á sumum garðyrkjubúum við að keyra út pottablóm!

AGCO að þróa búnað

Simon sýndi m.a. áhugaverðan róbóta sem AGCO er með í þróun en það fyrirtæki á m.a. Massey Ferguson. Um er að ræða róbóta sem er sérhannaður fyrir garðyrkjubændur. Hann á að aka um akrana og sækja þá kálhausa sem eru tilbúnir til sölu en skilja hina eftir og sækja þá síðar. Fremri hluti tækisins er hinn fullkomni „starfsmaður“ sem notar tölvumyndavélar, leiser og annað slíkt sem þörf krefur til þess að „sjá“ kálið en aftari hluti tækisins er einungis forðabúr sem safnar í sig kálinu. Þegar það er fullt, keyrir það sjálft heim til bóndans og annað en tómt forðabúr tengist fremri hlutanum! Virkar líklega á flesta eins og eitthvað sem er úr framtíðarbíómynd, en þá er framtíðin bara rétt við það að skella á!

12 þúsund milljarðar

Eins og áður hefur komið fram fjallaði Jens Fehrmann um H2020 sem er hreint ótrúlega stórt fjármögnunarverkefni á vegum Evrópusambandsins. Fjárlagarammi þess, árin 2014–2020, er 80 milljarðar evra eða um 12 þúsund milljarðar íslenskra króna! Óhætt er að fullyrða að allir sem starfa við rannsóknir eða þróun þekkja eitthvað til H2020 en til þess að geta fengið styrki í hin fjölbreyttu verkefni þarf að eiga í samstarfi á milli aðila og þar gegna samtökin sem Jens veitir forstöðu mikilvægu hlutverki. Það er þó hægara sagt en gert að fá styrki frá þessu mikla átaksverkefni en Jens fór í erindi sínu yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga til þess að ná mögulega í gegnum nálaraugað með umsókn.

Plægingar ekki í framtíðinni?

Mikil og ör þróun í jarðræktartækni, sér í lagi tækni sem ekki byggir á plægingum, er eftirtektarverð og eru til nokkuð fjölbreyttar aðferðir sem unnt er að nota með góðum árangri í kornrækt án þess að plægja. Allnokkur erindi sneru að þessu efni með einum eða öðrum hætti. Tilgangurinn með því að forðast plægingu er auðvitað að minnka álagið á akrana og til þess að gera jarðveginn betur færan í að taka við bleytu og þá virðast rannsóknir benda til þess að vöxtur, t.d. repju, verði mun betri sé sáð í land sem ekki hefur verið plægt. Margir halda e.t.v. að þetta snúist þá um að herfa bara landið en svo er alls ekki enda eru þessi tæki flest búin loftunarbúnaði sem losar upp jarðveginn langt undir plógfarsdýptina. Það er greinilega mikil gerjun sem á sér stað nú um stundir í þessum tæknigeira og má vænta þess að nýjungar í þessari jarðræktartækni komi jafnt og þétt á komandi misserum.

Nákvæmnisbúskapur

Nákvæmnisbúskapur eða „precision farming“ er, líkt og plægingarlaus vinnsla á akri, efni sem nýtur æ vaxandi vinsælda. Þetta getur snúið að notkun GPS við akstur dráttarvélar, en einnig notkun alls konar skynjara við akurvinnslu. Eitt af því sem bændur erlendis lenda of oft í er að í þreskivélarnar fari alls konar villidýr sem eru að þvælast í ökrum bændanna. Oft er um ungviði að ræða sem er eðlislægt að fela sig og standa eða liggja kyrr þegar hætta steðjar að og því eru þessar skepnur varnarlausar með öllu ef stór þreskivél er við vinnu á akri. Nú þegar er þó til búnaður sem getur aðstoðað ökumann tækisins í þessum tilvikum og komið í veg fyrir slys. Á skurðarborði þreskivélarinnar er staðsett afar öflug hitamyndavél sem getur greint hita frá mjög lítilli lífveru í nokkurra metra fjarlægð frá skurðarborðinu. Fær þá ökumaður skilaboð í tíma og getur stöðvað vélina. Afar áhugaverð notkun nútíma búnaðar.

Ótal önnur áhugaverð erindi

Á ráðstefnunni voru eins og áður segir ótal önnur erindi og gat því hver og einn fundið efni við sitt hæfi en ekki er unnt að greina í smáatriðum frá öllum erindum hér. Áhugasömum um þessi mál og málefni má benda á að um eða upp úr áramótum munu öll erindi ráðstefnunnar verða aðgengileg á vefsíðu NJF-samtakanna: www.njf.nu.

2 myndir:

Færri útflutt hross
Fréttir 7. janúar 2025

Færri útflutt hross

Útflutningur íslenskra hrossa árið 2024 verður minni en í fyrra.

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt
Fréttir 7. janúar 2025

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt

Ákveðið hefur verið að flytja meðferðarheimilið Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rang...

Smáforrit til að panta sæðingar
Fréttir 6. janúar 2025

Smáforrit til að panta sæðingar

Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frj...

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins
Fréttir 6. janúar 2025

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins

Haukur Bjarnason, bóndi á hrossaræktarbúinu Skáney í Reykholtsdal, er nýr formað...

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Fréttir 6. janúar 2025

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti

Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands o...

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...