Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Þetta Baühu-gámahús þykir smart og fullboðlegt í borginni Cannes í Frakklandi.
Þetta Baühu-gámahús þykir smart og fullboðlegt í borginni Cannes í Frakklandi.
Mynd / Baühu
Fréttir 14. október 2014

Smáhýsi eru hamingjuhús

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Að búa í gámi er hugtak sem hjá mörgum kann að hljóma líkt og að búa í helli. Smáhýsi eða gámaheimili eru þó langt frá því að vera einhverjar furðuhugmyndir, því vaxandi áhugi er fyrir að nota flutningagáma sem hráefni í íbúðarhús víða um heim.

Talað er um smáhýsahreyfingu í þessu sambandi og erlendis njóta svonefndir ný-kynslóðar húsbyggjendur töluverðrar virðingar. Fyrirtæki hafa sprottið upp sem breyta flutningagámum í íbúðarhús og mikil nýsköpun er þar í gangi.

Helstu ástæður vaxandi vinsælda slíkra húsa eru hvað þau eru ódýr, umhverfisvæn og kosta lítið í rekstri. Ekki sé verið að reisa sér hurðarás um öxl með því að byggja slík smáhýsi og auðvelt sé að laga þau að plássþörf hvers og eins. Hefur þetta leitt til þess að fólk sem búið hefur í hefðbundnum húsum er í auknum mæli farið að selja sín híbýli til að byggja smáhýsi og breyta um lífsstíl. Það notar svo afgangspeningana til að njóta lífsins í stað þess að þræla meirihluta ævinnar fyrir steinsteypu og bankastofnanir.

Spara pening og eru félags- og umhverfisvæn

Í kynningu fyrirtækis sem heitir New Generation Bulders er bent á nokkra augljósa kosti smáhýsanna. Þau spara pening, lækka skuldir, hámarka plássnýtingu, gefa fólki aukinn frítíma, auka samkennd íbúanna, eru uppspretta tilrauna til að efla lífsgæðin og skilja eftir sig minna kolefnisfótspor í náttúrunni. Kínverskir háskólanemar hafa einnig tekið þátt í þessari bylgju og kynnt smáhýsi sem kalla má örhýsi (micro-home) en rúmar samt allar nauðsynjar námsmannsins.

Patrick Collins er einn af stofnendum fyrirtækisins Montainer í bænum Missoula í Montana-ríki í Bandaríkjunum sem sett var á fót á síðasta ári. Hann lýsir þeirri bylgju sem nú er í gangi varðandi smáhýsabyggingar í samtali við OPB News. Þeir byrjuðu á að kaupa notaða flutningagáma frá Seattle, Portland og San Francisco sem þeir hugðust endurnýta. Nú í september kynntu þeir svo frumgerð af smáhýsi sem þeir hafa hannað úr gámum og kalla Nomad 192. Þeir reikna með að geta byrjað að selja fyrstu smáhýsin sem hönnuð eru upp úr gömlum gámum í byrjun árs 2015.

„Tilbúinn, íbúðarhæfur flutninga­gámur kostar um 65 þúsund dollara (um 7,5 milljónir íslenskra króna). Í honum er allur búnaður með pípulögnum og öllu. Þessir gámar eru mjög góður kostur fyrir fólkið í þessum borgum,“ segir Collins.

„Við höfum séð svona heimili byggð úti um allan heim, en oft hefur þá verið um að ræða tímabundnar lausnir á byggingarsvæðum, eða hús sem fólk hefur byggt sér sjálft. Hér erum við með meira tilbúna lausn.“ 

Stóru húsin sem stöðutákn

Á vefsíðu wnprnews í Connecticut í Bandaríkjunum má m.a. sjá grein um smáhýsahreyfinguna. Þar lýsir eigandi smáhýsis götumyndinni í hverfinu þar sem hann býr í Hartford. Í kringum hann eru misstór einbýlishús og jafnvel herragarður þar sem ríkisstjórinn býr. Erkibiskupinn býr aðeins neðar í götunni í enn stærra húsi. Hann segir að stóru húsunum sé þar greinilega ætlað að  lýsa mikilvægi persónanna sem í þeim búa. Skynsemi eða hagkvæmni skiptir þar greinilega engu máli.

