Skemmdir í Skjaldfannardal
Talsverðar skemmdir hafa orðið á varnargörðum við bæinn Skjaldfönn í Skjaldfannardal í kjölfar leysinga og vatnavaxta í Selá sem fylgdu djúpri lægð sem gekk yfir landið fyrir skömmu. Allir skurðir eru fullir af vatni og tún kaffærð í jökulleir.
Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn í Skjaldfannardal við Ísafjarðardjúp, segir gríðarlegar leysingar hafa verið í síðustu viku og hreint ekkert annað en hamfaraflóð í dalnum.
Snjóþungur vetur
„Veturinn var einstaklega snjóþungur og í kjölfar lægðarinnar sem gekk yfir landið ekki alls fyrir löngu urðu miklar leysingar ásamt mikilli útkomu og aðstæður þannig bráðnunin varð nánast öll í einu og það fór allt á flott.“
Indriði segir engar heimildir um flóð af þessu tagi áður í Skjaldfannardal enda mjög sérstakar aðstæður að ræða þegar fara saman mikil snjóalög og mikla úrkomu.
Skemmdir á varnargörðum
Að sögn Indriða eru talsverðar skemmdir á varnargörðum við Selá en görðunum er ætlað að verja túnin á Skjaldfönn fyrir ágangi Selár og landbroti. „Selá er jökulá sem ber fram gríðarlegt magn af möl og sandi og farvegur hennar breytist ört. Í flóðinu núna má segja að áin hafi eyðilegt þrjá af fjórum mikilvægustu varnargörðunum á jörðinni. Tjónið er því upp á margar milljónir króna.“
Túnin á kafi í leir
Í vatnavöxtunum rann áin einnig yfir tún og kaffærði þau í jökulleir sem gras á erfitt með að vaxa upp í gegn. Indriði óttast því að lítið hey fáist af túnunum í sumar.
„Til viðbótar þessu eru allir skurðir á Skjaldfönn fullir af jökulvatni úr Selá sem étur bakka þeirra og grynnir um leið,“ segir Indriði.