Ríkisstuðningur hefur lækkað um 51%
Ef sami stuðningur hefði haldist á hvern framleiddan mjólkurlítra frá árinu 2004 til 2022, væru beingreiðslur 106 prósent hærri. Frá þessu er greint í ársskýrslu Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði.
Árið 2004 voru beingreiðslur 49 prósent af tekjum við framleiðslu á hvern lítra mjólkur. Árið 2022 hefur þetta hlutfall lækkað niður í 29 prósent. Í ársskýrslunni er bent á að þetta hlutfall sé lægra en í Bandaríkjunum, en árið 2016 var ríkisstuðningur 45 prósent af tekjum á hvern lítra mjólkur. Þessi mikla lækkun skýrist helst af því að bændur hafa svarað ákalli um aukna framleiðslu mjólkur undanfarin tuttugu ár á sama tíma og heildarmagn beingreiðslna hefur lækkað að raungildi.
Ef ríkisstuðningur hefði fylgt verðlagsþróun og framleiðslu- aukningu á þessu tímabili, hefði stuðningur við mjólkurframleiðslu árið 2022 verið 14,7 milljarðar króna, segir í ársskýrslu SAM.