SS lækkar afurðaverð á öllum nautgripaflokkum nema ungkálfum
Landssamband kúabænda (LK) gagnrýnir harðlega fyrirhugaðar verðbreytingar á afurðaverði hjá Sláturfélagi Suðurlands (SS). Samkvæmt nýútgefinni verðskrá lækka allir nautgripaflokkar nema ungkálfar um fimm prósent og gripir sem eru undir 200 kílóum lækka um þrú til fimm prósent umfram hina almennu lækkun.
Ungkálfar eru samkvæmt verðskrá SS hækkaðir um tíu prósent til að hvetja til minni ásetnings. Ástæður verðbreytinganna eru sagðar vera birgðasöfnun og versnandi staða á kjötmarkaði og taka gildi frá 18. janúar næstkomandi.
Í bréfi sem stjórn LK hefur sent stjórn SS er þessum breytingum mótmælt harðlega og óskað er eftir að stjórn taki þessa ákvörðun til endurskoðunar. „Með gengdarlausum lækkunum á greinina undanfarin ár og núna boðuðum aðgerðum til að hvetja sérstaklega til samdráttar í framleiðslu óháð öllu er farið í þveröfuga átt. Skilaboðin eru einfaldlega þau að gæðin og sérstaðan skipta ekki máli, einungis að geta keppt við verð. Nú þegar greinin fer í gegnum gríðarlega erfiðan tíma sökum Covid-19 gerir LK þá kröfu að afurðafyrirtæki í eigu íslenskra bænda -og markaðssetur sig sérstaklega sem slíkt – standi með bændum,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður LK.
Sjá nánar um bréf LK til SS á vef sambandsins (naut.is).