Sítrónumelissa lengir geymsluþol matvæla
Kryddjurtin sítrónumelissa/hjartafró er talin vera á meðal mögulegra hráefna sem lengt geta geymsluþol matvæla.
Hjá Gróðrarstöðinni Ártanga hefur verið unnið að aukinni hagnýtingu kryddjurta sem ræktaðar eru á stöðinni og er Sigurdís Edda Jóhannesdóttir þar í forsvari. Matís hefur unnið fyrir Gróðrarstöðina að rannsókn á því hvort nota megi rotvörn unna úr jurtum í stað hefðbundinna rotvarnarefna. Nýlega kom út niðurstöðuskýrsla þar sem m.a. er lýst andoxunarvirkni sítrónumelissu.
Náttúruleg hráefni
Markmið verkefnisins um kryddjurtir var að rannsaka áhrif þeirra á geymsluþol matvæla en mikill áhugi er á hagnýtingu náttúrulegra hráefna í stað rotvarnarefna til að ná viðunandi geymsluþoli matvæla.
Samkvæmt Ólafi Reykdal, verkefnisstjóra hjá Matís, var athyglinni fyrst og fremst beint að einni kryddjurt, sítrónumelissu. Í tilraunum kom í ljós að hún hamlaði gegn vexti örvera við vissar aðstæður. Pressaður safi úr jurtinni var til skoðunar og bauð hann upp á hagnýtingu. Við geymslu á sítrónumelissu og fleiri kryddjurtum við 3-4 °C kom í ljós að skemmdarferlar gengu hægt fyrir sig.
„Ljóst er að sítrónumelissan býr yfir andoxunarvirkni samkvæmt mælingum í verkefninu,“ segir Ólafur. Andoxunarefnin gegni mikilvægu hlutverki fyrir heilsu, þau sporni gegn myndun skaðlegra efna í líkamanum og dragi úr óæskilegum breytingum.
Ber að þróa í varfærum skrefum
Í verkefninu kom skv. Ólafi í ljós að þættir í sítrónumelissu geta hamlað fjölgun örvera og að jurtin sé því meðal mögulegra hráefna sem geta lengt geymsluþol matvæla.
„Á þessu stigi er þó ekki tímabært að nota sítrónumelissu alfarið í stað rotvarnarefna sem fram til þessa hafa verið nauðsynleg fyrir matvælaöryggi. Þessa þróun ætti að taka í varfærnum skrefum og fylgjast með öryggi afurðanna,“ segir Ólafur.
Treysti hollustuímynd
Hann segir jafnframt að hafa megi í huga að notkun sítrónumelissu í matvæli treysti hollustuímynd varanna vegna andoxunarefna, vítamína og annarra næringarefna
Höfundar skýrslunnar Kryddjurtir – Eiginleikar og áhrif á geymsluþol matvæla eru, auk Ólafs, Óli Þór Hilmarsson, Léhna Labat, Þóra Valsdóttir og Kolbrún Sveinsdóttir. Verkefnið var styrkt af Matvælasjóði.