Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Rannsóknir og kennsla í fornleifafræði fari undir hatt LbhÍ
Fréttir 15. september 2014

Rannsóknir og kennsla í fornleifafræði fari undir hatt LbhÍ

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Dr. Margrét Hermanns Auðardóttir fornleifafræðingur hefur kynnt hugmyndir um að háskólastarfið í LbhÍ á Hvanneyri verði styrkt með því að þar verði sett á fót rannsóknastofnun og kennsla í fornleifafræði.  

Segir Margrét að hvergi sé betra að staðsetja rannsóknastofnun í fornleifafræði en við Landbúnaðar­háskólann, þar sé áhugi og skilningur á þeim margþætta vitnisburði sem fornleifar hafa að geyma um afkomu og verkmenningu bændasamfélagsins á Íslandi.  

Þá væri mun farsælla að vera með rannsóknir og kennslu í þessum fræðum á Hvanneyri en í Reykjavík. Segir hún að kennsla í fornleifafræði og starfsþjálfun fari einnig mjög vel saman við kennslu í skipulags- og umhverfisfræði við LbhÍ. Margrét telur því nauðsyn á að fornleifavernd og fornleifarannsóknir hafi bakhjarl í rannsóknastofnun sem sett verði á fót hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Stjórnsýslan í molum

Margrét hefur sent stjórnar­þing­mönnum erindi um þessar hugmyndir sínar og þar bendir hún einnig á að bregðast þurfi við „lítt virkri ‚stjórnsýslu‘ fornleifaverndar hjá ríkisstofnunum í Reykjavík“.  Segir hún að það lýsi sér m.a. í því að mikil vanskil séu á niðurstöðum fornleifarannsókna í landinu og fjárveitingum Alþingis til málaflokksins.
Í bréfi til stjórnarþingmanna segir hún m.a. að fjárveitingar Alþingis til „fornleifaverndar“ hafi minnst lítið skilað sér til „lögbundinna“ fornleifaverkefna við mat á umhverfisáhrifum, skipulagsúttektir og framkvæmdir á dreifbýlli landsbyggð, þrátt fyrir að fámennum sveitarfélögum sé ætlað að standa undir þeim kvöðum. Enda er fjallað um það í heildarúttekt OECD á umhverfismálum á Íslandi 2001–2013 að sveitarfélög hafi ekki næga fjárhagslega burði til að fylgja eftir stefnumörkun í umhverfismálum.  Samt sem áður gerði sveitarfélagið Borgarbyggð athugasemdir við það, að skort hefði tilfinnanlega á að fjallað væri um verndun fornleifa og menningarminja í lýsingu fyrir gerð Landsskipulagsstefnu 2015–2026. Ferðaþjónustubóndi í Skorradalshreppi vakti einnig athygli á því „að engin stefna eða áætlun liggi fyrir um menningarminjar á Íslandi“, þó að „brýnt sé til leiðbeiningar fyrir sveitarfélögin“.  Þá bendir Margrét á að ekkert samræmi sé í framkvæmd ferðamála og fornleifa- og umhverfisverndar, sem þó sé mikilvægur hluti af framtíðarskipulagi ferðamála á Íslandi.

Rannsóknir og fornleifaskráning í miklum ólestri

Þá segir Margrét að fastmótuð, samræmd fornleifaskráning sé ekki fyrir hendi né nauðsynlegar leiðbeiningar í fornleifarannsóknum í handbók af hálfu ríkisstofnana fornleifaverndar í Reykjavík. Svo mætti lengi áfram telja. 
Margrét segir að megnið af fjárveitingum Alþingis til „fornleifaverndar“  hafi farið í launakostnað og rekstur ríkisstofnana í Reykjavík, þ.e. til Fornleifaverndar ríkisins 2001–2012 og Minjastofnunar Íslands 2013–2014. Þrátt fyrir að þar starfi á annan tug starfsmanna, þá hafi þeim ekki tekist að fylgja eftir skilum á fornleifarannsóknum í landinu f.h. ráðherra fornleifaverndar.  Né hafi Þjóðminjasafnið staðið undir„lögbundnum“ skilum á fornleifafundum og grunnrannsóknagögnum til safnsins. Það komi fram í Skýrslu um stjórnsýslu fornleifarannsókna og fornleifaverndar á Íslandi 1990–2010 fyrir fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra frá í maí 2013, sem ekki hefur verið brugðist við.

Skýrslan sem Margrét vitnar til var unnin af Brynju Björk Birgisdóttur fornleifafræðingi, og fjallað var um hana bæði í Kastljósi RÚV og Fréttablaðinu á vordögum 2013. Þar kemur m.a. fram að „engum skýrslum“ hefði verið skilað um fjölda ríkisstyrktra verkefna og að eftirliti með þeim væri ábótavant.

Stjórnsýsla fornleifaverndar verði sett undir Umhverfisstofnun

Margrét segir þessi vinnubrögð með öllu óásættanleg og því þurfi að stokka upp í stjórnskipan fornleifaverndar. Í erindi til þingmanna segir hún að með tilliti til boðaðrar hagræðingar í ríkisrekstri og árangurstengdra skila  á fjárveitingum Alþingis (skattfé) til fornleifaverndar, ætti stjórnsýsla fornleifaverndar  best heima hjá Umhverfisstofnun sem er undirstofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Ástæðan sé að stjórnsýsla fornleifaverndar skarist við stjórnsýslu Umhverfisstofnunar vegna lögbundinna verkefna við margþætt mat á umhverfisáhrifum, skipulagsúttektir og fram­kvæmdir sem ná til friðaðra fornleifa, menningarminja og umhverfisminja. Með því að setja stjórnsýslu fornleifaverndar undir Umhverfisstofnun megi spara umtalsverðar fjárhæðir sem nýta mætti til „lögbundinna“ fornleifaverkefna, viðhalds og rannsókna á fornleifum sem liggja undir skemmdum víða á landsbyggðinni fyrir áhrif uppblásturs, vatns- og landrofs. 
    