Fjölmörg fyrirtæki framleiða gámahús til að nota sem tímabundna íverustaði á byggingarsvæðum. Ekkert er því til fyrirstöðu að nýta slík hús sem íbúðarhús til lengri tíma. Dæmi um slíkt fyrirtæki er Baühu-fyrirtækið sem er með höfuðstöðvar í Bretlandi, en er með söluaðila víða um heim. 

„Smáhýsi eru hamingjuhús“

Í blaðinu The Huffington Post í Bandaríkjunum er m.a. að finna grein um að byggingar úr gámahúsum hafi sannað sig í Amsterdam, þar sem smátt þyki betra en stórt.

„Smáhýsi eru hamingjuhús,“ segir kona sem blaðið ræddi við og býr í fimm hæða blokk í Amsterdam sem byggð er úr flutningagámum. Þar í borg, sem og í Rotterdam og víðar, er líka hefð fyrir því að búa í fljótaprömmum. Hafa yfirvöld lagt mikið upp úr því að viðhalda slíkri menningu með margvíslegri fyrirgreiðslu.

Einfalt og ódýrt

Í öllu tali hér á landi um vandræði íbúðaleigjenda með að komast í húsaskjól, þá mætti örugglega leysa slíkan vanda á skjótan hátt með því að opna svæði í þéttbýlinu, þar sem bygging smáhýsa yrði heimiluð og einnig notkun vandaðra hjólhýsa eða húsbíla um lengri eða skemmri tíma. Helsti vandinn sem þar er við að glíma er trúlega að mestu í kollinum á sumum sveitarstjórnarmönnum sem eiga í erfiðleikum með að hugsa aðeins út fyrir þægindakassann. Hjá þeim þykja „gámahús“ trúlega ekki nógu fín. Þetta hefur leitt til mikillar tregðu sveitarfélaga við að útvega lóðir undir slík hús. Þá þarf vart að efast um að fjárfestar og fjármálastofnanir sem nú leigja íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu út á uppsprengdu verði, hafi þar einhver áhrif.

Ekki verra fólk í litlum húsum

Oft skýtur þá upp í umræðunni óttanum við að upp rísi ígildi gömlu braggahverfanna sem fyllt verða með fátæku fólki og illleysanlegum, félagslegum vandamálum. Slíkur ótti er þó alveg óþarfur ef rétt er að regluverkinu staðið. Enda eru engin rök fyrir því að fólk sem vill láta skynsemina ráða og velur sér að búa í litlum húsum, sé eitthvað verra en „ríka“ fólkið í stóru húsunum, nema síður sé. Varla var það heldur efnaminna fólkið sem olli efnahagshruninu 2008.

Mörg þúsund manns í óíbúðarhæfu húsnæði

Jóhann Már Sigurbjörnsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, segir að Samtökum leigjenda hafi gengið erfiðlega að koma ríkisstjórn, sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum í skilning um þá slæmu stöðu sem íslenskt samfélag er komið í þegar kemur að húsnæðismálum.

„Við höfum sýnt ofangreindum aðilum fram á að hér á landi búa um 3.000 til 5.000 manns í „húsnæði“ sem telja má óíbúðarhæft. Fólk býr í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði, bílum, húsbílum og svo er hópur fólks sem er 25 ára og eldra fast í foreldrahúsum. Einnig eru sveitarfélög á landsbyggðinni í miklum vandræðum með húsnæði.“

Hvar á fólkið að búa?

„Þrátt fyrir velvilja stjórnvalda með uppbyggingu á skilvirkum leigumarkaði tekur það á bilinu 3 til 5 ár að byggja hann upp, eftir að frumvörpin, sem nú eru í smíðum, hafa fengið efnislega meðferð á Alþingi. Talið er að það verði ekki fyrr en á vormánuðum 2015 og þá á eftir að byggja sem tekur  þrjú til fimm ár. Samtökin spyrja sig því hvar fólkið eigi að búa á meðan.“

Gámahúsnæði gæti leyst bráðavandann

„Samtökin hafa bent á að það þurfi að koma til skammtímahúsnæði sem leysa bráðavandann, sem safnast hefur upp jafnt og þétt í allmörg ár, til dæmis með uppbyggingu á gámahúsnæði.“

