Sex milljónir til verndar og viðhalds gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að veita 6 milljónir til verndaraðgerða og viðhalds á gönguleiðum á Þórsmörk og Goðalandi í sumar. Þessi svæði eru í umsjá Skógræktar ríkisins. Mikið verk er að byggja upp og halda við þeim 90 kílómetrum af gönguleiðum sem liggja um þessi svæði.
Landvarsla efld á nokkrum svæðum
Einnig voru veittar rúmar 14 milljónir króna til uppbyggingar og landvörslu á friðlýstum svæðum og mikilvægum ferðamannastöðum í umsjá Umhverfisstofnunar. Verður fjármagnið nýtt til verkefna sem koma eiga til framkvæmda í vor og sumar í Mývatnssveit, Þórsmörk, Friðlandi að Fjallabaki, til gönguleiðarinnar „Laugavegarins“ og við Gullfoss. Jafnframt verður landvarsla og umsjón efld í vor og sumar í Mývatnssveit, Þórsmörk, Friðlandi að Fjallabaki og í Borgarfirði.
Fjármunirnir í forgangsverkefni nýtast til að lagfæra og koma í veg fyrir frekari spjöll vegna ágangs ferðamanna. Stofnanirnar vinna að þessum verkefnum með ýmsum aðilum. Þetta eru viðbótarframkvæmdir á nokkrum mikilvægum svæðum þar sem mikið álag er á náttúruna og verndaraðgerðir mikilvægar.
Gönguleiðir samtals um 90 km
Framlagið sem Skógrækt ríkisins fær til verkefna á Þórsmörk verður nýtt til að greiða fæðiskostnað, fyrir efni, verkstjórn og annan kostnað við framkvæmdir sem unnar verða af sjálfboðaliðum á Merkursvæðinu. Munu hóparnir vinna áfram að uppbyggingu og lagfæringu gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu í framhaldi af því mikla og góða starfi sem starfsfólk Skógræktar ríkisins og sjálfboðaliðar hafa unnið þar á síðustu árum.
Gönguleiðirnar eru samtals um 90 km að lengd og mikið verk óunnið í viðhaldi þeirra.
Ýmsir hafa styrkt verkefni þessi undanfarin ár svo sem Framkvæmdasjóður ferðamanna-staða, Pokasjóður, Ferðamálastofa, Umhverfissjóður Landsbankans o.fl. Leitað hefur verið eftir styrkjum frá fleirum svo hægt verði að gera enn betur.
Ferðaþjónustan á svæðinu, sem er undir hatti Vina Þórsmerkur hefur stutt við verkefnið. Nú er unnið að gerð deiliskipulags fyrir Þórsmerkursvæðið og verða framkvæmdir unnar í samræmi við það.