Segir eftirlitið reyna að knýja fram breytingar á búvörulögum
Mjólkursamsalan ætlar að áfrýja úrskurði Samkeppniseftirlitsins sem ákvað að sekta Mjólkursamsöluna um 370 milljónir króna vegna meintrar misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.
Hörð krafa hefur komið fram í kjölfar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um að MS verði gert að fara að samkeppnislögum og að lög númer 99 frá 1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum verði endurskoðuð. Þar er sér í lagi rætt um 71. grein laganna sem talin er veita MS undanþágu frá hluta samkeppnislaga og er svohljóðandi: „Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.“
Samkeppniseftirlitið telur að með því að selja samkeppnisaðilum hrámjólk á 17% hærra verði en til fyrirtækja tengdum MS hafi fyrirtækið valdið samkeppnisaðilunum talsverðum skaða. Brotið er talið alvarlegt þar sem það tengist mikilvægum neysluvörum og hefur varað í langan tíma, eða að minnsta kosti frá árinu 2008 og til ársloka 2013.
MS áfrýjar
Í yfirlýsingu frá Mjólkursamsölunni vegna úrskurðar Samkeppniseftirlitsins segir að mjólkin hafi verið verðlögð í samræmi við opinbera verðskrá og öll framkvæmd á viðskiptum með mjólk í lausu máli var í samræmi við búvörulög og samkeppnislög.
Fyrirtækið telur sig í einu og öllu hafa farið að búvörulögum og samkeppnislögum í starfsemi sinni og telur að ekkert í gögnum málsins bendi til annars. Hér er um að ræða ólíka túlkun fyrirtækisins og Samkeppniseftirlitsins á skilmálum búvörulaga og samkeppnislaga. Niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins verður þegar í stað áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Í áliti Samkeppniseftirlitsins segir að ekki sé hins vegar unnt að fallast á það með MS að það leiði af þessari breytingu á ákvæðum búvörulaga að bann samkeppnislaga við samráði sé gert með öllu óvirkt þegar um sé að ræða „viðskipti innan iðnaðarins“. Eins og fram komi í lögunum beri að skýra undantekningar frá almennum lögum þröngt.
„Hæpinn skilningur á ákvæðum búvörulaga“
Síðdegis á þriðjudag sendi Egill Sigurðsson, formaður stjórnar Auðhumlu, félagsmönnum þess bréf þar sem hann reifar málið frá sjónarhóli MS og Auðhumlu. Auðhumla er regnhlífarfyrirtæki með um 90% eignarhlut í MS og er í eigu um 700 mjólkurframleiðenda um land allt. Í bréfinu hnykkir Egill á 71. grein búvörulaga og segir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins byggja á afar hæpnum skilningi á ákvæðum búvörulaga að mati MS.
„Samsæriskenning“
Egill kemur víða við í bréfi sínu og segir m.a.: „Hvergi í úrskurði Samkeppniseftirlitsins er reynt að færa sönnur á að verðhækkun á mjólk í lausu máli haustið 2009 hafi komið til með þeim hætti sem staðhæft er í niðurstöðuskjalinu. Sett er fram nokkurs konar samsæriskenning, sem MS virðist síðan eiga að afsanna. Samkeppniseftirlitið reynir með þessum aðferðum að gera starfshætti verðlagsnefndar búvöru tortryggilega og samsæriskenningin virðist ganga út á að nefndin hafi gengið erinda Mjólkursamsölunnar til að koma fyrirtækinu Mjólku á kné.“
Segir eftirlitið reyna að gera MS og samstarfsfyrirtæki tortryggileg
Í niðurlagi bréfsins segir Egill: „MS telur að Samkeppniseftirlitið hafi ákveðið að láta reyna á gildi búvörulaga þar sem þau gefa fyrirtækjum í mjólkuriðnaði (öllum fyrirtækjum sem eru með innvigtunarleyfi og alls ekki bundið við MS) færi á að vinna saman og eða sameinast. Eftirlitið hafi valið og slitið úr samhengi upplýsingar í málatilbúnaði sem miðaði að því að gera MS og samstarfsfyrirtæki hennar tortryggileg. Tilgangurinn er að mati MS að reyna að knýja fram breytingar á búvörulögum. MS hyggst sýna fram á þetta í áfrýjunarferlinu.“
Þá segir Egill að félagið muni ekki ræða þessi mál frekar efnislega fyrr en niðurstaða áfrýjunarnefndar liggi fyrir, en hún hafi sex vikur til að komast að niðurstöðu eftir að hún fær málið til umfjöllunar.