Sveitarfélög andsnúin og ekkert heyrist frá verkalýðshreyfingunni

„Samband sveitarfélaga og stærstu sveitarfélög landsins hafa ekki tekið vel í þessar hugmyndir. Þá hafa samtökin ekki heyrt neitt um afstöðu stærstu stéttarfélaganna til slíkra lausna þrátt fyrir mikla umræðu meðal félagsmanna þeirra. Bent hefur verið á margvísleg áhyggjuefni og meðal annars hvernig slíkar lausnir gætu haft áhrif á heildarmyndina í þeim hverfum þar sem þau yrðu reist. Mest er þó talað um að það sé hugsanlega verið að hefja uppbyggingu á nýjum braggahverfum, eða öðru Höfðatorgi, sem fékk á sínum tíma á sig stimpilinn „fátækrarhverfi“.

Umræddir aðilar hafa einnig áhyggjur af samþjöppun ákveðinna samfélagshópa. Þessar áhyggjur eiga hugsanlega rétt á sér ef horft er á ákveðna samþjöppun sem hefur verið að eiga sér stað í Efra-Breiðholti, þar sem fasteignaverð er tiltölulega ódýrt. Einnig í vissum hverfum í Norðlingaholti þar sem boðið er upp á einstaklingsíbúðir og litlar fjölskylduíbúðir í langtímaleigu.“

Þarf að hugsa í lausnum, ekki vandamálum

„Vissulega geta alltaf komið upp margvísleg mál hvort sem um er að ræða íbúa húsa úr gámaeiningum eða í hefðbundnum íbúðarhúsum. Þá þarf að hugsa í lausnum en ekki í vandamálum. Við hjá Samtökum leigjenda á Íslandi sjáum ekkert því til fyrirstöðu að byggðar verði íbúðir úr slíkum einingum. Með einföldum aðgerðum og regluverki má fyrirbyggja vandamál. Þá mætti útfæra lausnirnar þannig að það þyki skemmtilegt og „cool“ að búa í slíkum húsum og sé góð leið til lífsstílsbreytinga. Svo má halda því til haga að þetta eru auðfæranlegar einingar. Þær geta því hentað mörgum sveitarfélögum sem lenda í tímabundnum húsnæðisvandræðum þar sem atvinnuástand er sveiflukennt.“

Hefðbundnar byggingar ekki alltaf betri

Hús úr gámum þurfa ekki að vera neitt lakari en aðrar byggingar nema síður sé. Ekki er t.d. hægt að hrópa húrra fyrir hundruðum og jafnvel þúsundum íbúða sem byggðar hafa verið á hefðbundinn hátt á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land á undanförnum árum. Allar þær íbúðir voru samt byggðar samkvæmt fyrirliggjandi byggingarreglugerðum. Þar eru allt of mörg sérlega illa byggð hús sem eru bæði lek og full af myglusvepp. Þessi hús, sem stimpluð eru í bak og fyrir samkvæmt regluverki stjórnmálamanna, hafa valdið fólki gríðarlegu fjárhags- og líkamstjóni. Enginn talar samt um að banna slíkar húsbyggingar.

Viðurkenndur íbúðarmáti víða um heim

Frakkar, Þjóðverjar, Hollendingar, Bandaríkjamenn, Ástralir og fleiri þjóðir telja sig fullsæmdar af byggingum sem nota gáma sem grunneiningar. Af hverju ættu Íslendingar þá ekki að taka slíkt til skoðunar? Reyndar hafa íslenskir ferðaþjónustubændur og fjárfestar í ferðaþjónustugeiranum hér á landi svolítið riðið á vaðið í þessum efnum með því að nota gáma til að reisa gistiheimili. Gott dæmi um slíkt er nýtt hótel á Hellu sem margir hafa dásamað fyrir glæsileika.

Hægt er að finna margvíslegar hugmyndir á netinu um hvernig fólk geti byggt sér heimili úr gámum. Þar er m.a. að finna vefsíðuna containerhome.info sem fjallar um hvernig eigi að byggja sitt eigið heimili úr  gámum. Upplýsingarnar eru einfaldar og auðskiljanlegar og sýna hvernig nota megi venjulega flutningagáma í þessum tilgangi. Þá er hægt að kaupa kennsludiska í gegnum þessa vefsíðu sem sýna hvernig eigi að byggja sér gámahús.

