Rannsóknarstofan Seyla tekur til starfa
Ný rannsóknarstofa tekur til starfa á Hvanneyri eftir áramót. Rannsóknarstofan mun meðal annars sjá um hey- og jarðvegsefnagreiningar fyrir bændur og orku- og örverumælingar fyrir fóðurstöðvar loðdýrafóðurs.
Fjórir íbúðargámar verða notaðir undir rannsóknarstofuna og verða þeir á Hvanneyri.
Í tilkynningu vegna nýju rannsóknarstofunnar segir að margir bændur hafi snúið sér til efnagreiningarstofu í Hollandi með heysýnin sín en þar hafa þeir fengið niðurstöður fljótt og vel. Til stendur að kaupa massagreini sem gerir rannsóknarstofunni á Hvanneyri kleift að bjóða sama afgreiðslutíma á heyefnamælingum og Hollendingarnir og jafnframt að bæta við snefilefnagreiningum. Auk verða á rannsóknarstofunni orku- og örverumælingar fyrir fóðurstöðvar loðdýrafóðurs. Nýja rannsóknarstofan verður með tæki og sérþekkingu til að bjóða íslenskum garðyrkjubændum þjónustu, sem þeir kaupa nú frá útlöndum.
Eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem hefur fengið nafnið Seyla ehf., er Elísabet Axelsdóttir.