Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, undirrituðu samning um nýja rannsóknar- og fræðasetrið á Laugarvatni í haust á ársfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, undirrituðu samning um nýja rannsóknar- og fræðasetrið á Laugarvatni í haust á ársfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
Mynd / Magnús Hlynur Hreiðarsson
Líf og starf 28. janúar 2019

Snýst um aukna upplýsingamiðlun, námskeiðahald og stefnumótun

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Helga Kristín Sæbjörnsdóttir hefur verið ráðin verkefnisstjóri nýs Rannsóknaseturs um sveitarstjórnarmál sem hefur tekið til starfa á Laugarvatni í húsnæðinu þar sem íþróttafræðasetur Háskóla Íslands var áður á Laugarvatni. 
 
–– Ríkið leggur 36 milljónir króna til nýja setursins næstu þrjú árin. En hver er Helga Kristín og út á hvað gengur nýja starfið?
„Ég er fædd í Reykjavík en ólst upp á Egilsstöðum í eldri hluta bæjarins í nálægð við Egilsstaðabýlið og með útsýni til Snæfells. Ég kláraði stúdentspróf við Menntaskólann á Egilsstöðum, kom við á Hólum í Hjaltadal þar sem ég nam ferðamálafræði og lauk þaðan diplomaprófi. Síðan lá leiðin um allar trissur en ég endaði á Laugarvatni þar sem ég hóf nám í íþróttafræði við Kennaraháskólann sem varð svo að Háskóla Íslands meðan á náminu stóð. Ég lauk námi í íþrótta- og heilsufræði með kennararéttindi 2010. Ég og maðurinn minn, Bjarni D. Daníelsson, drifum okkur saman í meistaranám en við fórum í fjarnám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst haustið 2016 og útskrifuðumst árið 2018, ég í febrúar en hann í ágúst.“  
 
Helga Kristín og Bjarni kynntust í gegnum Björgunarsveitina Ingunni á Laugarvatni þar sem hann sinnti formennsku. Þau bjuggu í Miðdal þar til sumarið 2017 þegar þau fluttu á Laugarvatn. Saman eiga þau tvö börn, Theodóru Þuríði, fædda 2010 og Arnald Inga, fæddan 2012. Bjarni átti þrjú börn fyrir sem eru í dag orðin stálpuð og búa í Reykjavík og Danmörku. Fjölskyldan á einnig heimilisvininn og hundinn Lísu.
 
Langar að hafa jákvæð áhrif á stjórnsýsluna
 
– En hvað kom til að Helga Kristín ákvað á sækja um nýja starfið á Laugarvatni?
„Mig langaði að breyta til og láta til mín taka á nýjum vettvangi. Í gegnum námið á Bifröst jókst áhugi minn á stjórnun og þá sérstaklega breytinga- og krísustjórnun. Þegar ég skrifaði meistaraverkefnið mitt las ég mikið um hið opinbera og þá starfsemi sem á sér stað innan stjórnsýslunnar og það vakti áhuga minn. Þar að auki þurfti ég að hafa samband við nokkur sveitarfélög í tengslum við rannsóknina mína sem fjallaði um innleiðingu heilsueflandi samfélags í opinberum rekstri. Sú upplifun var áhugaverð og jókst þá áhugi minn enn frekar á starfsemi opinberra stofnana. Mig langar að hafa jákvæð áhrif á stjórnsýsluna og það verður mitt markmið með starfinu sem leggst afar vel í mig.“
 
Upplýsingamiðlun, námskeið og stefnumótun
 
Helga Kristín segir að starfið sé nýtt og í mótun og því erfitt að segja nákvæmlega út á hvað það gangi en ákveðin sýn sé þó komin á hlutina sem á eftir að festa betur í stefnu og markmiðasetningu fyrir Rannsóknasetrið. 
 
