Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Rúllupylsan Paradís, frá Húsavík á Ströndum, var dæmd besta pylsan í keppninni.
Rúllupylsan Paradís, frá Húsavík á Ströndum, var dæmd besta pylsan í keppninni.
Mynd / smh
Fréttir 12. desember 2014

Rúllupylsukeppni í Þurranesi í Saurbæ

Höfundur: smh

Slow Food á Íslandi og Þaulsetur sf. stóðu fyrir keppni í gerð rúllupylsu í Þurranesi í Saurbæ laugardaginn 22. nóvember.

Það var í þriðja skiptið sem þessi keppni er haldin og í þriðja skiptið var rúllupylsa ættuð frá Húsavík á Ströndum hlutskörpust.

Hugmyndin kviknaði á Ítalíu

Að sögn Höllu Steinólfsdóttur, bónda í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd, sem stóð að skipulagningu keppninnar, kviknaði hugmyndin á Slow Food-hátíðinni í Tórínó árið 2012.

„Við vorum saman á hátíðinni, Þorgrímur [E. Guðbjartsson] og Helga [E. Guðmundsdóttir] á Erpsstöðum í Dölum og við urðum fyrir innblæstri af öllum þessum krásum sem við sáum á hátíðinni. Okkur fannst því tilvalið að hleypa lífi í matarhandverk og smáframleiðslu í héraðinu okkar og efna til þessarar rúllupylsukeppni. Fornar verkunarhefðir og handverk í matargerð má ekki gleymast eða staðna. Keppnin er haldin til að viðhalda og vekja athygli á fornum hefðum og handverki í matargerð. Rúllupylsugerð úr kindakjöti er gömul og góð hefð á íslenskum heimilum. Það er því nauðsynlegt að leyfa ímyndunaraflinu að njóta sín, prófa nýjar leiðir og stuðla þannig að þróun í gerð hefðbundinna matvæla,“ segir Halla og bætir við að hugmyndir séu uppi um stofnun Slow Food-félags fyrir Vesturland.

Dómarar voru Dominique Plédel Jónsson frá Slow Food Reykjavík og Kjartan H. Bragason frá Meistarafélagi kjötiðnaðarmanna.

Búið að sækja um skráningu fyrir rúllupylsuna inn í Bragðörkina

Að sögn Dominique hefur verið send inn umsókn til alþjóðlegu Slow Food-hreyfingarinnar um að íslenska rúllupylsan verði tekin inn í svokallaða Bragðörk Slow Food-hreyfingarinnar. Innanborðs í Bragðörkinni eru þær gæðaafurðir sem eru meðal annars taldar hafa menningarlegt gildi. Dominique segir að það sé einnig áhugi á magálnum; segir hann jafnvel líka eiga heima í Bragðörkinni.

Magállinn er líka áhugaverður

Dominique biðlar til þeirra lesenda Bændablaðsins sem þekkja til verkunar og vinnslu á magálnum, að hafa samband við sig í gegnum vef Slow Food Reykjavík; slowfood.is.

Sigurvegarar Rúllupylsukeppninnar í þriðja sinn frá Húsavík á Ströndum

Sauðfjárbændurnir Matthías Sævar Lýðsson og Hafdís Sturlaugsdóttir, í Húsavík á Ströndum, gerðu sér lítið fyrir og báru sigur út býtum í þriðja sinn í Rúllupylsukeppninni í Þurranesi í Dalabyggð, en keppnin hefur einmitt einungis þrisvar verið haldin. Raunar áttu þau næstbestu pylsuna einnig.

