Réttardagar á komandi hausti
Undanfarin ár hefur Bændablaðið tekið saman og birt lista yfir réttardaga í helstu fjár- og stóðréttum landsins að hausti. Hafa upplýsingarnar notið vinsælda og verið mikið nýttar, ekki síst af aðilum í ferðaþjónustu, en réttarferðir hafa verið vaxandi hluti af þeirri afþreyingu sem þeir aðilar hafa boðið upp á að hausti.
Mikilvægt er að upplýsingar um réttardaga berist sem fyrst til blaðsins. Eru fjallskilastjórar og forráðamenn sveitarfélaga, auk annarra sem hafa öruggar upplýsingar um réttahald í haust, því beðnir að senda þær upplýsingar til Freys Rögnvaldssonar, blaðamanns á Bændablaðinu á netfangið fr@bondi.is og til Ólafs R. Dýrmundssonar ráðunautar á netfangið ord@bondi.is. Réttalisti fyrir komandi haust mun svo birtast í næsta Bændablaði, sem kemur út 28. ágúst.