Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Sjálfbær ræktun og eldi
Fréttir 24. nóvember 2014

Sjálfbær ræktun og eldi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Edengarðar Íslands er hugmyndafræði sem snýst um það hvernig Íslendingar geta orðið sjálfbærir í ræktun og skapað fjölda fjölbreyttra starfa í samspili við móður Jörð og samstarfi hvert annað.

Pálmi Einarsson iðnhönnuður er einn af aðstandendum vinnuhóps sem vinnur að því að útfæra hugmyndina og koma henni í framkvæmd. 

„Drifkrafturinn á bak við hugmyndina er meðal annars sá að okkur finnst mjög einkennilegt hvernig farið er með fjármunina sem við sem samfélag eigum sameiginlega. Það virðist vera sjálfsagt að eyða úr sameiginlegum sjóðum okkar í verkefni sem tengjast einkaframtaki en takmarkaður vilji í að nota þá í verkefni sem flokkast sem samvinnuverkefni og eru sameign samfélaga sem byggja verkefnin upp.“

Framleiðsla á grænmeti

„Í grófum dráttum felst hugmyndin í að nota ódýra orku Íslendinga til að framleiða matvæli og þróa sjálfbæran iðnað úr iðnaðarhampi. Hingað til höfum við verið að selja orku í heildsölu til erlendra fjárfesta. Það hafa skapast töluvert af störfum með þessu en hagnaðurinn af orkusölunni hefur verið takmarkaður. Á landi eins eins og Íslandi, þar sem er mikið af endurnýtanlegri orku, ætti að vera lítið mál að hagnast af orkunni en okkur hefur á einhvern hátt ekki tekist það. Ég nam eftir endalausum loforðum ráðamanna um gríðarlegar tekjur þjóðinni til handa þegar koma upp áform um að byggja eina stóriðjuna í viðbót. Einhvern veginn bregðast væntingarnar þó alltaf og tekjurnar hverfa úr landi.

Hugmyndin með Edengörðum er að við seljum sjálfum okkur orkuna  á sama lága verðinu og stóriðjan fær hana á og notum hana í okkar þágu. Til að framleiða matvæli og ná tekjunum út úr sölu matvælanna fremur en sölu orkunnar og fá í bónus bætta lýðheilsu og minni umhverfisáhrif. Í dag er hátt í 90% af öllu grænmeti og ávöxtum flutt inn, mikið af því langt að með stóru vistspori, lakari gæðum og notkun á gjaldeyri. Markaðurinn hefur stækkað mikið á seinustu árum, bæði vegna aukins fjölda ferðamanna sem heimsækja landið og aukinnar neyslu og ásóknar í íslenskt grænmeti og íslenskar afurðir.

Hugmyndin hjá okkur er að framleiða grænmeti og ávexti og fullnýta framleiðsluna með því að framleiða úr henni vörur eins og tómatsalsa, tómatsósur, sultur og barnamat svo dæmi sé tekið en það er flutt inn gríðarlegt magn af þessum vörum á hverju ári. 

Ég sé einnig fyrir mér að fá bændur í lið með okkur og fá þá til að framleiða iðnaðarhamp til framleiðslu á ýmiss konar einnota vörum eins og einnota diskum, glösum, hnífapörum, pokum, pappír, fatnaði og svo framvegis. Þessar vörur er svo hægt að endurvinna í stað þess að farga þeim,“ segir Pálmi.

Geislar í Bolholti

Pálmi lærði iðnhönnun í Hollandi og bjó í nokkur ár í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann er fyrrverandi þróunarstjóri Össurar hf. og með 20 ára reynslu í því að hanna eigin hugmyndir og koma þeim á markað. Í dag rekur hann hönnunarhúsið og verslunina Geislar í Bolholti. Þar er einnig lítið verkstæði með geislaskurðarvél þar sem Pálmi framleiðir allar vörurnar sínar sem eru umhverfisvænar gjafavörur,  minjagripir og módelleikföng ásamt því að bjóða upp á skurðarþjónustu og hönnunarráðgjöf.

