Samstöðuhátíð gegn matarsóun var haldin í Hörpu
Samstöðuhátíðin „Saman gegn matarsóun“ var haldin í Hörpu 6. september síðastliðinn. Hátíðin er liður í norrænu samvinnuverkefni (United Against Food Waste Nordic) sem gengur út á að minnka sóun á mat á öllum stigum framleiðslu og neyslu.
Viðburðir verða haldnir hjá öllum Norðurlandaþjóðunum á tímabilinu júní til október 2014 en verkefnið er hugsað til eins árs í senn. Auk viðburðarins í Hörpu verður framleidd heimildarmynd um matarsóun, gefin út matreiðslubók, framleiddur sjónvarpsþáttur, haldin námskeið fyrir almenning og stór málstofa verður skipulögð með aðkomu fagfólks.
Málefninu komið í umræðuna
Markmið samvinnuverkefnis er að koma matarsóun í umræðuna á Norðurlöndunum og finna raunverulegar lausnir. Það er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni og upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) en matarsóun er málefni sem skiptir miklu máli á heimsvísu og varðar umhverfismál, efnahagsmál og samfélagslega ábyrgð.
Á vefslóðinni matarsoun.is má finna nánari upplýsingar um verkefnið og ýmsan hagnýtan fróðleik, sem getur komið að gagni fyrir fólk sem vill minnka sóun á matvælum.