Skráning á tjóni vegna álfta og gæsa
Nú hefur verið opnað fyrir skráningu á tjóni af völdum gæsa og álfta í ræktunarlandi bænda. Tilkynningarform er nú aðgengilegt fyrir bændur inn á Bændatorginu undir liðnum ,,Umsóknir“. Upplýsingarnar verða jafnharðan skráðar í gagnagrunn, sem nýtast á við frekari úrvinnslu og til ákvörðunartöku fyrir stjórnvöld, sem taka ákvörðun um framhaldið.
Framhaldið mun ráðast af þátttöku bænda í verkefninu við að tilkynna tjónið með rafrænum hætti í gegnum Bændatorgið. Verkefnið er unnið í samstarfi Bændasamtakanna, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, og mun Umhverfisstofnun koma að mati á tjón og vinna úr niðurstöðum. Rétt er að benda á að krafa er gerð um að spildur séu skráðar í JÖRÐ.IS með stafrænu túnkorti frá Loftmyndum, á þeim spildum sem tjón hefur orðið á. Þeir bændur sem ekki eru með stafræn túnkort eru hér með hvattir til að gera átak í þeim málum.
Að sögn Eiríks Blöndal, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, þá eru í gangi viðræður við stjórnvöld um næstu skref málsins. Næsta skref yrði þá að búa til aðgerðaáætlun til að byggja upp áhrifaríkar forvarnir svo og að leita leiða til að bæta tjón. Gert er ráð fyrir að búnaðarsambönd sjái um úttektir á tilkynntu tjóni í samráði við Umhverfisstofnun ef samningar um það nást. Eiríkur benti á að ályktun Búnaðarþings 2014, en Búnaðarþing taldi mikilvægt að draga skipulega úr tjóni af völdum álfta og gæsa á ræktunarlandi bænda. Búnaðarþing 2014 lagði til ,,Safnað [yrði] frekari upplýsingum um tjón sem álftir og gæsir valda á ræktarlöndum bænda. Á grundvelli þeirra gagna verði ákveðið hvort heimildarákvæði verði sett í lög um tímabundna skotveiði á álft og gæs í tilraunaskyni á ræktarlöndum bænda,“ eins og segir orðrétt í ályktuninni. Með því að opna fyrir skipulega skráningu nú í Bændatorginu væri fyrsta skrefið stigið í þessu mikilvæga hagsmunamáli bænda, sagði Eiríkur að lokum.