„Markaðsmisnotkun er glæpur gagnvart neytendum“
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti yfir miklum áhyggjum vegna málsins úr ræðustóli Alþingis á þriðjudag og að athafnir MS vektu sér ugg í brjósti.
„Markaðsmisnotkun er glæpur gagnvart neytendum og í því getum við ekki tekið þátt.“
Sagði hann að ef úrskurður Samkeppniseftirlitsins sé réttur þá verði að stokka upp spilin. Þá hefur Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, sagt að þetta kalli á tafarlausa endurskoðun búvörulaga.
Verið að láta reyna á búvörulögin
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra sagði, þegar Bændablaðið náði tali af honum, að hann væri enn að skoða greinargerð Samkeppnisstofnunar um málið og því of snemmt fyrir hann að segja nokkuð um það.
Mjólkursamsalan er vegna stöðu sinnar á markaði undanþegið samkeppnislögum og þegar Sigurður Ingi var spurður hvort komið hafi fram hugmyndir um að afnema þá undanþágu sagði hann svo ekki vera.
„Við erum með ákveðinn lagagrunn í landinu og hann gildir en mér sýnist við fyrstu sýn að Samkeppniseftirlitið sé að láta reyna á búvörulögin. Ég vil því ekki tjá mig um málið fyrr en ég er búinn að fá greiningu á úrskurði Samkeppniseftirlitsins.“
Farið verði að lögum
Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda (LK), sem jafnfram situr í verðlagsnefnd búvara fyrir hönd bænda, segir að sjálfsögðu eigi MS að fara að lögum.
„Það hlýtur að vera okkar krafa að þessir aðilar sem starfa á markaðnum innan ramma búvörulaganna fari eftir þeim lögum og reglum sem þeim eru ætlaðar. Mér virðist þó að í áliti Samkeppnisstofnunar sé komið fram lögfræðilegt álitamál um túlkun á heimildum búvörulaga. Allavega hefur það verið viðtekin skilningur, að heimildir til viðskipta á milli þessara tengdu aðila séu býsna rúmar. Enda eru þeir bundnir af ýmsum skyldum sem lögin setja þeim og kröfum sem fylgja ákvörðunum verðlagsnefndar. Mér sýnist Samkeppniseftirlitið sé farið að túlka heimildir búvörulaga þrengra en menn hafa gert til þessa. Það þýðir þá væntanlega að úr því þarf að fá skorið og því fyrr því betra,“ segir Sigurður.
Hagfræðistofnun skoðar málið
Hann viðurkennir að málið sé þegar orðið mjög skaðlegt fyrir bændur. Því sé brýn ástæða að fara yfir forsendurnar og að það verði metið af hverju þessi undanþága sé fyrir hendi í lögunum og hverju hún hafi skilað. Sigurður segir að hugsun laganna felist fyrst og fremst í því að jafna aðgengi allra landsmanna að vörunum, tryggi jafnvægi í verði til neytenda og tryggi bændum um leið lágmarksverð. „Það er í gangi vinna við að skoða reynsluna af þessu fyrirkomulagi hjá Hagfræðistofnun.“ Segir Sigurður að ef menn vilji ráðast í breytingar á þessu fyrirkomulagi, þá sé mikilvægt að það verði einungis gert á forsendum vandaðrar úttektar.
Ríkar kröfur gerðar um hagræðingu
Sigurður segir að í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar frá 1998 hafi verið samið um að verðlagningu á heildsölustigi yrði hætt.
„Því var síðan breytt með núverandi samningi frá 2004, á þeirri forsendu m.a. að það komu fram miklar áhyggjur frá smærri verslunum um stöðu sína gagnvart stóru verslanakeðjunum um aðgengi að mjólkurafurðum. Í búvörulögin voru á sama tíma settar mjög ríkar heimildir fyrir mjólkuriðnaðinn til að sameiningar í því skyni að draga úr vinnslu- og dreifingarkostnaði. Í skýrslu sem gefin var út í aðdraga núverandi samnings var beinlínis lagt til að dregið yrði úr kostnaði með sérhæfingu og samvinnu eða samruna. Á þeirri forsendu fór af stað vinna við sameiningu í mjólkuriðnaði.
Á þessu tímabili voru teknar ákvarðanir bæði innan stjórnkerfisins og í verðlagsnefnd sem leiddu mjög stíft áfram hagræðingu í greininni. Ef menn eru samála að þetta hafi skilað árangri þá verða menn að hugsa það til enda hvort ganga eigi til baka með tilheyrandi uppskiptingu fyrirtækisins.“