Kosturinn við gámahús er, að þegar búið er að reisa undirstöður og fyrsti gámurinn hefur verið hífður á grunninn, eru menn strax komnir með þak yfir höfuðið. Útfærslan á húsinu getur svo farið eftir efnum og aðstæðum og hægt að stækka eftir þörfum. Um leið eru minni líkur á að fólk reisi sér hurðarás um öxl með tilheyrandi félagslegum vanda. Bygging smáhýsa gæti því leyst fjölmörg félagsleg vandamál sem nútímasamfélagið hefur átt í erfiðleikum með að vinna úr.

Gámar hafa sérlega mikinn styrk

Gámar sem hráefni í hús er ekki vitlaus hugmynd, því þeir eru hannaðir til að þola mikið hnjask og eru því firnasterkir, en samt tiltölulega léttir. Hægt er að stafla þeim fullhlöðnum upp í miklar hæðir án þess að þeir leggist saman, eins og margir kannast við af myndum af gámaflutningaskipum. Þeir ættu því að þola vel hnjask, t.d. af völdum jarðskjálfta.

Til í fjölbreyttum útfærslum

Þá eru til margvíslegar útfærslur af flutningagámum, einangraðir kæligámar og óeinangraðir, stórir og litlir. Einnig eru framleiddir sérstakir fullbúnir gámar m.a. til að nota sem skrifstofuhúsnæði, íbúðargámar o.s.frv. Dæmi eru um að menn hafi reist heilar gámablokkir sem eru jafnvel býsna flottar í útliti. Oft er líka mikil hugmyndaauðgi á bak við slíkar byggingar sem margar hverjar eru mjög frumlega hannaðar af arkitektum.  

Einfaldasta mynd slíkra gámahúsa er hreinlega að setja glugga og hurðir á gáma og raða þeim saman eða stafla upp tveim eða fleirum allt eftir því hver plássþörfin er. Oftar en ekki hafa menn þó verið að klæða gámana að utan með timbri eða öðrum efnum, þannig að ómögulegt er að sjá að um venjulega flutningagáma er þar að ræða. Það besta við þetta allt saman er að fólk gæti mögulega leyst sinn húsnæðisvanda til skemmri eða lengri tíma fyrir kannski tvær til sjö milljónir króna. Það er líklega lægri upphæð en færi í leigu á tiltölulega lítilli íbúð í miðbæ Reykjavíkur í eitt til þrjú ár.
 

10 myndir:

Færri útflutt hross
Fréttir 7. janúar 2025

Færri útflutt hross

Útflutningur íslenskra hrossa árið 2024 verður minni en í fyrra.

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt
Fréttir 7. janúar 2025

Lækjarbakki flyst í Gunnarsholt

Ákveðið hefur verið að flytja meðferðarheimilið Lækjarbakka í Gunnarsholt á Rang...

Smáforrit til að panta sæðingar
Fréttir 6. janúar 2025

Smáforrit til að panta sæðingar

Smáforritið Fang, sem er notað fyrir pantanir á sæðingum og skráningar fyrir frj...

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins
Fréttir 6. janúar 2025

Haukur er nýr formaður Gæðingadómarafélagsins

Haukur Bjarnason, bóndi á hrossaræktarbúinu Skáney í Reykholtsdal, er nýr formað...

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti
Fréttir 6. janúar 2025

„Íslenskt lambakjöt“ verndað afurðaheiti

Gagnkvæm viðurkenning er nú á landfræðilegum afurðaheitum Íslands og Bretlands o...

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu
Fréttir 3. janúar 2025

Framtakssjóður kaupir meirihluta í Örnu

Í haust keypti samlagsfélagið SÍA IV, framtakssjóður í rekstri sjóðstýringarfyri...

Hert á ferlunum
Fréttir 3. janúar 2025

Hert á ferlunum

Einfalda, hraða og stytta á ferli rammaáætlunar til að flýta fyrir orkuöflun í l...

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru
Fréttir 3. janúar 2025

Fyrstu seiðin komin í Viðlagafjöru

Framkvæmdir við uppbyggingu Laxeyjar á fiskeldi í Vestmanna­eyjum hafa gengið sa...