Pálmi segir hafa komið sér verulega á óvart bæði í starfi og þegar hann var að læra iðnhönnun að honum hafi verið kennt að hlutir ættu að hafa takmarkaðan líftíma þannig að fólk þyrfti að kaupa þá aftur og aftur. „Þetta er algerlega á skjön við mína hugmyndafræði og ég skil þetta ekki enn í dag. Það er staðreynd að við getum ekki haldið svona áfram því innan fárra áratuga munum við klára allar helstu auðlindir jarðar.“

Fiskeldi með grænmetinu

„Gróðurhús eins og ég er að tala um þarf að byggja þar sem er aðgangur að heitu vatni og lækur, ekki stór, en samt rennandi vatn. Ég sé fyrir mér gróðurhús með eins og hálfs til tveggja metra þykkri gólfplötu og hitarörum eins og snjóbræðslulögn í bílaplani. Undir rörunum eru svo lagðar svokallaðar Pertier-plötur sem hafa þann eiginleika að ef þær eru hitaðar öðrum megin þá kólna þær hinum megin og framleiða um leið rafmagn. Þannig er hægt að hita upp talsvert flæmi, fá rafmagn og rækta nánast hvað sem er. Ég sé líka fyrir mér að ræktunin fari fram á lóðréttum færiböndum til að spara pláss, auka nýtingahlutfallið og nota hitann í húsinu betur.“

Pálmi segir að samhliða grænmetis- og ávaxtarækt sé hægt að vera með fiskeldi, lax eða silung, í gróðurhúsunum. „Við ræktun fellur til mikið af grænum úrgangi sem hægt er að blanda saman við úrganginn frá fiskeldinu og búa til úrvals moltu sem aftur er hægt að nota við ræktunina. Auk þess sem það er hægt að rækta lirfur sem fiskafóður úr úrganginum og gera ræktunina og eldið því næst sjálfbært.

Seiðunum yrði síðan slepp t í lækinn og móðir Jörð látin sjá um uppeldið þar til hluti þeirra skilar sér aftur sem fullvaxinn fiskur til slátrunar ári seinna. 2 til 4% laxaseiða sem sleppt er skilar sér aftur sem fullvaxta lax en þau sem ekki skila sér eru fæða fyrir annað í lífríkinu og kannski lundinn okkar fari að verpa aftur ef aukning á fæðu verður við strendur og ár landsins.

Ég sé fyrir mér að við gætum hæglega gert lítil og jafnvel stór samfélög sjálfu sér nóg um grænmeti, ávexti og lax eða silung með þessu móti og að umframframleiðslan yrði seld og aflaði þannig tekna.“

Gistiaðstaða fyrir ferðamenn

Að sögn Pálma eru möguleikarnir í húsunum ekki eingöngu bundnir við ræktun og eldi því hann sér fyrir sér að tengja þau ferðamennsku, kennslu,  afþreyingariðnaði og félagslegri þjónustu sem elliheimili. Aldraðir gætu hugsanlega fengið smá pláss til að vera með eigin ræktun og þannig haft eitthvað fyrir stafni.

„Því ekki að nota hluta húsnæðisins sem gistirými og greiðasölu þar sem framleiðslan er undirstöðuhráefnið og hafa aðstöðu fyrir ráðstefnur og kennslu í sjálfbærni og hugmyndafræði Edengarðanna? Þar sem er heitt vatn má svo koma upp sundlaug.“

Enn á hugmyndastigi

Pálmi segir að samstarfshópurinn sé enn að útfæra hugmyndina og að hvorki sé búið að gera kostnaðaráætlun né finna Edengarðinum pláss. „Ég kynnti Edengarðana fyrir bæjarstjóranum á Dalvík síðastliðið sumar og honum leist vel á hana en lengra er hugmyndin ekki komin. Margir hafa sýnt henni áhuga, bæði almenningur og einstaklingar í sveitarstjórnum um land allt.

Það er kannski eigingirni í mér en ég vil að það sé byggð allt í kringum landið en það vantar atvinnutækifæri og Edengarðarnir geta verið liður í að bæta úr því.  Um leið langar mig að sjá fólk fara að vinna meira saman aftur í stað þess að vera pukrast hver í sínu horni. Þarfir okkar allra eru svipaðar og okkur getur liðið svo mikið betur ef við berum sameiginlega ábyrgð á umhverfinu og þeim verkefnum sem við tökumst á við,“ segir Pálmi Einarsson að lokum.

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...