Hafdís og Matthías búa með um 470 kindur og mismunandi fjölda af æðarfugli og Hafdís segir að kannski megi rekja upphafið að áhuga þeirra á rúllupylsugerð til þess þegar þau ákváðu að koma sér upp kjötvinnslu. „Við tókum þátt í Vaxtarsprota-verkefni 2006. Þá unnum við með ákveðna hugmynd sem varð grunnurinn að kjötvinnslu sem við komum upp í framhaldi, eða 2008. Við fengum hugmynd að kjötafurð, svokölluðum Lostalengjum, sem er aðalbláberjagrafinn og reyktur ærvöðvi. Hugmyndin tók á sig mynd og er alltaf í framleiðslu hjá okkur. Nú tökum við heim úr sláturhúsi um það bil 25 prósent af framleiðslu búsins. Við vinnum lambakjöt og ærkjöt, sagað, úrbeinað, saltað og reykt allt eftir óskum kaupenda. Aðalkaupandi okkar er veitingastaðurinn Café Riis á Hólmavík en Frú Bára kaupir allar sauðfjárafurðir af okkur. Einnig seljum við kindakjöt til einstaklinga og fleiri fyrirtækja í nágrenninu. Við erum alltaf að vinna að vöruþróun á kindakjöti, sumt tekst og annað ekki,“ segir Hafdís.

Fyrst voru slögin nýtt í kæfu

„Við gerðum ekki mikið af rúllupylsum fyrstu búskaparárin. Slögin voru meira nýtt í kæfu. Okkur fannst þessi hefðbundna rúllupylsa, það er söltuð með lauk og rúllupylsukryddi ekkert sérstök. Aftur á móti voru yfirleitt gerðar reyktar rúllupylsur.

Þegar rúllupylsukeppnin var haldin í fyrsta sinn 2012 ákváðum við á síðustu stundu að vera með.  Það var aðallega til að spreyta okkur á rúllupylsugerð úr lambaslögum sem er gömul íslensk hefð. Okkur fannst líka skemmtileg þessi nýbreytni í matarmenningu. Við lögðum höfuðið í bleyti og reyndum nýjungar og reyndum okkur líka við hefðbundnari tegundir. Þá fengum við fyrstu verðlaun fyrir „léttreykta rúllupylsu“ og önnur verðlaun fyrir „ávaxtafyllta rúllupylsu“. Léttreykta rúllupylsan varð bara léttreykt vegna tímaskorts en við náðum ekki að reykja hana meira. Árið 2013 var önnur keppni og þá vorum við óragari að gera tilraunir. Sumt heppnaðist en annað alls ekki. Þá fengum við fyrstu verðlaun fyrir „Fjalladrottningu“ sem var krydduð með jurtum sem Hafdís tíndi hér á Ströndum.

Nú í ár komum við með þrjár tegundir af rúllupylsum til keppninnar. „Paradís“ var hunangssöltuð rúllupylsa, söltuð með salti frá Norðursalti á Reykhólum. Hún fékk fyrstu verðlaun. „Rán“ er rúllupylsa vafin saman með beltisþara á milli laga ásamt salti frá Norðursalti. Þar sem Húsavík stendur við sjó var auðvelt að nálgast ferskan þarann. Við það kemur sjávarbragðið mjög vel fram. Hún fékk önnur verðlaun. Við vorum einnig með rúllupylsu sem við kölluðum „Heit og rjóð“ en hún var vafin upp með papriku, rauðlauk og chili.

Við fitusnyrtum slögin nokkuð vel en samt verður að vera fita í rúllupylsum, annars verða þær þurrar og ekki góðar. Matthías úrbeinar, fituhreinsar og himnudregur slögin. Hugmyndavinnuna vinnum við saman og fáum einnig hugmyndir frá öðrum fjölskyldumeðlimum. En ég sé svo um að útfæra hugmyndirnar. Aðalatriðið við gerð rúllupylsu er að þora að prófa sig áfram. Þetta er mjög skemmtilegt og gaman að sjá hver árangurinn verður. Slögin eru ekki dýr matur og því tilvalið að gera tilraunir með þau.“

8 myndir:

Færri útflutt hross
Fréttir 7. janúar 2025

Færri útflutt hross

Útflutningur íslenskra hrossa árið 2024 verður minni en í fyrra.

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt
Fréttir 7. janúar 2025

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt

Ákveðið hefur verið að flytja meðferðarheimilið Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rang...

Smáforrit til að panta sæðingar
Fréttir 6. janúar 2025

Smáforrit til að panta sæðingar

Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frj...

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins
Fréttir 6. janúar 2025

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins

Haukur Bjarnason, bóndi á hrossaræktarbúinu Skáney í Reykholtsdal, er nýr formað...

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Fréttir 6. janúar 2025

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti

Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands o...

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...