Skyr fer vel í erlenda ferðamenn
Nýlega var kynning í miðbæ Reykjavíkur þar sem ferðamönnum gafst færi á að smakka skyr. Skyrið vakti mikla lukku meðal ferðafólks sem flest hafði heyrt um skyr og langaði til að smakka. Það var greinilegt að fólki líkaði vel við þessa mjólkurafurð.
Íslenska skyrið er víða að slá í gegn á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum og Mjólkursamsalan gerir ráð fyrir að selja sextíu milljón dósir í ár á meðan átta milljón dósir munu seljast hér heima.
Starfsmenn Mjólkursamsölunnar hafa vart undan að framleiða og pakka íslenska skyrinu sem er flutt úr landi en mesta salan er í Finnlandi, Noregi, Sviss, Færeyjum og Grænlandi, auk þess sem lítill hluti fer á Bandaríkjamarkað.