Hugmyndir dr. Margrétar eru mikilvægt innlegg

Erindi Margrétar til stjórnar­þingmanna heyra undir málefnasvið allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, en þar er Unnur Brá Konráðsdóttir formaður. Húns segist telja að fara þurfi yfir það með hvaða hætti fornleifarannsóknum, kennslu í fornleifafræði og eftirliti er sinnt.

„Hugmyndir dr. Margrétar eru mikilvægt innlegg í þá umræðu. Ég tel að við þurfum að styrkja vísindarannsóknir og það gerum við best með því að dreifa ekki kröftunum of víða með mörgum litlum stofnunum. Við nýtum fjármagn betur og náum meiru fram með því að sameina kraftana. Ég vil því sjá sameiningu Lanbúnaðarháskólans og HÍ. Það er áhugaverð hugmynd að koma stjórnsýslunni varðandi fornleifavernd undir Umhverfisstofnun en ég tel að við eigum marga góða möguleika á því að ná fram frekari hagræðingu í stjórnsýslunni með það að markmiði að stofnanirnar verði sterkari og betur í stakk búnar til að sinna sínum verkefnum.“

Vistun fornleifafræðinnar innan LbhÍ yrði góður kostur

Haraldur Benediktsson, alþingis­maður og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands, hefur látið málefni LbhÍ mjög til sín taka.

„Mér finnst áhugavert að skoða framtíð þessa fræðasviðs og framtíðarfyrirkomulag.

Fræðasviðið virðist verða undir í miklum skipulagsbreytingum innan háskólakerfisins. Nokkuð sem við höfum alltaf óttast með búvísindin og búfræðsluna. Þannig að örlög fornleifafræðinnar eru okkur umhugsunarefni.  Landnýting og fornleifarannsóknir eru tengdar greinar. Það er mikilvægt að samþætta þau meira en gert er.  Ég er ekki í vafa að vistun  fræðasviðsins innan LbhÍ yrði góður kostur,“ segir Haraldur. 

Með doktorsgráðu í norrænni fornleifafræði og miðaldafornleifafræði

Dr. Margrét Hermanns Auðardóttir stundaði nám í fornleifafræði við háskólana í Uppsölum, Lundi og Gautaborg í Svíþjóð. Doktorsritgerð hennar fjallaði um upphaf byggðar á Íslandi og varði hún þá ritgerð við háskólann í Umeå árið 1989. Margrét hefur stundað fornleifarannsóknir hér á landi, m.a. í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum og að Gásum í Eyjafirði, og erlendis og ritað fjölda greina í bækur og tímarit. Á árunum 1987–1990 gegndi hún rannsóknarstöðu í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Þá átti hún frumkvæði að og stjórnaði þverfaglegu norrænu vísindasamstarfsverkeni 1993–1999 sem fékkst við rannsóknir á aldri byggðar á Íslandi og í Færeyjum.
Í doktorsritgerð sinni hélt Margrét því fram að Ísland hafi að öllum líkindum verið í byggð allnokkru fyrr en áður var talið.  Byggði hún það m.a. á rannsóknum í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum. Fékk Margrét mjög bágt fyrir þessar „kenningar“ sínar hjá ýmsum sagnfræðingum innan Háskóla Íslands, enda kollvarpaði þetta þeirri söguskoðun sem haldið hefur verið að Íslendingum, m.a. í gegnum skólakerfið, að Ísland hafi verið numið 870 eða 874. Vekur sú afstaða ekki síst athygli þar sem á undanförnum árum hafa verið að koma fram fjölmargar nýjar upplýsingar vísindamanna sem styrkja rannsóknaniðurstöður Margrétar.

Til styrktar fornleifavernd á landsbyggðinni

„Tillagan að háskólatengdri rannsóknastofnun við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri er hugsuð til styrktar fornleifavernd á landsbyggðinni og skilum á fornleifarannsóknum“ samkvæmt erindi Margrétar til þingmanna.
„Fyrirmyndin að stofnuninni er sótt til Noregs og löguð að íslenskum aðstæðum í útfærðri tillögu sem ég hef sett fram undir heitinu, Háskólatengd rannsóknastofnun nauðsyn til styrktar fornleifavernd og fornleifarannsóknum,“ segir Margrét. 

Færri útflutt hross
Fréttir 7. janúar 2025

Færri útflutt hross

Útflutningur íslenskra hrossa árið 2024 verður minni en í fyrra.

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt
Fréttir 7. janúar 2025

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt

Ákveðið hefur verið að flytja meðferðarheimilið Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rang...

Smáforrit til að panta sæðingar
Fréttir 6. janúar 2025

Smáforrit til að panta sæðingar

Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frj...

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins
Fréttir 6. janúar 2025

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins

Haukur Bjarnason, bóndi á hrossaræktarbúinu Skáney í Reykholtsdal, er nýr formað...

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Fréttir 6. janúar 2025

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti

Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands o...

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...