RML hefur myndað viðbragðsteymi
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur enga beina aðkomu að viðbragðsáætlunum varðandi möguleg hamfaraflóð ef það byrjar að gjósa undir jökli. Þó hefur viðbragðsteymi verið myndað innan RML sem hefur það hlutverk að fylgjast náið með þróun mála.
„Í þessu teymi eru ráðunautar sem eru vel upplýstir af Almannavörnum og vinna náið með þeim enda hafa þeir yfirgripsmikla staðþekkingu,“ segir Borgar Páll Bragason, fagstjóri í nytjaplöntum hjá RML, sem stýrir viðbragðsteyminu. „Aðrir sem eru í teyminu eru María Svanþrúður Jónsdóttir sem er á Húsavík.
Hún er mjög vel inni í málum á því svæði þar sem hún vinnur náið með Almannavörnum í umboði sýslumanns. Þá er Guðfinna Harpa Árnadóttir á Egilsstöðum sem hefur einnig komið að vinnu Almannavarna á því svæði. Síðan er það Pétur Halldórsson á Hvolsvelli sem þekkir vel til málanna þegar gaus undir Eyjafjallajökli og í Grímsvötnum.
RML hefur í raun ekkert skilgreint hlutverk ef til goss kemur undir jökli. Starfsemi okkar mun án efa laskast eins og hjá öðrum fyrirtækjum sem starfa á landsvísu ef samgöngur og fjarskipti fara úr skorðum, en við höfum þó starfsstöðvar vítt og breitt um landið sem gerir okkur ágætlega í stakk búin til að sinna okkar ráðgjafarhlutverki.
Okkar starfsfólk á hættusvæðum mun fylgja því sem öðrum almenningi er fyrir lagt að gera af Almannavörnum.“