Sauðfjárbændur vilja 12,5% hærra skilaverð
Stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda hefur sent bréf til sláturleyfishafa þar sem farið er fram á að skilaverð til bænda hækki um 12,5% vegna haustslátrunar 2016. Samtökin hafa heimild til þess að gefa út viðmiðunarverð samkvæmt búvörulögum. Í rökstuðningi segir að í ljósi þess að skilaverð til bænda hefur lækkað síðastliðin tvö ár og haldi ekki í við verðbólgu eða launaþróun sé nauðsynlegt að hækka verð til bænda í haust.
Í rökstuðningi sauðfjárbænda segir meðal annars að sala á kindakjöti hafi verið góð undanfarin misseri og ár. Samkvæmt tölum Matvælastofnunar jókst sala á kindakjöti 2012 til 2014 en dróst lítillega saman 2015. Á fyrsta ársfjórðungi 2016 varð hins vegar 25,1% söluaukning. Í júní jókst salan um 5,6% miðað við sama mánuð árið á undan og birgðir eru minni en á sama tíma í fyrra.
Allt bendir til þess að þjóðarrétturinn lambakjöt sé í sókn að mati stjórnar LS. Markaðsstarf bænda og afurðastöðva, stöðugt framboð, aukinn ferðamannastraumur og vakning hjá íslenskum neytendum um gæði og hollustu íslenska lambakjötsins skipta þar sköpum.
"Það skýtur því skökku við að afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Auk þess fá íslenskir bændur minna af endanlegu útsöluverði í sinn hlut en víða annars staðar og sá hlutur virðist enn hafa minnkað síðustu misseri," segir í bréfi LS til sláturleyfishafa.
24% hækkun launavísitölu á 30 mánuðum
Sauðfjárbændur rökstyðja óskir sínar um verðhækkanir í ljósi góðrar sölu á lambakjöti. "Góð sala á lambakjöti kemur heim og saman við aukinn kaupmátt launa en vísitala hans stóð í 115,5 stigum í janúar 2014 en í 136,7 stigum í júní 2016. Þetta er 18,4% hækkun á tímabilinu.
Launavísitala Hagstofunnar stóð í 468,5 stigum í janúar 2014 en í 581,6 stigum í júní 2016. Þetta er 24,1% hækkun á 30 mánuðum. Ef eingöngu er litið til síðustu 12 mánaða hækkaði launavísitalan um 12,5%.
Verðbólga síðustu misseri hefur þó verið minni en hækkanir launa og kaupmáttar. Neysluvísitalan stóð í 415,9 stigum í janúar 2014 en í 436,3 í júní 2016. Þetta þýðir að verðlag hefur hækkað um 4,9% á tímabilinu."
6% raunlækkun afurðaverðs til bænda síðustu tvö ár
Í fyrra fengu sauðfjárbændur að jafnaði um 604 kr. fyrir hvert kíló af lambakjöti haustið 2014 sem var um 0,4% hækkun frá árinu á undan. Árið 2015 lækkaði verðið hins vegar um 1,1%. Afurðaverð til sauðfjárbænda hefur því lækkað um 0,7% undanfarin tvö ár.
"Algengt er að íslenskir bændur fái sem nemur á bilinu 25% til 41% af endanlegu útsöluverði lambakjöts í sinn hlut. Þegar tekið hefur verið tillit til 11% virðisaukaskatts þýðir þetta að milliliðir; sláturhús, kjötvinnslur og verslanir taka á bilinu 49% til 65% af endanlegu útsöluverði á lambakjöti til sín.
Samanlögð verðbólga og lækkun afurðaverðs til bænda á tímabilinu 2014 til 2016 nemur 5,6% sem þýðir raunlækkun til bænda sem því nemur. Verð til bænda þarf því að hækka um 5,9% til að halda í við verðlagsþróun. Eigi laun sauðfjárbænda og kaupmáttur að halda í við aðra hópa í samfélaginu, t.d. þá sem vinna við úrvinnslu eða sölu afurðanna, þarf enn meiri leiðréttingu afurðaverðs.
Samkvæmt 8. gr. búvörulaga nr. 99/1993 er Landssamtökum sauðfjárbænda heimilt að gefa út viðmiðunarverð til framleiðenda. Landssamtök sauðfjárbænda hafa áður lýst vilja sínum til vinna með afurðastöðvum, sem flestar eru reyndar í eigu bænda, að því að leiðrétta afurðaverð til bænda í áföngum. Fyrir ári gáfu samtökin út eftirfarandi viðmiðunarverð til þriggja ára. Er þá miðað við meðalverð í haustslátrun 2014," segir í bréfi LS til sláturleyfishafa.
Útgefið viðmiðunarverð **:
- Haustslátrun 2014 – meðalverð: 604 kr.
- Haustslátrun 2015 – meðalverð: 677 kr.
- Haustslátrun 2016 – meðalverð: 719 kr.
-
Haustslátrun 2017 – meðalverð: 762 kr.
** Nánar má lesa um rökstuðning LS fyrir þriggja ára viðmiðunarverði hér: http://saudfe.is/frettir/2189-sauðfjárbændur-vilja-sanngjarnt-verð.html
Bændur vilja sanngjarnt verð
"Sauðfjárbændur telja eðlilegt að þeir sem frumframleiðendur njóti sanngjarnrar hlutdeildar af endanlegu söluverðmæti eigin framleiðslu. Þeir sjá jafnframt litla sanngirni í því að bera allan kostnaðarauka sem hlýst vegna dýrari aðfanga eða launahækkana annars staðar í virðiskeðjunni.
Hófstilltar og sanngjarnar kröfur bænda hlutu ekki hljómgrunn í fyrra og útgefið viðmiðunarverð þeirra var ekki lagt til grundvallar við útgáfu verðskráa sláturleyfishafa. Þetta hefur þýtt beina kjaraskerðingu bænda. Landssamtök sauðfjárbænda leggja því til að afurðaverð verði leiðrétt á komandi hausti til samræmis við hækkun launavísitölu s.l. 12 mánaða eða um 12,5%. Það þýðir einnig að hægt verður að standa við útgefið viðmiðunarverð til þriggja ára frá í fyrra."