„Í mjög stuttu máli sagt er aukin upplýsingamiðlun, námskeiðahald fyrir fulltrúa stjórnsýslunnar og stefnumótun þó stór partur af því sem fram undan er, auk þess að styðja þarf vel við rannsóknir og þróun í stjórnsýslufræðum. Þau verkefni sem unnið verður að til að byrja með munu miðast við þessa þætti meðal annars, en listinn er langur og skemmtilegur og af nógu að taka. Ég verð ein með aðsetur á Laugarvatni en í góðu samstarfi við fulltrúa okkar innan félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Teymisvinna er mikilvæg í starfi sem þessu og mun ég því ferðast eitthvað á milli,“ segir Helga Kristín.
 
Horfir á pólitík með opnu  hugarfari
 
Þegar Helga Kristín er spurð um áhuga sinn á sveita­rstjórnar­málum er hún ekki lengi að svara.
„Já, mér finnst sveitar­stjórnarmál mjög áhugaverð. Uppbygging sveitarfélaganna er svo fjölbreytt en samt þurfa allir að starfa innan sama ákveðna ramma. Svo bætist við rekstur og samkeppni einkaaðila sem veitir þessu enn meiri fjölbreytni og flækjustigið eykst þegar horft er á stærð og ekki síður staðsetningu. Þessi fjölbreytni í annars hægu umhverfi getur verið mjög áhugaverð og margir sem geta lært af reynslu og þekkingu annarra þegar kemur að sveitarstjórnarmálum. Ég hef aldrei setið í sveitarstjórn, er óflokksbundin og reyni frekar að horfa á pólitík með opnu hugarfari.“
 
Efla þarf landsbyggðina
 
Helga Kristín segir mjög brýnt að efla sveitarstjórnarstigið enda sé það mjög mikilvægt í íslensku samfélagi. Öllum sveitarfélögum ber jú að veita grunnþjónustu óháð kostnaði og hlúa að íbúum á þann hátt að það sé eftirsóknarvert að búa og starfa innan hvers sveitarfélags.
„Mér finnst það í raun og veru segja allt sem þarf. Ef kjörnir fulltrúar eru ekki samvinnuþýðir til uppbyggingar þá er ólíklegt að fólk vilji staldra við. Kröfur um þjónustu hafa aukist á sama tíma og þjónusta dregst saman og það er töluvert á skjön við það sem ætti að vera. Það verður að vera öflugt samstarf hagsmunaaðila og vilji til samvinnu því bæjarfélögin byggja oftar en ekki á krafti fólksins. Ef fólkið er ekki til staðar þá er ekki mikil orka í sveitarstjórnarmálum og hlutir komast síður í framkvæmd. Að mínu mati þarf að efla landsbyggðina og ýta undir þekkingu og reynslu þeirra sem þar vilja búa en fyrst verður að tryggja að grunnþjónusta sé til staðar.“
 
Fyrstu verkefnin
 
Fyrstu verkefni Helgu Kristínar eru að hitta samstarfsfólk sitt í Reykjavík hjá Háskóla Íslands  og koma sér svo fyrir  á Laugarvatni. Fram undan er frekari stefnumótun og markmiðasetning fyrir Rannsóknasetrið, sækja þarf um styrki til frekari rannsókna og efla upplýsingamiðlun. Hún segist reikna fastlega  með því að verkefnum verði forgangsraðað fljótlega eftir að formleg opnun setursins er afstaðin.
 
Staðsetningin frábær á Laugarvatni
 
– En hvað með staðsetningu nýja Rannsóknasetursins á Laugarvatni, er það heppilegur staður undir svona starfsemi?
„Já, staðsetningin er frábær því við höfum mjög gott húsnæði sem nýtist undir ráðstefnur, styttri námskeið eða lengri og kennslu. Auk þess höfum við flotta möguleika á gistingu, frábært drífandi umhverfi í kyrrðinni og yndislegt útsýni og möguleika á útiveru. Í dag fer mikið af samskiptum fram í gegnum netið og því skiptir staðsetningin ekki öllu máli hvað varðar upplýsingamiðlun. En tækifærin eru ótal mörg og styrkir samfélagið okkar hérna enn frekar,“ segir Helga Kristín um leið og hún hvetur alla áhugasama að kíkja inn á Facebook- síðuna sem heitir einfaldlega; „Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála“ og svo er líka hægt að fara inn á heimasíðuna www.stjornsyslustofnun.hi.is 

5 myndir:

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...