Skógarmafían stórtæk í skógarhöggi
Ólöglegt skógarhögg er víðar vandamál en í hitabeltisskógum Suður Ameríku og Asíu því víða í Balkanlöndunum, Rúmeníu, Búlgaríu, Albaníu og Moldavíu sem dæmi, er ólögleg felling trjáa orðið verulegt vandamál.
Í Rúmeníu einni er talið að um 600.000 rúmmetrar af trjám hafi verið feld á síðasta ári. Áætlaður hagnaður af timbrinu er ríflega 3 milljarðar króna. Ástandið í öðrum Balkanríkjum er talið svipað og að spillt kerfi mútuþægra embættismanna geri lítið til að stöðva skógarhöggið. Talið er að um 25% af öllu skógarhöggi í þessum löndum sé ólöglegt.
Mest er skógarhöggið til fjalla þar sem eftirlitið er minnst og í útjöðrum þjóðgarða. Víða í þessum fjöllum vaxa sjaldgæfar furutegundir og er gengið svo nærri sumum þeirra að þær eru talda í útrýmingarhættu. Orðið „Balkan“ þýðir á tyrknesku röð af skógivöxnum fjöllum.
Trjám og greinum hefur lengi verið safnað í skógunum til eldiviðar en eftir að skógarmafían sá hagnað í viðnum hefur skógarhöggið margfaldast. Vinnsla viðarins fer yfirleitt fram í skjóli löglegra skógarnytja.