Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Börkur 13-952 frá Efri-Fitjum hampar verðlaununum sem besti lambafaðirinn.
Börkur 13-952 frá Efri-Fitjum hampar verðlaununum sem besti lambafaðirinn.
Mynd / RML
Á faglegum nótum 17. apríl 2018

Sæðingahrútar verðlaunaðir

Höfundur: Eyþór Einarsson ábyrgðarmaður í sauðfjárrækt
Árlega hafa sæðingastöðvarnar veitt verðlaun til ræktenda þeirra sæðingastöðvahrúta sem þótt hafa skarað fram úr sem kynbótagripir.  Annars vegar eru veitt verðlaun fyrir besta lambaföðurinn og hins vegar fyrir mesta kynbótahrútinn.
 
Það er faghópur sauðfjárræktar hjá RML sem velur hrútana og mótar reglur um val þeirra.  
 
Besti lambafaðirinn
 
Við val á besta lambaföðurnum er horft til útkomu þeirra hrúta sem skiluðu 100 eða fleiri fullstigðuum hrútum í gegnum sæðingar sl. haust.  Hrúturinn þarf að ná 110 stigum í BLUP kynbótamati fyrir gerð og fitu og að lágmarki 95 stigum fyrir frjósemi og mjólkurlagni.  Þungaeinkunn hrútsins þarf að vera yfir 105.  Sérstaklega er horft til niðurstaðna úr ómmælingum og stigun lambanna.
Í ár var það Börkur 13-952 frá Efri-Fitjum sem hampar verðlaununum.  Hann er ræktaður af þeim Gunnari Þorgeirssyni og Grétu Brimrúnu Karlsdóttur. Börkur hlaut eftirfarandi umsögn:
 
„Besti lambafaðir sæðinga­stöðvanna veturinn 2016 til 2017 er Börkur 13-952 frá Efri-Fitjum í Fitjárdal, Vestur-Húnavatnssýlsu.   Val hans byggir á niðurstöðum úr lambaskoðunum og kjötmati haustið 2017.
Börkur er sonur Birkis 10-893 frá Bjarnastöðum.  Í æðum hans rennur talsvert Hestsblóð, en Þráður 06-996 frá Hesti er móðurfaðir hans og einnig má finna Hörva 92-972 í bakættum í gegnum Ljóra 95-828 frá Þóroddsstöðum.   Þessar ættlínur hafa blandast með frábærum hætti við það öfluga afurðafé sem ræktað er á Efri-Fitjum.
 
Börkur var fenginn til notkunar á sæðingastöðvunum haustið 2015 að aflokinni afkvæmarannsókn fyrir úrvalshrúta í Miðfjarðarhólfi sem fram fór á Þóroddsstöðum.  Er hann annar hrúturinn úr þeirri rannsókn sem vinnur til þessara verðlauna.   Börkur var tvo vetur á stöð, fékk  strax mikla notkun og var mest notaði hrútur stöðvanna veturinn 2016 til 2017. 
 
Afkvæmi Barkar eru jafnan fremur bollöng og vel gerð hvar sem á þeim er tekið.  Þau búa yfir mikilli holdfyllingu, eru hóflega feit og geysilega þroskamikil.  Stendur hann nú í 115 stigum í kynbótamati fyrir gerð, 111 stigum fyrir fitu og með fallþungaeinkunn upp á 147.  Þá er hann ákaflega lofandi sem ærfaðir og er hann því einn af mestu kostagripum stöðvanna til framræktunar á helstu úrvalseiginleikum. Því miður er hann fallinn en Börkur var frábær kynbótahrútur sem hlýtur með sóma nafnbótina  „besti lambafaðirinn“ framleiðsluárið 2017.“
 
Váli 10-907 er útnefndur mesti kynbótahrútur sæðingastöðvanna 2018.
 
Mesti kynbótahrúturinn
 
Kynbótahrúturinn þarf bæði að hafa verið góður lambafaðir og ærfaðir.  Meðal krafna sem til hans eru gerðar er að hann eigi a.m.k. tvo árganga af dætrum sem komið hafa til uppgjörs og eru tilkomnar í gegnum sæðingar.  Hann hafi að lágmarki 105 stig í BLUP kynbótamati fyrir gerð og mjólkurlagni og 100 stig fyrir fitu og frjósemi. 
 
Kynbótahrúturinn árið 2018 er Váli frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði.  Ræktandi hans eru Gunnarsstaðir sf..  Váli hlaut hann eftirfarandi ummæli:
 
„Mesti alhliða kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2018 er Váli 10-907 frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði.
Váli kom til notkunar á sæðingastöð sumarið 2013 og var valinn þangað eftir að hafa sýnt góðan árangur sem lambafaðir heima á Gunnarsstöðum. Váli er undan Stála 06-831 en í móðurætt má m.a. finna sæðingahrútana Leka 00-880 og Bút 93-982 ásamt valinkunnum heimahrútum.
 
Váli var notaður á sæðingastöðvunum í tvo vetur og eru skráðar alls 1.099 sæddar ær við honum í Fjárvísi. Til fullnaðardóms komu 254 lambhrútar og 407 gimbrar.
 
Í samanburði sæðinga­stöðvahrúta eru afkvæmi Vála í góðu meðaltali hvað varðar gerð þeirra en meiri breytileiki þó í hrútum heldur en í gimbrum hvað það varðar. Styrkur afkvæma hans hefur fremur legið í hagstæðara kjötmati en mælingum á lifandi lömbum auk góðs þroska þeirra og hóflegrar fitusöfnunar.
 
Sem ærfaðir eru kostir Vála sem kynbótahrúts ótvíræðir en dætur hans eru ágætlega frjósamar og mjög öflugar afurðaær og sýndu þær strax þann eiginleika skýrt sem lambgimbrar. Hróður Vála sem ærföður hefur vaxið æ síðan. Hann á nú um 400 dætur samkvæmt skýrsluhaldi Fjárvíss.
 
Váli 10-907 er hér með útnefndur „mesti kynbótahrútur stöðvanna 2018“ og ber þann titil með sóma.“
Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...